Kjarnastarfsemi Bóksafnið og bæjarskrifstofur deila rými á fyrstu hæð Ráðhússins, ásamt kaffihúsi.
Kjarnastarfsemi Bóksafnið og bæjarskrifstofur deila rými á fyrstu hæð Ráðhússins, ásamt kaffihúsi. — Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLÍFINU Svanhildur Eiríksdóttir Reykjanesbær Undirbúningur Ljósanætur er hafinn þó að enn sé um mánuður í hátíðina. Ljósahátíðin hefst fimmtudaginn 5. september og stendur til sunnudagsins 8.

ÚR BÆJARLÍFINU

Svanhildur Eiríksdóttir

Reykjanesbær

Undirbúningur Ljósanætur er hafinn þó að enn sé um mánuður í hátíðina. Ljósahátíðin hefst fimmtudaginn 5. september og stendur til sunnudagsins 8. september með hápunkti á sjálfa Ljósanótt, laugardaginn 7. september.

Eitt af því sem verið er að undirbúa er hringtorg á þjóðleið, en svo hefur Flugvallarvegur verið kallaður. Hann leiðir m.a. að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Parísartorg verður vígt á Ljósanótt. Það er á gatnamótum Krossmóa, Flugvallarvegar og Sunnubrautar. Gatnamótin hafa lengi verið umdeild, en Íþróttaakademían og Reykjaneshöll standa bæði við Krossmóa sem kallar á mikinn umgang barna á leið á fótbolta- og fimleikaæfingar.

Eins og venja er á hringtorgum þjóðleiðar er þetta nýja einnig kennt við höfuðborg. Parísartorg bætist við Reykjavíkurtorg og Lundúnatorg á þjóðleið með viðeigandi kennileitum; Þórshamri og rauðum símaklefa. Á Parísartorgi verður Eiffel-turn, eitt helsta einkenni borgarinnar og hannaði hinn keflvísk-ættaði listamaður Stefán Geir Karlsson snúinn Eiffel-turn.

Aðkoman í Reykjanesbæ frá Reykjanesbraut við enda áðurnefndrar þjóðleiðar hefur fengið mikla andlitslyftingu. Af grjóti eigum við nóg og því hefur risið myndarleg grjóthleðsla við þetta hlið bæjarins. Samskonar hlið er nú í smíðum við enda Aðalgötu, sem er önnur aðkomuleið frá Reykjanesbraut.

Undirbúningur hátíðartónleika Ljósanætur er einnig hafinn. Nú á að ljúka tónleikaröðinni Með blik í auga og í ár eru það þriðju tónleikarnir. Fjallað verður um áratuginn 1980-1990 sem meðal annars einkenndist af vídeómenningu og flutt verður tónlist áratugarins í bland við sögu þess tíma. Þema tónleikanna er hanakambar, hárlakk og herðapúðar. Sem fyrr eru Kristján Jóhannsson, Arnór Vilbergsson og Guðbrandur Einarsson höfundar og stjórnendur.

Bókasafn Reykjanesbæjar flutti í Ráðhús bæjarins í júníbyrjun og nú er kjarnastarfsemi bæjarins að komast á einn stað. Fyrir voru bæjarskrifstofur og þjónustuver í húsinu og fræðsluskrifstofan mun flytja úr Gamla barnaskólanum í ráðhúsið á næstu vikum. Ráðhúsið undirgekkst þó nokkrar breytingar og mörgum þykir vel hafa tekist til. Kaffihús er á 1. hæð hússins og verður það opnað um miðjan þennan mánuð.

Íbúar í Reykjanesbæ hafa ekki látið uppgang makrílsins fara framhjá sér og hafa fjölmennt á bryggjuna með veiðistangir. Þeir sem hafa aðgang að smábátum hafa jafnvel sést í Keflavíkinni við veiðar. Sitt sýnist hverjum um bragðgæði makrílsins, sumir líkja honum við lax og finnst góð veiði mikil búbót en aðrir fúlsa við honum.