[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Þegar mánudagurinn 10. ágúst 1943 rann upp virtist sem þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum 1943 hefði tekist með miklum ágætum, fyrir utan að veðurhremmingar á föstudeginum höfðu eyðilagt tjöldin í Herjólfsdal.

Sviðsljós

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Þegar mánudagurinn 10. ágúst 1943 rann upp virtist sem þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum 1943 hefði tekist með miklum ágætum, fyrir utan að veðurhremmingar á föstudeginum höfðu eyðilagt tjöldin í Herjólfsdal. Síðar þann dag fóru að berast fregnir um að menn hefðu dáið snögglega og virtist sem ekki væri allt með felldu. Fljótlega beindust böndin að áfengiseitrun.

Þegar þriðjudagurinn rann upp kom í ljós að sjö menn og ein kona voru látin og að nokkrir menn til viðbótar lágu þungt haldnir á sjúkrahúsi. Á miðvikudeginum lést síðan síðasti maðurinn af völdum eitrunarinnar. Í frásögn Kristjönu Óladóttur, sem varðveitt er á skjalasafni Vestmannaeyja segir að fleiri hafi legið veikir út um bæinn sem hefðu ekki viljað láta leggja sig á sjúkrahús þar sem þeir voru ekki mjög hættulega veikir.

Fundu tunnu á reki

Þegar farið var að rannsaka málið kom í ljós að fólkið hafði drukkið tréspíritus eða metanól. Bátsverjar á v.b. Stakkárfossi frá Vestmannaeyjum höfðu, stuttu fyrir þjóðhátíð, fundið tunnu á reki á sjó úti. Ákváðu bátsverjarnir, þeir Ólafur Davíðsson skipstjóri, Guðni Hjörtur Guðnason og Halldór Elías Helgason, að flytja hana með sér á land. Þar skiptu þeir með sér innihaldi tunnunnar, sem tók 190 lítra, og töppuðu á flöskur. Fékk hver um sig 52 og hálfan lítra. Þeir skildu afganginn eftir í bátnum. Bundust þeir fastmælum um að drekka ekki vínandann fyrr en gengið hefði verið úr skugga um að hann væri hæfur til neyslu. Halldór fór síðan á sjóróðra og var við þá yfir verslunarmannahelgina. Gaf hann því engum af spíranum og afhenti lögreglu sinn skammt í heilu lagi eftir helgina.

Þeir Hjörtur og Ólafur reyndu hins vegar að athuga hvort um venjulegt alkóhól væri að ræða eða tréspíritus. Afhenti Hjörtur meðal annars Þorláki Sverrissyni kaupmanni í Söluturninum eina flösku, en Þorlákur átti tréspíritus fyrir og bar vökvana tvo saman. Sagði Þorlákur að hann teldi að vökvinn í flösku Hjartar væri ekki tréspíritus þar sem munur væri á lykt og bragði. Þorlákur hélt því eftir flöskunni. Þegar þjóðhátíðin byrjaði hitti Hjörtur Þorlák og var hann þá vel ölvaður. Sagðist Þorlákur viss um að vínið væri í lagi til neyslu. Töldu þeir Hjörtur og Ólafur því óhætt að neyta vínsins. Drukku þeir báðir vel af og gáfu öðrum með sér. Dreifðist tréspíritusinn því um þjóðhátíðarsvæðið nokkuð. Virtist sem mönnum yrði ekki meint af.

Harmleikurinn kemur upp

Að lokinni þjóðhátíð fór að bera á veikindum manna þegar Daníel Loftsson verslunarmaður lést skyndilega. Stuttu síðar fannst Þorlákur Sverrisson látinn í Söluturninum og var menn þá þegar farið að gruna áfengiseitrun. Jón Gestsson slippstjóri, Guðmundur Guðmundsson stýrimaður, Ingvi Sveinbjörnsson, Sveinjón Ingvarsson sjómaður, Þórarinn Bernódusson vélstjóri og Árný Guðjónsdóttir húsfrú létust einnig á þriðjudeginum. Bæði Hjörtur og Ólafur veiktust nokkuð og voru færðir á spítala. Var Ólafur sá síðasti sem lést af völdum tréspírans. Ellefu til viðbótar veiktust alvarlega. Náðu þeir sér allir að fullu fyrir utan Andrés Gestsson, síðar húsgagnabólstrara og nuddara, en hann missti sjónina og var blindur alla ævi.

