Margar þjóðsögur hafa komist á kreik um bankahrunið íslenska 2008. Við því hefði þó mátt búast, að þær yrðu ekki margar í safni greina, sem samdar voru fyrir hrun, en það kom út í Lundúnum 2011 undir heitinu Preludes to the Icelandic Financial Crisis .

Margar þjóðsögur hafa komist á kreik um bankahrunið íslenska 2008. Við því hefði þó mátt búast, að þær yrðu ekki margar í safni greina, sem samdar voru fyrir hrun, en það kom út í Lundúnum 2011 undir heitinu Preludes to the Icelandic Financial Crisis . En annar ritstjórinn, Gylfi Zoëga, skrifar í formála (24. bls.): „Einnig er ófyrirgefanlegt, að ríkisstjórnin og Seðlabankinn skyldu ekki gera neyðaráætlun, sem framkvæma mætti, ef einn eða fleiri bankar hryndu.“

Ég sat í bankaráði Seðlabankans frá 2001 til 2009, og þó að menn töluðu varlega, jafnt á fundum ráðsins og opinberlega, segir Gylfi hér þjóðsögu um bankann. Davíð Oddsson seðlabankastjóri varaði margsinnis við óhóflegri skuldasöfnun bankanna, til dæmis í ræðu á fundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007, sem lesa má á Netinu. Hann gekk líka að minnsta kosti þrisvar á fund ráðherra til að vara við í aðdraganda bankahrunsins, eins og rakið er í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (7. bindi, 21. kafla), til dæmis 7. febrúar, 1. apríl og 8. júlí 2008. Ég veit af samtölum við hann á þessum tíma, að hann var svo sannarlega ómyrkur í máli.

Jafnframt undirbjó Seðlabankinn í kyrrþey neyðaráætlun, sem var tiltölulega einföld og Davíð lýsti í aðalatriðum í Kastljósi 7. október 2008. Hún var, ef illa færi, að ríkið þjóðnýtti þá hinn íslenska hluta bankakerfisins, en léti hinn erlenda sigla sinn sjó, eignir og skuldir. Þessi leið hefur stundum verið kennd við Washington Mutual og er alþekkt í fjármálafræðum. Hún er fólgin í að skipta banka upp í „góðan“ banka og „vondan“, reka áfram góða bankann og gera upp hinn vonda. Þessi neyðaráætlun var gerð í samráði við fjármálafyrirtækið J. P. Morgan, og stjórnaði Michael Ridley, afburðasnjall maður, því verkefni af þess hálfu. (Össur Skarphéðinsson sagði við Rannsóknarnefnd Alþingis, að Ridley hefði verið prúðbúinn og vel mæltur yfirstéttar-Breti, en ég get upplýst, að hann braust úr fátækt til bjargálna, þótt hann tali prýðilega ensku.) Davíð lýsti þegar í ágúst 2008 þessari Washington Mutual-leið fyrir mér, en vitanlega bar mér að gæta trúnaðar. Allir góðgjarnir menn vonuðu síðan auðvitað í lengstu lög, að ekki þyrfti að grípa til neinnar slíkrar áætlunar, og sennilega hefur fátt verið skjalfest um hana. Þess vegna er það ómaklegt um Seðlabankann, sem Gylfi Zoëga segir, að hann hafi ekki gert neyðaráætlun. Gylfi á að birta þjóðsögur sínar í þjóðsagnasöfnum, ekki fræðiritum.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is