Fótbolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Þetta er auðvitað bara undir honum komið. Hann hafði góðan tíma til að hugsa þetta, þetta er hans ákvörðun og ég veit ekki hvað fólk á að segja um hana.

Fótbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Þetta er auðvitað bara undir honum komið. Hann hafði góðan tíma til að hugsa þetta, þetta er hans ákvörðun og ég veit ekki hvað fólk á að segja um hana. Auðvitað er alltaf hægt að deila um öll mál en þetta er bara hans ákvörðun og við getum ekkert skipt okkur af henni. Hann hafði möguleika á að spila fyrir tvö landslið og valdi Bandaríkin,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson um þá ákvörðun nafna síns, Arons Jóhannssonar, að spila frekar fyrir bandaríska A-landsliðið í knattspyrnu en það íslenska. Aron Einar sýnir ákvörðun nafna síns fullan skilning og vonast til að hann nái að festa sig í sessi í bandaríska landsliðinu.

„Ég vil bara óska honum góðs gengis í því sem hann gerir. Þetta er flottur strákur og mjög góður leikmaður. Auðvitað sjáum við eftir því að hann skyldi ekki velja að spila fyrir Ísland en ég held að fólk mætti róa sig aðeins og leyfa honum að taka sína ákvörðun.

Ég vona innilega að hann muni gera vel fyrir Bandaríkin. Ég veit að þó hann veldi ekki Ísland þá mun fólk fylgjast með því þegar hann spilar fyrir Bandaríkin ef og þegar hann gerir það,“ sagði Aron Einar.

„Auðvitað sýni ég þessu fullan skilning. Ég talaði við strákinn eftir þetta og óskaði honum bara velfarnaðar. Það er erfitt að setja sig í þessi spor enda hafði ég ekkert val um tvö lönd. Ef maður hefði átt að velja sjálfur þá hefði ég auðvitað valið Ísland en ég get ekkert rakkað Aron niður fyrir þetta,“ sagði Aron Einar. En reyndi hann fyrir hönd íslenska landsliðsins að telja Aron Jóhannsson á að velja frekar íslenska landsliðið?

„Alls ekki. Ég er ekki í þannig vinnu heldur talaði bara við hann og óskaði honum velfarnaðar. Við stöndum alveg með honum í þessu. Honum verður ekkert útskúfað frá Íslandi. Hann má alveg koma heim í sumarfrí og svona,“ sagði Aron Einar hlæjandi.

Viðtal við landsliðsfyrirliðann má finna á baksíðu íþróttablaðsins.