Ákæruvaldið sótti mál gegn þeim Hirti og Halldóri Elíasi fyrir að hafa brotið tollalög með því að taka tunnuna um borð í Stakkárfoss, en Hjörtur og Guðni Einarsson, leigjandi Ólafs, voru ákærðir fyrir að hafa orðið valdir að manndrápum af gáleysi, en Guðni hafði einnig dreift spíranum. Halldór var sýknaður í Hæstarétti fyrir sinn þátt í málinu, en Hjörtur hlaut eins árs fangelsisdóm og Guðni sex mánaða dóm.

Keppnisferðalagið hefði getað endað illa

„Það sem stendur upp úr er hvað við stóðum okkur vel hvað varðar áfengisneysluna, enda bjargaði það okkar lífi,“ segir Rafn Sigurðsson, fyrrverandi framhaldsskólakennari, en hann var einn af þeim sem voru í Vestmannaeyjum á þjóðhátíð 1943. Rafn var í keppnisferð með 2. flokki KR í knattspyrnu sem hafði verið boðið til Vestmannaeyja um helgina.

Flokkurinn, 19 drengir á aldrinum 16-19 ára, fór saman með vélbátnum Gísla Jónssyni á föstudeginum. Öttu þeir kappi við heimamenn bæði á laugardeginum og sunnudeginum, unnu fyrri leikinn en gerðu jafntefli í þeim seinni. Rafn segir að Eyjamenn hafi tekið á móti þeim með miklum höfðingsskap. „Þetta var ágæt ferð en hún byrjaði á því að við vorum kallaðir á fund hjá Gísla Guðmundssyni, þjálfaranum okkar. Hann lagði okkur lífsreglurnar,“ segir Rafn, sem er það minnistætt hvað Gísli lagði mikla áherslu á það að flokkurinn væri þarna í nafni KR og því ættu þeir ekki að drekka. „Það mátti enginn blettur falla á KR,“ segir Rafn. Segja má að árétting Gísla hafi orðið þeim til happs, því að síðasta kvöldið sátu KR-ingarnir til borðs og átu saman. Kom þar að maður sem Rafn þekkti og bauð mönnum drykk úr flösku í sínum fórum. Þáði enginn af KR-ingunum sopa úr pelanum. Þegar flokkurinn var kominn aftur á land bárust þeim fréttir umað fólk væri veikt í Eyjum, hugsanlega af matareitrun. Þegar til Reykjavíkur var komið fréttu þeir fyrst hvernig í málinu lá. Þá kom einnig í ljós að einn af þeim látnu var sá sem hafði boðið KR-ingunum úr flöskunni sinni um kvöldið.

Ógn og skelfing greip þjóðina

Fyrstu fregnir Morgunblaðsins af harmleiknum greindu frá því á forsíðu blaðsins að átta manns hefðu látist af völdum áfengiseitrunar í Vestmannaeyjum á miðvikudeginum. Sagði að fólkið hefði sennilega drukkið tréspíritus úr tunnu er fannst á reki. Var áfram greint frá málinu degi síðar og rakið að níundi maðurinn hefði þá látist.

Fréttirnar vöktu þónokkurn óhug vítt og breitt um landið. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins sagði að ógn og skelfing hefði gripið gervalla þjóðina yfir þeim hörmulegu tíðindum sem borist hefðu frá Vestmannaeyjum. Það væri ekki lítið áfall fyrir lítið bæjarfélag að missa níu manns á þennan voveiflega hátt. Fór hann hörðum orðum um þá sem bæru ábyrgðina á þessu verki. „En sjeu þeir menn lífs, sem hjer hafa að verki verið, fer vart hjá því, að samviskubitið hafi heimsótt þá, vitandi það, að þeir hafa svona mörg morð á samviskunni. Því að vissulega hafa þessir menn framið morð, svo oft sem það hefir verið brýnt fyrir fólki, að neyta ekki vökva, sem finst rekinn á fjörum eða sjó úti.“ Taldi leiðarahöfundurinn því að mennirnir hefðu enga afsökun fyrir verknaði sínum.