[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is „Ég tel að Evrópusambandið muni hrynja, eins og það er í dag, af ýmsum ástæðum.

Viðtal

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

„Ég tel að Evrópusambandið muni hrynja, eins og það er í dag, af ýmsum ástæðum. Því hefur mistekist að finna lausn á skuldavandanum og það virðist ekki sem menn þar hafi skýra hugmynd um hvernig eigi að leysa hann, “ segir Marta Andreasen, Evrópuþingmaður fyrir breska Íhaldsflokkinn. Hún flutti í gær í erindi í Háskóla Íslands sem nefndist: „Hvert stefnir Evrópa?“ en Marta kom hingað til lands á vegum Íslensks þjóðráðs, Heimssýnar, Evrópuvaktarinnar, Nei við ESB, Ísafoldar og Rannsóknarstofnunar um nýsköpun og hagvöxt. Árið 2001 hóf Marta störf fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins en hún var þá ráðin sem aðalendurskoðandi framkvæmdastjórnarinnar, en var látin fara eftir að hún vildi ekki skrifa undir reikninga sambandsins.

Ekki nógu hliðholl sambandinu

Marta segir að hún hafi talið að Evrópusambandið væri allt annars eðlis þegar hún hóf þar störf.

„En þegar ég var búin að vera þar í fjórar til fimm vikur var mér ljóst að lágmarksstjórnun á útgjöldum sambandsins var ekki til staðar,“ segir Marta og nefnir að útgjöld Evrópusambandsins séu í dag um 140 milljónir evra. „Það sem ég hafði þó meiri áhyggjur af var að peningar voru látnir renna í verkefni án þess að fylgst væri með því að þeir færu í það sem þeir áttu að gera,“ segir hún og bætir við að hún hafi viljað koma fram ýmsum breytingum, sem hefði verið auðvelt að hrinda í framkvæmd. „En hugmyndum mínum var stöðugt hafnað.“ Á sama tíma segir hún að hún hafi verið beitt þrýstingi til þess að skrifa upp á reikninga sem hún gat ekki með góðri trú sagt vera rétta. Á endanum var henni tilkynnt um ári síðar að framkvæmdastjórnin hygðist færa hana til í starfi, þangað sem hún myndi ekki bera neina ábyrgð. „Ég vildi ekki láta færa mig til, þannig að þeir ákváðu að láta mig fara, að grunni til vegna þess að ég var ekki nógu hliðholl framkvæmdastjórninni,“ segir Marta. „Ég leit hins vegar svo á að hollusta mín ætti heima hjá skattgreiðendunum sem borguðu launin mín. Ég varð því að tryggja það að peningum þeirra væri vel varið.“

18 ár án endurskoðunar

Marta nefnir í þessu samhengi að á þeim árum síðan hún var látin hætta hafi bókhaldið hjá sambandinu ekkert lagast. „Enda hefur endurskoðunarskrifstofa sambandsins ekki skrifað undir reikningana síðustu 18 árin eða frá því að hún tók til starfa.“ Marta þekkir þess engin önnur dæmi að samtök séu með óskoðaða reikninga í svo langan tíma. „Ég tel það vera fáránlegt að þeir haldi áfram að starfa svona.“ Hún segir að framkvæmdastjórnin kenni aðildarríkjunum um þessa stöðu mála þó að ábyrgðin á fjármálum sambandsins liggi hjá henni.

Marta segir að hún hafi getað kynnt sér vel aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Hún segir að það hafi verið forvitnilegt að sjá að breskir fjölmiðlar hefðu lýst því þegar hlé var gert á aðildarferlinu þannig að ljóst væri að umsóknin væri nú á enda runnin og að núverandi ríkisstjórn hefði engan hug á því að halda áfram. Á sama tíma hefðu fjölmiðlar í Brussel reynt að láta sem enn væri von um að Ísland gengi inn. En á Ísland sér framtíð innan sambandsins? „Ísland fær með EES alla kosti ESB og getur leitt hjá sér gallana. Ég sé því ekki að Ísland eigi sér framtíð innan ESB og ég myndi að auki gefa ykkur það ráð að ganga aldrei inn í sambandið.“

Aftur til tollabandalags?

„Ég sé ekki ljósið við enda ganganna,“ segir Marta Andreasen um kreppuna sem Evrópusambandið stendur frammi fyrir. Hún segir að líklega muni tvö til þrjú, ef ekki fleiri ríki, þurfa að yfirgefa evrusvæðið. „Ef evran hrynur mun sambandið hrynja,“ segir hún, og að hugsanlega muni þurfa að færa ESB aftur til þess að vera tollabandalag, frekar en að keyra fram frekari samruna. „Sambandið eins og það er í dag á sér því stutta framtíð fyrir höndum.“