20. ágúst 2013 | Aðsent efni | 781 orð | 1 mynd

Guðhræddir lögmenn og leiðrétting lána

Eftir Svein Óskar Sigurðsson

Sveinn Óskar Sigurðsson
Sveinn Óskar Sigurðsson
Eftir Svein Óskar Sigurðsson: "Kostnaðurinn er að almenningur og hagkerfið í heild hefur tapað milljörðum og dýrmætum tækifærðum til uppbyggingar á Íslandi."
14. ágúst sl. birtist í Morgunblaðinu grein eftir hæstaréttarlögmanninn Jóhannes Sigurðsson þar sem hann fór yfir varnaðarorð til handa þingheimi sem gæti hugsanlega viljað leiðrétta lán almennings á Íslandi. Hefur Jóhannes veitt bankakerfinu ráðgjöf varðandi útreikninga.

Tengsl gengis og vaxta

Jóhanni er hugleikin sú niðurstaða Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 að órjúfanleg tengsl ríki á milli gengis gjaldmiðla og vaxta í sama gjaldmiðli. Með því að Hæstiréttur bendir á þetta atriði síðla árs 2010 eru lánin, sem bankar lánuðu sem erlend gengistryggð lán, endanlega staðfest sem íslensk krónulán og eiga krónuvextir að gilda. Töldu margir starfsmenn bankakerfisins, líklega sérfræðingar þeirra í lögum, að þeim væri í sjálfsvald sett að endurreikna lán almennings aftur til lántökudags.

Árnalög lögð upp en voru dæmd skaðleg

Það er óhætt að segja að óhemjugangur í bankakerfinu hefur verið mikill þar til menn áttuðu sig á kröfuréttarlegu sambandi á milli lántakenda og lánveitanda. Engu að síður stóðu lobbýistar bankakerfisins inni í anddyri Alþingis og þrýstu á Árna Pál o.fl. Sú vinna var öllum til vansa en þessir tilburðir, sem tíðkuðust á tímum ríkisbanka fortíðarinnar, eru stórhættulegir Íslandi. Vonandi sjá það allir og einnig þeir er spiluðu með. Dæmdi Hæstiréttur Íslands í máli nr. 600/2011 (Sigurður og Elvira). Voru Árnalögin dæmd ólögmæt, þá m.t.t. kröfuréttar.

Breyskleikinn

Það er mannlegt af Jóhannesi að reyna að bera í bætifláka fyrir villurnar en þær standa samt enn fyrir sínu. Því miður telja margir lögmenn enn í dag undarlegt að lántakendur, stjórnmálamenn og almenningur á Íslandi segi töf vegna endurútreikninga hafa verið mikla og óeðlilega. Minnir þetta mann óneitanlega á lokaþáttinn úr Gullna hliðinu þegar Sánkti-Páll kemur til dyra eftir að Jón hafi hellt sér yfir Lykla-Pétur og ekki iðrast synda sinna.

Hið sanna og hið ósanna

Hið sanna er að Jóhannes og aðrir vel meinandi lögmenn hafa rakað saman þekkingu sinni með mismunandi árangri síðustu ár undir sérstakri heimild um samráð milli banka. Lærdómurinn var dýru verði keyptur. Kostnaðurinn er að almenningur og hagkerfið í heild hefur tapað milljörðum og dýrmætum tækifærum til uppbyggingar. Fjölmargir hafa glatað öllu og margt er það óafturkræft svo sorglegt sem það er. Þetta þekkja fjárfestar og hinn almenni borgari á Íslandi sem hefur þurft að þola mikið atvinnuleysi og skattpíningu umfram þolmörk.

Hið ósanna í málflutningi Jóhannesar er að þingheimur, kjörinn af almenningi í þessu landi skv. lýðræðishefð sem Ísland hefur borið gæfu til að fylgja, hafi ekki fullt vald til að leiðrétta lán almennings. Hví má almenningur ekki ráða ráðum sínum með því að beita hinu rótgróna lýðræði á meðan bankakerfið hefur fengið fulla heimild til samráðs frá hruni án árangurs? Til þess er lýðræðislegt vald og því þarf að beita af skynsemi og gæta að réttlæti. Þingheimur verður að fá að vera óháður sem og nefndarmenn sem taka á þessu erfiða máli á næstu misserum.

Hvað er ógert?

Undirritaður hefur ritað skýrslu varðandi nauðungarsölur á Íslandi. Hefur ekkert verið gert á Alþingi Íslendinga til að tryggja nægjan rétt gerðarþola og gera rétt hans sambærilegan og í nágrannalöndunum.

Ritaði greinarhöfundur lokaverkefni sitt í fjármálum við Háskóla Íslands 2011 er fjallaði um reiknaða húsaleigu og mat á fasteignalið vísitölu neysluverðs. Hún hefur verið afhend þingmönnum og núverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Kemur þar m.a. í ljós og lesa má úr sérfræðihóp OECD að útreikningar Hagstofu Íslands eru bjagaðir og á Íslandi er minnsta deild heims sem heldur úti neysluverðsvísitölu. Aldrei hefur óháð úttekt verið unnin af erlendum fræðimönnum á aðferð og útreikningum Hagstofu Íslands. Hefur virtur erlendur sérfræðingur á þessu sviði, sem skipar sérfræðihóp OECD í vísitölufræðum, tjáð greinarhöfundi að draga megi stórlega í efa útreikninga og aðferðafræði Hagstofu Íslands. Engum hefur enn dottið í hug að hlusta á þau rök á meðal íslenskra ráðamanna. Það eitt gæti gefið tilefni til afturvirkrar leiðréttingar á lánum, s.s. verðtryggðum lánum.

Að auki hefur Seðlabanki Íslands ekki birt opinberlega gjaldeyrisjöfnunarskýrslur bankakerfisins fyrir hrun er endurskoðendur bankanna unnu að og sendu seðlabankanum á sínum tíma. Þetta ætti a.m.k. að liggja fyrir frá Dróma og Frjálsa fjárfestingarbankanum enda ríkissjóður í gegnum Hildu ehf. og Seðlabanka Íslands í raun orðinn eigandi að öllu eignasafninu og þar með þrotabúinu. Með vísan í Jóhannes 14. ágúst sl. skal áréttað að ekki er ætlast til þess að farið sé gegn lögum og fordæmum Hæstaréttar, síður en svo.

Væntingar – Margur heldur mig sig

Þrátt fyrir marga góða lögmenn eru enn margir sem haga sér ótuktarlega rétt eins og sálin hans Jóns míns. Þingheimur og nefndir á vegum Alþingis Íslendinga eiga að leita svara, þrýsta á, komast að hinu sanna og leggja línur til leiðréttingar þar sem við á.

Ef við stöndum okkur vel þarf ekki að karpa við Lykla-Pétur þegar þar að kemur.

Höfundur er MSc í fjármálum, MBA, BA í heimspeki og hagfræði.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.