Mörgum var létt á þriðjudag þegar herdómstóll í Bandaríkjunum komst að þeirri niðurstöðu að Bradley Manning hefði ekki verið að „aðstoða óvininn“ þegar hann lak hundruðum þúsunda leynilegra skjala bandarískra stjórnvalda til Wikileaks.

Mörgum var létt á þriðjudag þegar herdómstóll í Bandaríkjunum komst að þeirri niðurstöðu að Bradley Manning hefði ekki verið að „aðstoða óvininn“ þegar hann lak hundruðum þúsunda leynilegra skjala bandarískra stjórnvalda til Wikileaks. Saksóknarar í málinu höfðu haldið því fram að Manning hefði mátt vita að birting gagnanna gæti þjónað hagsmunum erlendra ríkja og valdið Bandaríkjunum tjóni en dómarinn hafnaði þeim málflutningi.

Ef niðurstaðan hefði orðið á hinn veginn hefði það haft víðtækar afleiðingar. Ef Manning, sem hefur ekki átt í neinum samskiptum við þekkta óvini Bandaríkjanna né haldið á lofti „óbandarískum“ áróðri, hefði verið fundinn sekur um að „aðstoða óvininn“ með því að leka upplýsingum sem voru birtar á netinu, fyrir alla en engan sérstakan að sjá, hefði mátt túlka dóminn þannig að öll birting efnis á opnum vefsvæðum gæti talist „aðstoð við óvininn“. Það hefði verið þungt högg gegn frjálsri miðlun upplýsinga.

Á sama tíma og saksóknarar voru önnum kafnir við að mála skrattann á vegginn leituðust verjendur Mannings við að draga upp aðra mynd af skjólstæðingi sínum. Hann væri einfaldur ungur strákur sem hefði brugðið við það sem hann sá við störf sín í Írak og vildi með gjörðum sínum opna á umræðu um utanríkisstefnu Bandaríkjamanna. Sú umræða sem átti sér stað í samfélaginu í kringum málaferlin endurspeglaði málflutning aðila: Manning, hetja eða svikari?

Ef marka má athugasemdakerfi stóru fjölmiðlanna beggja vegna Atlanshafs virðast fylkingarnar með og á móti álíka stórar. Rökin sem menn færa fyrir afstöðu sinni eru af ýmsum toga en einna áhugaverðust þegar menn grípa til þess að bera saman Manning og Edward Snowden.

Mál þeirra eru að mörgu leyti ólík. Manning skráði sig í herinn, líkaði ekki það sem hann sá, stal gífurlegu magni gagna og lak þeim öllum á svo til einu bretti. Snowden réði sig til starfa fyrir Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna gagngert til að stela upplýsingum en hefur legið á þeim og lekið í smáum skömmtum. Manning er svikari af því að hann lak öllu, og miklu, óháð innihaldi. Snowden er uppljóstrari af því að hann hefur valið hverju hann lekur. Manning er hetja af því að hann tók afleiðingum gjörða sinna. Snowden er svikari af því að hann flúði. Sitt sýnist hverjum.

Menn virðast á eitt sáttir um að báðir hafi brotið lög. Og það er ósköp skiljanlegt að bandarísk stjórnvöld vilji gera báða að fordæmi. Það segir sig sjálft að það gengur ekki að það sé í höndum óbreyttra borgara eða lágt settra hermanna að ákveða hvaða upplýsingar um starfshætti leyniþjónustunnar eða hermálayfirvalda eiga erindi við almenning. Vandinn er hins vegar sá að yfirvöldum vestanhafs virðist ekki vera treystandi til þess heldur. holmfridur@mbl.is

Hólmfríður Gísladóttir