Veiðimaður Það veiðist vel fyrir vestan og sleppingar á laxi hafa skilað árangri, segir Einar Sigfússon, eigandi Haffjarðarár. Í baksýn sjást áin og Rauðamelskúlan, sem Einar kallar svo, sem setur sterkan svip á umhverfið þarna.
Veiðimaður Það veiðist vel fyrir vestan og sleppingar á laxi hafa skilað árangri, segir Einar Sigfússon, eigandi Haffjarðarár. Í baksýn sjást áin og Rauðamelskúlan, sem Einar kallar svo, sem setur sterkan svip á umhverfið þarna. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Veiðimenningin hefur breyst; vitundin fyrir vernd náttúrunnar og að njóta hennar ekki síður en nýta er mun sterkari en áður. Fyrir fáum árum hefði fólki varla þótt koma til greina að sleppa veiddum laxi.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Veiðimenningin hefur breyst; vitundin fyrir vernd náttúrunnar og að njóta hennar ekki síður en nýta er mun sterkari en áður. Fyrir fáum árum hefði fólki varla þótt koma til greina að sleppa veiddum laxi. Vildi sitja að bráðinni. Í dag þykir þetta hins vegar sjálfsagt, enda er þessi háttur hafður á í æ fleiri ám. Þetta skilar sér líka í því að fiskgengd hér í ánni hefur aukist til muna á síðustu árum,“ segir Einar Sigfússon.

Á með ævintýrablæ

Líðandi sumar er það sautjánda sem Einar er í veiðinni vestur í Hnappadal – en það var haustið 1996 sem hann eignaðist helming Haffjarðarár og Oddastaðavatns – auk 50% hlutar í átta jörðum við ána. Hitt átti og á Óttar Yngvason hæstaréttarlögmaður. Haffjarðará hefur í tímans rás þótt ein besta laxveiðiá landsins og haft yfir sér ákveðinn ævintýrablæ.

Veðrátta í sumar hefur verið öllum veiðiskap í vil. Komið hafa hressilegir rigningardagar en þess á milli sólarstundir, eins og var þegar Morgunblaðið var fyrir vestan í vikunni.

Um 2.000 fiskar á sumri

„Þetta verður gott sumar. Það fyrsta sem ég var hér, það er 1997, veiddust 528 laxar. Strax þá settum við þá meginreglu að sleppa skyldi öllum laxi sem veiddist – nema hvað menn mega taka einn smálax á dag. Þessi stefna skilaði fljótt árangri. Um aldamótin voru hér farnir að veiðast á bilinu 1.000 til 1.300 fiskar á sumri og nú seinni árin 1.500 til 2.000 hvert sumar. Síðasta ár var hér heldur minni veiði en vanalega, eins og annars staðar hér vestra þó Haffjarðaráin hafi komið langbest út af Vesturlandsám,“ segir Einar sem leggur áherslu á hóflega nýtingu. Þannig er leyfi fyrir átta stöngum í ánni, en aðeins er veitt á sex. Veiðitímabilið hefst um miðjan júní og lýkur 12. september.

Komst ungur á bragðið

„Bretar og Bandaríkjamenn eru áberandi meðal þeirra sem hingað koma í veiði. Einnig mæta Íslendingar hingað í nokkrum mæli og allt þetta fólk vill góða þjónustu og viðurgjörning. Því fylgja leiðsögumenn hverjum veiðimanni eftir og vísa á þá staði þar sem helst er veiðivon. Og svo hefur veiðihúsið hér á Geiteyri auðvitað ákveðið aðdráttarafl,“ segir Einar Sigfússon sem hefur verið viðloða veiði síðan í barnæsku. Hann er uppalinn á Selfossi og stóð sem strákur löngum stundum á bökkum Ölfusár. Komst þar á bragðið og æ síðan hefur veiðiskapur verið mikið áhugamál Einars.

Frá tímum Thorsaranna

Rautt og bárujárnsklætt veiðihúsið við Haffjarðará, sem er á hægri hönd þegar ekið er vestur á Snæfellsnes, grípur augað. Það var reist 1918 á vegum Thors Jensens sem lét að sér kveða á Snæfellsnesi með jarðakaupum. Húsið á Geiteyri, sem lengi var í eigu Thorsættarinnar, þótti á sínum tíma veglegt og glæsilegt og er raunar enn – öld síðar – og í tímans rás hefur því og öðrum byggingum á svæðinu verið vel við haldið „Hér eru ýmsir munir frá tímum Thorsaranna. Þá höfum við í öndvegi og viljum þannig sýna sögunni virðingu,“ segir Einar.