[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús fæddist á Selfossi en ólst upp í Haukholtum I við öll almenn sveitastörf.

Magnús fæddist á Selfossi en ólst upp í Haukholtum I við öll almenn sveitastörf. Hann var í Grunnskólanum á Flúðum, stundaði nám í viðskiptafræði við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, stundaði síðar nám við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og lauk þaðan búfræðiprófi 2003.

Magnús var snúningsstrákur í Auðsholti í Hrunamannahreppi í tvö sumur, fór til sjós er hann var 16 ára og var þá á netaveiðum á Eldey GK sumarið 1999, á síld á Faxa RE frá Reykjavík sumarið 2000 og var á snurvoð á bátnum Jón á Hofi haustið 2000. Hann var síðan háseti á Melavík GK sumarið 2001, á línuveiðum á Fjölni ÍS 2002 og 2003-2005.

Magnús fór aftur til sjós í þrjá mánuði 2007 en lenti í alvarlegu slysi þá um sumarið er hann datt ofan í Stóra-Laxárgljúfur og höfuðkúpubrotnaði. Hann tók sér þá frí frá sjómennskunni í þrjú ár en fór svo aftur á línuveiðar sumarið 2010 og var þá á bátnum Kristínu ÞH - 157 þar til nú í vor. Þá var hann fastráðinn háseti á línubátnum Jóhönnu Gísladóttur ÍS - 7 jafnframt því sem hann stundar búskap í Haukholti I.

Bræður í búskap í Haukholtum

Magnús og Þorsteinn, bróðir hans, keyptu jörðina Haukholt I af foreldrum sínum árið 2004 og hafa stundað þar sauðfjárbúskap- og hrossarækt síðan. Þeir eru með 500 fjár á vetrarfóðrum og um 35 hross.

Magnús og Þorsteinn eru aldir upp við hrossarækt og hafa sjálfir stundað hana frá því þeir hófu búskap. Þeir eiga m.a. merina Eldingu sem lenti í fyrsta sæti í kynbótadómum á sex vetra merum á landsmóti hestamanna sumarið 2008.

Þeir bræður breyttu helmingi hlöðunnar í fjárhús sumarið 2007 og hafa verið að stækka túnin hjá sér.

Magnús tók þátt í starfi Ungmennafélags Hrunamanna á unglingsárunum, einkum í glímu og skák. Hann sat í stjórn Landgræðslufélags Hrunamanna í nokkur ár og í stjórn Hrossaræktarfélags Hrunamanna, situr í stjórn Sauðfjárræktarfélags Árnessýslu og er nú formaður Sauðfjárræktarfélags Hrunamanna.

Hefur áhuga á störfum sínum

Magnús lætur lítið yfir öllu tómstundagamni: „Ég hef alla tíð haft áhuga á þeim störfum sem ég hef lagt fyrir mig. Ég hef haft yndi af sjómennskunni og nýt þess að sinna bústörfunum hér á mínum æskustöðvum. Ég hef eiginlega ekki gefið mér tíma fyrir önnur áhugamál enda í nógu að snúast. Þess vegna er nú ekki af mörgu að státa í þeim efnum.

Ég get þó sagt að ég hafi haft gaman af því að veiða á stöng frá því að ég man eftir mér. Haukholt hafa haft veiðihlunnindi í Hvítá og þar veiddi ég fjóra laxa á einni klukkustund í fyrrasumar.

Þá hef mikinn áhuga á hrossaræktinni. Reyndar er öll ræktun á dýrum og landi skemmtileg, sama hvaða nafni hún nefnist.“

Fjölskylda

Kona Magnúsar er Alina Elena Balusanu, f. 13.4. 1980, húsfreyja, bóndi og starfsmaður hjá Flúðasveppum. Foreldrar hennar eru Vasile Balusanu, bóndi í Rúmeníu, og k.h., Maria Balusanu bóndakona.

Dætur Magnúsar og Alinu eru Anna María Magnúsdóttir, f. 22.8. 2005, og Ástbjört Magnúsdóttir, f. 1.1. 2008.

Hálfbræður Magnúsar, sammæðra, eru Edvin Kristinsson, f. 4.9. 1971, verkamaður hjá Flúðafiski á Flúðum; Ólafur Bjarni Sigursveinsson, f. 20.8. 1973, smiður á Selfossi.

Alsystkini Magnúsar eru Þorsteinn Loftsson, f. 19.6. 1981, bóndi og húsasmíðameistari í Haukholtum I, og Berglind Ósk Loftsdóttir, f. 6.3. 1987, kokkur, búsett í Reykjavík.

Foreldrar Magnúsar eru Loftur Þorsteinsson, f. 30.5. 1942, fyrrv. bóndi og oddviti í Haukholtum I, og starfsmaður við fóðureftirlit í Árnessýslu og við sláturhús, og k.h., Hanna Lára Bjarnadóttir, f. 10.8. 1951, matráður hjá Límtré á Flúðum.