[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýlega las ég bandarískan reyfara þar sem greindi frá konu nokkurri sem stóð á verönd við hús sitt. Vindhviður skóku húsið og konan hélt sér dauðahaldi í grindverkið til að forðast að verða svipt „fyrir borð“.

Nýlega las ég bandarískan reyfara þar sem greindi frá konu nokkurri sem stóð á verönd við hús sitt. Vindhviður skóku húsið og konan hélt sér dauðahaldi í grindverkið til að forðast að verða svipt „fyrir borð“. Konan, sem um ræðir hefði, ef svo illa hefði tekist til að hún hefði fokið af verönd sinni, fallið í garð sinn meðal mjúkra grasa og blóma – en ekki í æstar öldur hafsins þar sem beið hennar barátta fyrir lífinu. Þetta, að konan skyldi óttast að falla „fyrir borð“ af verönd sinni, olli því að ég fór að hugsa um örlög orðanna, ekki síst borðsins. Hvenær er hægt að falla fyrir borð eða fara um borð.

Við göngum um borð í skip og báta sem á vitaskuld rætur í því að um viðartegundir var að ræða. Þessir farkostir voru smíðaðir úr timbri, borðviði. Nú eru dagar slíkra skipa og báta að mestu taldir. Plast og stál hefur tekið við. En hvað um það, enn förum við um borð – og föllum fyrir borð. En þetta borð færði sig með tímanum yfir á aðra farkosti. Ég hef oft heyrt talað um að fólk fari um borð í flugvélar og jafnvel áætlunarbíla – en ekki aðra bíla, t.d. einkabíla – enn. Nú nýlega mátti heyra í fréttum útvarps að ógæfusöm kona nokkur, ákaflega ölmóð, var dregin af vígreifum verði laganna „um borð í lögreglubílinn“. Eftir þessu að dæma má búast við að einn góðan veðurdag fari Jói litli um borð í þríhjólið sitt og, sakir þess að hann er enn að æfa sig, falli fyrir borð.

Það er líka ástæða til að minnast þess hér að enn borðar fólk við borð sem ekki lengur eru úr viði heldur plasti, gleri, stáli og fleiri efnum.

Þessi þróun er ekkert einsdæmi. Eitt sinn var orðið herðatré réttnefni. Það var að mestu úr tré. Síðar komu til sögunnar önnur efni en tréð sat sem fastast. Við hengjum fötin okkar á herðatré þótt úr plasti sé og alls kyns vírum.

Hins vegar gerist það stundum að ágætum heitum hluta er gert að hverfa sakir þess að hluturinn breytir um form. Önnur orð setjast á þá í staðinn. Gott dæmi um slíkt er hið fallega orð gleraugnahús, orð sem ég ólst upp við og sakna. Gleraugnahús höfðu eins konar dyr sem hægt var að opna og loka. Skyndilega var slíkum húsum lokað hinsta sinni en við tóku lágkúrulegri orð eins og hulstur eða hylki sem engin reisn er yfir.

Dagar gleraugnahúsa voru taldir.

Þórður Helgason thhelga@hi.is