Jóhann Georg Jóhannsson fæddist í Keflavík 22. febrúar 1947. Hann lést á líknardeild LSH 15. júlí 2013.

Útför Jóhanns fór fram frá Fríkirkjunni 25. júlí 2013.

Ég stóð í Ráðhúsinu við Tjörnina á málverkasýningu pabba míns sem ég hafði ekki kynnst. Þú hafðir komið símanúmerinu þínu fyrir á einum veggnum, og á meðan hjartað hamaðist í brjósti mér setti ég númerið í símann minn. Flækjur í fortíðinni höfðu gert það að verkum að ég hafði ekki vitneskju um hvar og hver þú varst fyrr en eftir að ég flutti heim frá Bandaríkjunum. Ég hélt að þú vissir að ég var sonur þinn á þeim tímapunkti, en annað var upp á teningnum þegar ég loks safnaði kjarki og sendi þér skilaboð. Ég þurfti að hitta þig. Þú hringdir í mig, og í kjölfarið upplifðum við okkar fyrstu kynni. Við hittumst í fyrstu vikulega á vinnustofunni þinni þar sem við borðuðum banana, kex, osta og súkkulaði á meðan við tækluðum flækjur fortíðarinnar í sameiningu. Þú tókst mér opnum örmum og sagðir við mig að þú værir ánægður að eiga mig sem son. Mér þótti ólýsanlega vænt um að heyra þig segja þetta við mig, og mun ég ætíð geyma þessa stund í hjarta mér. Við feðgarnir vildum halda áfram að rækta okkar samband og vinna upp þann tíma sem við báðir höfðum því miður orðið af. Við fengum þó fjögur dýrmæt ár saman. Þú hafðir gefið mér tónlistargenin í fæðingargjöf þannig að við áttum strax sameiginlegt áhugamál. Þú sendir mér oft texta sem þú varst að vinna með og baðst mig um að gagnrýna þá, og þú gafst mér ráðleggingar um ýmislegt sem tengdist mínum tónlistarstörfum. Þú sýndir mér áhuga, vináttu og kærleika og ég fann að ég var ekki lengur sá týndi sonur sem ég hafði oft upplifað mig vera. Mér þótti ómetanlega vænt um síðbúnu brúðargjöfina sem þú gafst mér og konunni minni. Hún var í því fólgin að þú leyfðir mér að velja málverk eftir þig. Þú hafðir haft þennan háttinn á þegar börnin þín giftu sig og þú skildir mig ekki útundan þrátt fyrir það að við hefðum ekki upplifað brúðkaupsdaginn minn saman – enda langt síðan. Þarna fann ég aftur að ég var velkominn inn í líf þitt. Ég er svo þakklátur fyrir það að hafa fengið að kynnast þér, yndislegu konunni þinni, systrum mínum og fjölskyldunni allri. Tíminn okkar saman var stuttur en ég er þakklátur fyrir hverja mínútu sem við áttum saman. Á líknardeildinni eyddum við góðum tíma saman og einna minnisstæðust er sú stund þegar við hlustuðum saman á fallega lagið þitt um kærleikann í flutningi Óðmanna. Þér leið ekki of vel líkamlega á þeirri stundu, en lifnaðir allur við þegar ég spilaði það og vildir láta taka myndir af okkur tveimur og Kötu systur þinni sem var hjá okkur. Þér var mikið í mun að myndirnar væru teknar á meðan lagið hljómaði. Þú gafst mér stóra og dýrmæta gjöf: Mig og þig. Nú ertu farinn, en ekki frá mér, því þú munt alltaf vera hluti af mér. Blóðið og tónlistin tengir okkur saman sterkum böndum sem enginn fær slitið. Takk fyrir allt, pabbi. Ég sakna þín.

Við

þú málaðir mynd

af mér og þér

á striga tímans

skuggar og skarpir litir

stigu dans

á fölum grunni

mjúkar strokur

kysstu baugalínur

kærleikans verk

þú penslaðir mig inn

með léttum strokum

fram á hinstu stund

(Ívar Jóhann

– ort að útför lokinni.)

Þinn,

Ívar Jóhann.