6. ágúst 2013 | Innlendar fréttir | 479 orð | 1 mynd

15 þúsund á Þjóðhátíð í Eyjum

• Hátíðir um verslunarmannahelgina gengu vel fyrir sig víðast hvar þrátt fyrir misjafnt veðurfar

Þjóðhátíð Hluti hópsins sem var í brekkunni í Herjólfsdal á sunnudagskvöld, en um 15 þúsund manns skemmtu sér á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Þjóðhátíð Hluti hópsins sem var í brekkunni í Herjólfsdal á sunnudagskvöld, en um 15 þúsund manns skemmtu sér á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. — Morgunblaðið/Guðmundur Sv. Hermannsson
Árni Grétar Finnsson agf@mbl.is Hátíðarhöld vegna verslunarmannahelgarinnar gengu vel fyrir sig um liðna helgi. Víða var þó kalt í veðri en hvergi kom kuldinn niður á skemmtuninni.
Árni Grétar Finnsson

agf@mbl.is

Hátíðarhöld vegna verslunarmannahelgarinnar gengu vel fyrir sig um liðna helgi. Víða var þó kalt í veðri en hvergi kom kuldinn niður á skemmtuninni.

Flestir prúðir á Þjóðhátíð

Talið er að um 15 þúsund manns hafi verið í Dalnum á Þjóðhátíð í Eyjum og sagði Pétur Steingrímsson, varðstjóri hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum, að hann hefði aldrei séð annan eins fjölda á leiðinni í Dalinn eins og á sunnudagskvöldið. Aðeins einu sinni áður hafa fleiri verið á Þjóðhátíð, en það var árið 2010. Þá segir Jóhann Ólafsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum, að hann muni ekki eftir Þjóðhátíð með eins fáum atvikum þar sem lögreglan þurfti að hafa afskipti af fólki og í ár, þrátt fyrir eina kæru vegna kynferðisbrots og 50 fíkniefnamál. Ekki hefur ennþá verið kært fyrir alvarlega líkamsárás og segir Jóhann að það sé í fyrsta sinn á 31 árs ferli hans sem lögreglumanns að ekki hafi verið kært fyrir slíkt brot.

Telja bros en ekki fólk

„Þetta gekk alveg æðislega. Við náum ekki upp í nefið á okkur, við erum svo montnir,“ segir Davíð Rúnar Gunnarsson, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar Einnar með öllu á Akureyri. Hann segir ómögulegt að meta fjölda fólks sem fjölmennti á hátíðina vegna þess að ekki er greiddur aðgangseyrir og hátíðin því opin öllum. „Þess vegna bjuggum við til slagorðið Við teljum bros en ekki fólk. En öll gistirými á Akureyri voru full og við áttum í erfiðleikum með að finna gistingu fyrir þá listamenn sem komu fram,“ segir Davíð Rúnar og bætir við að margir af eigendum veitinga- og skemmtistaða Akureyrarbæjar hafi tjáð honum að margt hafi verið um manninn og að mikil ánægja sé með hátíðina.

Hins vegar var veðrið ekki hagstætt fyrir Akureyringa og segir Davíð að vont veður hafi að vissu leyti sett mark sitt á hátíðina. „Það sem er eftirminnilegt við þessa hátíð í ár er að þetta er í fyrsta skipti þar sem við höldum Eina með öllu í ógeðisveðri,“ segir Davíð í léttum tón, en megnið af viðburðum hátíðarinnar er haldið utandyra. Hann bætir við að mikil ánægja hafi verið meðal hátíðargesta með flugeldasýninguna sem var á sunnudagskvöldið.

Þá var metþátttaka í Mýrarboltanum á Ísafirði, en þetta var í 10. skiptið sem Evrópumeistaramótið í mýrarbolta er haldið fyrir vestan. Um 1.300 keppendur léku knattspyrnu í drullunni, en 104 lið voru skráð til leiks.

Í karlaflokki sigraði FC Kareoki eftir úrslitaleik gegn Horny Gorillas úr Mývatnssveit, en úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni. Sigurinn var sérstaklega kærkominn fyrir lið FC Kareoki þar sem liðið hefur tekið þátt í öll þau skipti sem mótið hefur verið haldið en hafði ekki sigrað í keppninni áður.

Frænkurnar Evrópumeistarar

Í kvennaflokki unnu Frænkur á pungnum frækinn sigur á FC Drulluflottar í úrslitaleiknum, en þar þurfti einnig vítaspyrnukeppni til þess að knýja fram úrslit. Bæði FC Kareoki og Frænkur á pungnum geta því með sönnu kallað sig Evrópumeistara í mýrarbolta.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.