Þórður Sævar Jónsson fæddist 24. ágúst 1934. Hann lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 18. júlí 2013.

Þórður Sævar var jarðsunginn frá Neskirkju 2. ágúst 2013.

Sumarið 1962 sá ég stúlku sem afgreiddi í verslun föður síns, Jóns Þórðarsonar, í Þingholtstræti 1, og var klædd samkvæmt nýjustu tísku. Í ljós kom að stúlkan, sem fáum árum seinna varð konan mín, hafði siglt með Þórði stóra bróður sínum til Rotterdam og Hamborgar á Ms Selfossi. Saman höfðu þau farið í flottustu búðirnar og meira að segja séð Bítlana spila á Star Club í Hamborg rétt áður en þeir urðu heimsfrægir. Tveimur árum seinna fórum við Þóra sama túr með Þórði. Svona var Þórður mágur minn alla tíð, gestrisinn, örlátur og skemmtilegur. Þótt Þórður væri kominn af kaupmönnum í Þingholtsstræti 1, þar sem Jón Þórðarson elsti byggði fyrsta steinhúsið fyrir austan læk árið 1892 og rak landskunna verslun, fór hann snemma á sjóinn. Samskipti okkar voru því stundum slitrótt en þegar hann kom í land var bæði tilhlökkun og fagnaðarfundur. Sú tilfinning fylgdi Þórði alla tíð eftir að hann fór að vinna við virkjanir á hálendinu og eins eftir að hann flutti á Laugarbakka, svo á Hvammstanga og loks á Flateyri, það var alltaf gaman þegar Þórður kom í bæinn. Hann var snyrtimenni til fara og bíllinn var ævinlega þveginn við borgarmörkin. Seinni árin átti hann vísan samastað hjá okkur í Engjaseli hvenær sem hann vildi. Þá voru sagðar sögur og hlegið dátt, ekki síst um jól og áramót þegar fjölskyldan kom saman. Hans verður sárt saknað á næstu jólum.

Þórður eignaðist fjögur mannvænleg börn með tveimur fyrstu konum sínum, en þau hjónabönd urðu skammvinn. Hann eignaðist Jón Sævar og Guðnýju Arndísi með Bergljótu Aðalsteinsdóttur. Guðný dó aðeins 14 ára gömul í bílslysi og það var Þórði þungbært. Síðan eignaðist hann Margréti og Steingrím Jón með Arngunni Jónsdóttur. Örlögin höguðu því þannig að við Þóra tókum Steingrím sem okkar fósturson þegar hann var fimm ára og Margrét átti athvarf hjá okkur um skeið. Þrátt fyrir allt var ást og skilningur milli allra aðila í þessu flókna fjölskyldumynstri og við Þórður sögðum gjarnan frá því að við ættum börn saman. Betra gat það nú ekki orðið. Það var stóra gæfan í lífi Þórðar er hann kynntist henni Láru sinni, sem var lífsförunautur hans í 31 ár. Þau bjuggu á Laugabakka og Hvammstanga í 10 ár og á Flateyri í 17 ár. Fyrstu árin ráku þau hinn kunna skemmtistað Vagninn, sem var Flateyringum nauðsynlegur samkomustaður eftir snjóflóðið, og mig grunar að Þórður vagnstjóri hafi reynst mörgum góður sálufélagi, þótt það hafi allt verið með óbeinum hætti. Það var ekki síður ánægjulegt að njóta gestrisni Láru og Þórðar þegar þau voru heimsótt.

Þegar Þórður hætti að vinna tók sig upp gamalt áhugamál sem hafði blundað með honum síðan hann var að sinna trjárækt með föður sínum barn að aldri í landskika fjölskyldunnar við Rauðavatn. Og það var eins og við manninn mælt, allt óx og dafnaði sem hann setti niður, hvort sem það var í hans eigin garði, við íþróttahúsið eða meðfram götum á Flateyri. Við Þóra áttum erindi á Vestfirði um daginn og komum í garðinn hans stutta stund. Þar var allt með glæsibrag, tré og plöntur. Daginn eftir kvaddi Þórður þennan heim, umvafinn ástvinum sínum. Lengi átti hann sér þá von að sjá garðinn sinn í blóma einu sinni enn. Það gerir hann nú án fjötra hins jarðneska lífs. Þakkir fyrir allt sem þú gafst okkur og megi góður Guð styrkja Láru og fjölskylduna á sorgarstundu.

Björn G. Björnsson.