Knútur Valgarð Berndsen fæddist í Syðri-Ey á Skagaströnd 25. október 1925. Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi 31. ágúst 2013.

Foreldrar hans voru Anna Sölvadóttir og Carl Berndsen kaupmaður á Skagaströnd. Fósturforeldrar Knúts voru Guðrún Sigurðardóttir frá Kjalarlandi og Björn Árnason frá Þverá í Hallárdal, en þau bjuggu í Syðri-Ey. Björn lést þegar Knútur var aðeins sex ára gamall.

Knútur giftist 17. júní 1951 Theódóru Arndísi Berndsen. Theódóra lést 25. janúar 2007. Foreldrar hennar voru hjónin Arndís Á. Baldurs og Jón S. Baldurs, kaupfélagsstjóri á Blönduósi. Synir þeirra eru: 1) Jón Örn, f. 1951. Maki Elín H. Sæmundsdóttir, börn þeirra Tjörvi og Arndís. 2) Gunnbjörn Valur, f. 1952. Maki Lísa Berndsen, börn þeirra Knútur og Guðrún. Áður átti Gunnbjörn eina dóttur, Aðalheiði. 3) Stefán Þröstur, f. 1956. Maki Sólveig Róarsdóttir. Hennar börn eru Dagbjört Jóna, Árni Max og Albert Ingi. Fyrri kona Stefáns var Ásta Ingvarsdóttir, börn þeirra eru Steindór Hrannar, Theódóra Arndís og Signý. Áður átti Stefán eina dóttur, Maríu Ásdísi. 4) Haukur, f. 1961. Maki Chona Millan. Þeirra dóttir Soffía Arndís.

Útför Knúts verður gerð frá Blönduóskirkju í dag, 6. september 2013, og hefst athöfnin kl. 14.

Þegar ég minnist Knúts afa þá hverfur hugur minn heim á Árbraut 13, þar sem amma og afi bjuggu. Fyrir mér var Árbrautin hinn eiginlegi Blönduós. Það var alltaf mikið líf og fjör í þessu stóra húsi og alltaf gott að koma til þeirra. Húsið sem þau bjuggu í var voðalega stórt í huga lítillar manneskju og er minningin þaðan alltaf ljúf. Húsið hafði marga kvisti, geymslur, skot og fullt, fullt af herbergjum. Sérstaklega var skemmtilegt að skoða og gramsa í öllu dótinu sem þar var.

Ég og Dódó frænka mín áttum okkar herbergi til að leika okkur í og þar var mikið brallað, allskonar leikir og ýmis uppátæki sem við fundum uppá að gera. Þá var herbergið hans afa heill heimur útaf fyrir sig. Afi var mikill safnari, mynt, frímerki blöð, bækur og dót var einhvernveginn þar út um allt hjá honum en þó hver hlutur á sínum stað. Lyktin var eitthvað sérstök og heillandi. Í bílskúrnum hans voru fjársjóðir. Stundum voru þar hlutir sem amma var ekki sérstaklega hrifin af að hafa, a.m.k. ekki þegar hann var verkstjóri hjá Blönduósbæ og geymdi þar dínamít þegar geymslu vantaði tímabundið fyrir það efni.

Afi var ákaflega greiðvikinn og hjálpsamur maður. Hann átti sér nokkrar „hjákonur“, eins og hann kallaði þær. Þessu velti ég, barnið, svolítið fyrir mér. Síðar skildi ég það að þessir einstaklingar voru einstaklingar sem minna máttu sín í samfélaginu, ef svo má að orði komast, og bundu ekki hnúta sína með sama hætti og við hin. Þessu fólki var hann hjálplegur.

Ég minnist atviks þar sem ég, táningur á gelgjuskeiði, skammaðist mín svolítið fyrir hann. Við vorum, stórfjölskyldan, að borða á veitingastað í höfuðborginni. Þegar við komum inn í borðsalinn og erum sest til borðs er einn stóllinn við borðið eitthvað laus og skakkur. Afi settist bara á gólfið og fór að laga stólinn. Svakalega skammaðist ég mín, svona gera menn bara ekki á veitingahúsum, en svona var afi. Í dag finnst mér þetta yndisleg minning.

Það var afa áfall þegar amma slasaðist og veiktist. Af bestu getu annaðist hann um hana, þeirra samband var alltaf fullt af ást og virðingu.

Afi minn, um þig eru margar minningar, þú fylgdist vel með fjölskyldunni og barst hag hennar fyrir brjósti.

Elsku afi, takk fyrir allar góðu stundirnar sem við höfum átt saman, minningu þína mun ég geyma í hjarta mér.

Hvíl þú í friði.

Þín sonardóttir,

Arndís Berndsen.