Innkast Aron Einar undirbýr hér eitt af sínum hættulegu innköstum sem gætu nú verið úr sögunni.
Innkast Aron Einar undirbýr hér eitt af sínum hættulegu innköstum sem gætu nú verið úr sögunni. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, er í kapphlaupi við tímann um að ná sér af meiðslum fyrir fyrsta leik Cardiff í ensku úrvalsdeildinni sem er gegn West Ham 17. ágúst.

Fótbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, er í kapphlaupi við tímann um að ná sér af meiðslum fyrir fyrsta leik Cardiff í ensku úrvalsdeildinni sem er gegn West Ham 17. ágúst. Kapphlaupið er þó með þeim hætti að Aron þarf að fara varlega og sýna mikla þolinmæði. Öxlin er smám saman að verða betri eftir að Aron fór úr axlarlið í landsleiknum gegn Slóveníu í júní, en hún verður þó líklega aldrei eins góð og áður.

„Ég er að koma til. Þetta er búinn að vera langur tími en ég hef verið að styrkja öxlina vel,“ sagði Aron við Morgunblaðið í gær.

„Þetta eru þannig meiðsli að ég get hlaupið og gert aðrar æfingar en má ekki fá högg á öxlina. Það er erfitt að mega ekki fara í fótbolta með strákunum. Aðalmálið er að styrkja þetta þannig að þetta komi ekki fyrir aftur. Maður reynir að halda hausnum í lagi og vera bara jákvæður,“ sagði Aron Einar sem vill ekki fyrir nokkra muni að meiðslin hafi áhrif á baráttuglaða framgöngu hans innan vallar.

Ætlar ekki að láta meiðslin breyta leikstílnum sínum

„Maður þarf að passa að vera ekkert að hugsa um að þetta geti gerst aftur. Ég má ekki breyta leikstílnum mínum neitt enda hefur hann skilað mér þangað sem ég er í dag. Núna hugsar maður samt bara um að komast aftur í gang án þess þó að flýta sér of mikið,“ sagði Aron.

„Þetta eru ekkert eðlileg meiðsli fyrir fótboltamenn og ég hef aldrei lent í þessu áður. Ég er ekkert vanur því að geta ekki beitt öxlinni 100 prósent og það að þurfa að breyta því hvernig ég beiti henni er auðvitað skrýtið. En maður tekst bara á við þetta eins og önnur meiðsli. Þetta eyðilagði svolítið fyrir manni sumarfríið en það þýðir ekkert að fara í eitthvað þunglyndi þó maður fari úr axlarlið,“ sagði Aron sem gælir við að geta spilað æfingaleik við spænska liðið Athletic Bilbao um næstu helgi, viku áður en sjálf úrvalsdeildin hefst.

Æfi eins og frjálsíþróttamaður

„Ég er á réttu róli. Svona meiðsli taka alveg sinn tíma. Liðböndin eru sex vikur að gróa og svo tekur aðrar sex vikur að styrkja þetta þannig að þetta gerist ekki aftur. Við erum á undan áætlun en þolinmæði skiptir gríðarlega miklu máli í svona meiðslum. Maður veit ekkert hvað gerist ef maður dettur aftur á öxlina eða fær högg frá einhverjum þannig að maður er ekkert að flýta sér of mikið. Það er samt auðvitað pirrandi að geta ekki tekið fullan þátt í æfingum. Ég er bara búinn að vera að hlaupa og í slíku. Æfi eins og frjálsíþróttamaður í raun,“ sagði Aron, nokkuð léttur þrátt fyrir allt.

Vill mínútur gegn Bilbao

„Ég tek bara einn dag í einu en finn að ég er kominn með meira sjálfstraust og er farið að kitla í að vera með á æfingum. Það getur vel verið að maður verði aðeins með í næstu viku og finni hvernig það sé að fá snertingu.

Það er enn spurning með það hvort ég spili gegn Bilbao [10. ágúst] en markmiðið er að ná nokkrum mínútum alla vega. Eins og er þá er ég samt ekki byrjaður að láta reyna á öxlina í návígi. Ég verð bara að sjá til með leikinn og hvort ég geti verið með í fyrsta leik tímabilsins. Það er enn of snemmt að segja til um það,“ sagði Aron.

