Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir fæddist á Efri-Steinsmýri í Meðallandi 8.8. 1921. Foreldrar hennar voru Bjarnfreður Ingimundarson, bóndi á Efri-Steinsmýri, og k.h., Ingibjörg Sigurbergsdóttir húsfreyja.

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir fæddist á Efri-Steinsmýri í Meðallandi 8.8. 1921. Foreldrar hennar voru Bjarnfreður Ingimundarson, bóndi á Efri-Steinsmýri, og k.h., Ingibjörg Sigurbergsdóttir húsfreyja.

Bjarnfreður var sonur Ingimundar Árnasonar og Sigurveigar Vigfúsdóttur. Móðursystir Aðalheiðar var Gíslrún, móðir Sigurbjörns Einarssonar biskups.

Meðal 19 systkina Aðalheiðar var Magnús Bjarnfreðsson, fréttamaður og dagskrárgerðarmaður.

Fyrri maður Aðalheiðar var Anton Júlíus Ólafsson, sjómaður og smiður í Vestmannaeyjum og eignuðust þau fimm börn. Seinni maður hennar var Guðsteinn Þorsteinsson, verkamaður í Reykjavík

Aðalheiður ólst upp við fátækt og naut barnaskólafræðslu í Meðallandi í einungis fjögur ár. Hún var vinnukona í Reykjavík, fiskvinnslukona í Vestmannaeyjum á stríðsárunum, vann á sjúkrahúsinu í Eyjum 1944-49, var verkakona í Reykjavík 1958-59, bréfberi í Reykjavík 1960-63, húsfreyja í Köldukinn í Holtum 1963-74 og verkakona í Reykjavík 1974-76.

Lífið var ekki dans á rósum fyrir Aðalheiði. Hún missti barn úr berklum, varð sjálf berklaveik um nokkurra ára skeið og missti hús sitt í bruna. Engu að síður varð hún skeleggur málsvari verkakvenna og barðist fyrir ýmsum réttindamálum. Hún var formaður Verkakvennafélagsins Snótar í Vestmannaeyjum 1945-49, formaður Starfsmannafélagsins Sóknar 1976-87, sat í stjórn ASÍ og var alþingismaður Reykvíkinga fyrir Borgaraflokkinn 1987-91. Þá átti hún sæti í ýmsum nefndum og sat í stjórn atvinnuleysistrygginga og í bankaráði Búnaðarbankans.

Eftir Aðalheiði er skáldsagan Myndir úr raunveruleikanum , 1979, og ævisaga hennar, Lífssaga baráttukonu , var skráð af Ingu Huld Hákonardóttur 1985. Aðalheiður var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1.1. 1980.

Aðalheiður lést 26.4. 1994.