24. júlí 1994 | Minningargreinar | 664 orð

SIGRÍÐUR OG ARNOLD TAYLOR Sigríður Ásgeirsdóttir var fædd á Blönduósi 6. des.

SIGRÍÐUR OG ARNOLD TAYLOR Sigríður Ásgeirsdóttir var fædd á Blönduósi 6. des. 1911, næstelst af tíu börnum hjónanna Ásgeirs Þorvaldssonar múrarameistara frá Hjaltabakka í Ásum og Hólmfríðar Zophoníasdóttur, sem var af borgfirskum og húnvetnskum ættum. Hún stundaði ýmis störf á Blönduósi og í Reykjavík, áður en hún hélt til Kaupmannahafnar 1937. Kom hún heim 1940 með Esju frá Petsamo. Árið 1935 hafði hún kynnst ungum enskum háskólastúdent, sem þá var við framhaldsnám við Háskóla Íslands. Nú var hann aftur kominn til Íslands, að þessu sinni í hernámsliði Breta árið 1941. Gengu þau í hjónaband 14. mars 1942 og sigldu til Englands í maí sama ár.

Eiginmaðurinn var Arnold Rodgers Taylor, f. 28. apríl 1913 í Norton-on Tees í Durham-skíri, yngstur 4ra barna hjónanna Arthurs Harrys Taylors ketilsmiðs og bakarasonar frá Burnham í Norfolk og Elizabeth Rodgers járniðnaðarmannsdóttur frá Stockton. Að loknu stúdentsprófi frá menntaskólanum í Stockton hóf Arnold enskunám við Háskólann í Manchester (St. Anselm Hall) og lauk B.A. Honours-prófi þaðan 1934. Hafði hann dvalist á Íslandi við háskólann á vormisseri 1933 og fengið að taka hluta af háskólaprófi sínu í Alþingishúsinu og síðan ferðast um landið fram á haust. Árið eftir vann hann að magistersritgerð um Droplaugarsonasögu. Að loknu magistersprófi í Manchester aflaði hann sér kennsluréttinda með eins árs viðbótarnámi við sama skóla.

Eftir að hafa gegnt afleysingakennslu í Ashton under Lyne 1937 réðist hann að Háskólanum í Jena í Þýskalandi og starfaði þar sem lektor í ensku frá 1937 til 1939. Að lokinni eins árs kennslu við menntaskólann í Darlington gekk Arnold í breska herinn, en þar var mikill hörgull á mönnum með þýskukunnáttu. Ári síðar reyndi þó meira á íslenskukunnáttu hans, er hann var sendur til Íslands á vopnuðu kaupfari, sem naumlega slapp við að verða á vegi Bismarcks. Arnold var í Reykjavík, þar til þau hjónin héldu til Englands 1942 og Sigríður settist að hjá skyldfólki hans, en Arnold hlaut frekari herþjálfun og barðist síðan með herjum Breta og bandamanna þeirra í Norður-Afríku, Ítalíu, Belgíu og Hollandi til stríðsloka. Annaðist Arnold síðan þýðingar úr þýsku fyrir breska herinn, þar til hann fékk lausn frá herþjónustu sumarið 1946, er hann sneri sér aftur að menntaskólakennslu í Durham-skíri.

Í ársbyrjun 1947 hóf Arnold aðalævistarf sitt, sem var kennsla í enskum og íslenskum fræðum við Háskólann í Leeds, en þar í borg bjó fjölskyldan í nær aldarþriðjung eða þar til Arnold fór á eftirlaun haustið 1978. Var hann fyrstu árin lektor en dósent frá 1956. Voru kennslugreinar hans einkum miðaldaenska og ensk málsaga og íslenska. Árið 1955 var hann gerður að kennslustjóra í íslenskum fræðum (supervisor of Icelandic studies). Starfaði hann m.a. í The Viking Society for Northern Research og var forseti þess félags 1952­1954. Málgagn félagsins, Saga Book, birti ýmsar greinar og ritgerðir hans um íslensk og norræn efni. Árið 1957 sendi Oxford University Press frá sér endurskoðaða og aukna útgáfu Arnolds af Introduction to Old Norse eftir læriföður hans við Háskólann í Mancheseter, E.V. Gordon prófessor, en sú hefur lengi verið helsta kennslubók í forníslensku við breska háskóla. Auk framangreindra starfa kenndi Arnold ensku við Háskóla Íslands á vormisseri 1969.

Fyrir margvísleg störf að íslenskum fræðum í Bretlandi sæmdi forseti Íslands Arnold fyrst riddarakrossi og síðar, er hann lét af störfum við Háskólann í Leeds, stórriddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu.

Haustið 1978 fluttust þau hjónin búferlum frá Leeds til Sheffield og bjuggu þar til 1983, er þau settust að í Upwood nálægt Huntingdon í Cambridge-skíri. Heilsu Sigríðar hafði þá mjög hrakað, en Arnold annaðist hana af frábærri umhyggju, þar til hún lést 18. desember 1990. Sumarið 1991 kom Arnold í síðasta sinn til Íslands og hafði meðferðis ösku Sigríðar, sem hann jarðsetti að ósk hennar hjá jarðneskum leifum foreldra hennar á Blönduósi.

Arnold R. Raylor lést á Englandi 30. maí 1993. Hinsta ósk hans var að hljóta legstað í íslenskri mold við hlið eiginkonu sinnar. Verður aska hans jarðsett á Blönduósi í dag í viðurvist barna hans, Jennifer Tanser og Ronalds Taylors, barnabarna, barnabarnabarna og annarra vandamanna.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.