Bæði með landsliðinu og liði Cardiff, sem vann ensku B-deildina á síðustu leiktíð, hefur Aron verið mikil ógn við andstæðingana með sínum löngu innköstum. Innköstin hafa í raun getað virkað eins og hornspyrnur. Nú hefur Aron verið sviptur þessu skæða vopni, sennilega út ferilinn.

Bónus ef ég næ aftur að taka svona löng innköst

„Já, ég er ekkert að fara að ná að negla boltanum inn í teig eins og staðan er núna. Ég verð að byrja hægt og rólega og ef ég næ einhvern tímann að taka aftur svona löng innköst þá er það bara bónus. Það er hluti af því að fara úr lið að maður nær aldrei alveg sama styrk og áður. Ég mun kannski ekki ná að fara með öxlina eins langt aftur og áður en ég prófa mig áfram hægt og rólega. Ég handleik boltann við og við og kasta honum í sjúkraþjálfarann. En ég er ekki að fara að taka nein innköst á næstunni,“ sagði Aron Einar.

Cardiff verður nýliði í úrvalsdeildinni og ljóst að aðalmarkmiðið hjá liðinu verður að halda sér í deildinni. Hann segist finna vel fyrir áhuganum í höfuðborg Wales nú þegar liðið er komið í hóp þeirra bestu.

Stöðvaður á götum Cardiff

„Menn eru orðnir vel spenntir. Við erum búnir að æfa vel og lengi, og maður finnur fyrir mikilli spennu og tilhlökkun. Maður finnur það líka bara í bænum. Fólk gefur sig á tal við mann, hafði gaman af síðasta tímabili og er greinilega fullt tilhlökkunar fyrir þetta tímabil,“ sagði Aron Einar.

Cardiff-menn hafa farið rólega af stað á leikmannamarkaðnum í sumar. Fáir hafa farið frá félaginu í sumar en þó er svarfdælski framherjinn Heiðar Helguson farinn og þar er skarð fyrir skildi sem danska framherjanum Andreas Cornelius er hugsanlega ætlað að fylla. Félagið fékk svo í vikunni til sín miðvörðinn Steven Caulker frá Tottenham fyrir metfé eða 9 milljónir punda.

Stálu bakverði af Derby

„Við fengum líka hægri bakvörðinn John Brayford frá Derby. Hann var þeirra besti maður þegar við mættum þeim í fyrra þannig að við stálum honum. En ég reikna með að það verði náð í 2-3 leikmenn í viðbót til að styrkja hópinn. Það verður að koma í ljós hvaða leikmenn fást en ég veit að hann [Malky Mackay knattspyrnustjóri] vill bara fá réttu leikmennina, einhverja svipaða þeim sem eru í hópnum,“ sagði Aron Einar.

Íslenska landsliðið á enn möguleika á að komast á HM í Brasilíu á næsta ári. liðið er með 9 stig eftir sex umferðir af 10, í 3. sæti síns riðils. Albanía er stigi ofar og Sviss í efsta sætinu með 14 stig, en þetta eru einmitt þau tvö lið sem Ísland mætir næst í keppninni. Ísland sækir Sviss heim 6. september og fær svo Albaníu í heimsókn fjórum dögum síðar. Aron Einar stefnir að sjálfsögðu á að ná þeim leikjum en óvíst er hvort það tekst.

Geri allt til að ná landsleikjunum

„Það er enn óljóst. Þetta fer alfarið eftir því hvernig ég bregst við því að fá högg á öxlina. Ég geri allt til að komast í landsleiki og þetta eru auðvitað mjög mikilvægir leikir. Ég vil taka þátt í þeim en eins og er þá er öxlin auðvitað ekki nógu góð. Ef ég jafna mig þá vil ég auðvitað berjast fyrir landsliðið,“ sagði fyrirliðinn ákveðinn.
Aron Einar
» Aron er aðeins 24 ára en er fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu og á að baki 35 A-landsleiki.
» Aron er leikmaður Cardiff sem vann sér sæti í ensku úrvalsdeildinni í vor með því að vinna næstefstu deildina.
» Aron fór úr axlarlið í landsleik gegn Slóveníu í júní og er enn að jafna sig af þeim meiðslum.
» Fyrsti leikur Cardiff í ensku úrvalsdeildinni er gegn West Ham í London 17. ágúst.