Hrjóstrugt Þátttakendur hlaupa yfir torfært landsvæði og geta lent í ýmsu. Hlaupið stendur yfir í sex daga og hefst á morgun.
Hrjóstrugt Þátttakendur hlaupa yfir torfært landsvæði og geta lent í ýmsu. Hlaupið stendur yfir í sex daga og hefst á morgun. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Á morgun hefst hlaup á Íslandi á vegum fyrirtækisins Racing the Planet. Af því tilefni hafa tæplega þrjú hundruð erlendir hlauparar boðað komu sína.

Baksvið

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Á morgun hefst hlaup á Íslandi á vegum fyrirtækisins Racing the Planet. Af því tilefni hafa tæplega þrjú hundruð erlendir hlauparar boðað komu sína. Hver keppandi reiðir fram 3700 dollara, sem jafngildir um 442 þúsund krónum, í þátttökugjald.

Sé miðað við að þrjúhundruð keppendur taki þátt má gera ráð fyrir því að heildartekjur af þátt-tökugjaldi séu sem nemur 130 milljónum króna.

Racing the Planet er hlauparöð svonefndra óbyggðahlaupa. Hlaupið á Íslandi tekur sex daga. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu RTP eru hlaupnir 40-50 kílómetrar fyrstu fjóra dagana, um 67 kílómetrar fimmta daginn og svo 10 kílómetrar lokadaginn. Heildarvegalengdin er um 250 kílómetrar. Fram kemur á heimasíðu hlaupsins að lagt verði af stað frá ónefndum stað á milli Vatnajökuls og Langjökuls. Keppendur fá ekki að vita hlaupaleiðina sjálfa fyrr en þeir koma á staðinn þó ljóst sé að farið verður um hálendi Íslands. Að lokum hvers dags fá keppendur svo að vita hver hlaupaleið næsta dags verður, ekki fyrr. Sá stendur uppi sem sigurvegari sem fer leiðirnar sex á stystum tíma.

Þrír Íslendingar taka þátt

Þrír Íslendingar eru skráðir til leiks, Sigurður Hrafn Kiernan, Hulda Garðarsdóttir og Rebekka Garðarsdóttir. Hulda og Rebekka eru búsettar í Hong Kong en fljúga sérstaklega til landsins til þess að taka þátt í hlaupinu. Sigurður segir að keppnin hafi lítið verið kynnt hér á landi enda markhópurinn ekki Íslendingar.

Að sögn Sigurðar koma um 100 manns að skipulagningu hlaupsins.

„Þeir mega ekki tjá sig neitt um hlaupið því keppendur mega ekki vita neitt um hlaupaleiðirnar. Á hverju kvöldi er svo farið yfir hlaupaleiðir næsta dags,“ segir Sigurður.

Ekki nóg með að þátttakendur hlaupi tugi kílómetra yfir torfært landslag, heldur þurfa þeir einnig að bera með sér um 15 kíló á bakinu.

„Við þurfum að taka með mat fyrir sjö daga, þunna dýnu, föt, svefnpoka og lyf auk öryggisbúnaðar svo dæmi sé nefnt. Við fáum ekkert frá skipuleggjendum nema vatn og tjald,“ segir Sigurður.

Efnaðir hlauparar

Auk þátttökugjaldsins þurfa keppendur að borga fyrir flug og gistingu og því má gera ráð fyrir að heildarkostnaður hvers keppanda sé ærinn. „Þetta er tiltölulega efnað fólk sem er að taka þátt,“ segir Sigurður sem sjálfur fékk boðsmiða í keppnina í gegnum 66°Norður sem styrkir keppnina. Sigurður segir að hann hafi ekki undirbúið sig sérstaklega fyrir keppnina en hann hlaupi reglulega.

Gera má ráð fyrir því að kepp-endur lendi í ýmsum aðstæðum og að meðal torfæra verði ár, snjór, eðja og brattar brekkur. Að sögn Sigurðar gerir hann ráð fyrir því að hver leggur taki 5-10 klukkustundir. Til samanburðar kláraði sigurvegari í karlaflokki í hlaupi sem haldið var í Jórdaníu í fyrra, Ítalinn Paulo Berghani, hlaupið á samtals 27 klukkustundum og 11 mínútum rúmum. Sigurvegari í kvennaflokki var einnig ítalskur, Katia Figini, og hljóp hún á 29 klukkustundum og 37 mínútum rúmum.

Fimm hlaup á hverju ári

Racing the planet er fyrirtæki sem sérhæfir sig í skipulagningu óbyggðahlaupa. Time Magazine valdi hlaup á vegum þess það besta í flokki langhlaupa utan vega árin 2009 og 2010.

Racing the Planet hefur aðsetur í Hong Kong og var stofnað af hinni bandarísku Mary K. Gadams árið 2002. Árlega skipuleggur fyrirtækið fimm hlaup. Ávallt er hlaupið í Góbíeyðimörkinni í Kína, Saharaeyðimörkinni í Egyptalandi, í Síle og á suðurpólnum.

Á hverju ári er svo valinn einn nýr áfangastaður og varð Ísland fyrir valinu í ár.

Af fyrri áfangastöðum má nefna Namibíu, Víetnam, Ástralíu, Nepal og Jórdaníu.