18. september 2013 | Fjölmiðlar | 175 orð | 1 mynd

Eðli tónlistarinnar skoðað af ástríðu

Ljósvakinn

Upplýsandi Víkingur Heiðar fræðir þjóðina um tónlist.
Upplýsandi Víkingur Heiðar fræðir þjóðina um tónlist. — Morgunblaðið/Einar Falur
„Þannig er Mozart... hann færir manni það sem manni finnst að maður hafi alltaf vitað, en vissi ekki...“ sagði Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari þar sem hann ræddi um snilligáfu Mozarts við Höllu Oddnýju Magnúsdóttur mannfræðing.
„Þannig er Mozart... hann færir manni það sem manni finnst að maður hafi alltaf vitað, en vissi ekki...“ sagði Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari þar sem hann ræddi um snilligáfu Mozarts við Höllu Oddnýju Magnúsdóttur mannfræðing. Þau eru umsjónarmenn nýrrar þáttaraðar í Ríkissjónvarpinu, Útúrdúrs, sem fór afar vel af stað á sunnudagskvöldið. Í þáttunum er fjallað um klassíska tónlist í víðum skilningi og leitast við að kynna hana á fjölbreytilegan hátt. Og ef mið er tekið af fyrsta þættinum, þá mun það takast; á heimili undirritaðs sat fjölskyldan límd yfir þættinum og hreifst af ástríðu umsjónarmanna fyrir efninu, þekkingunni og síðast en ekki síst frjóum og leiftrandi leik Víkings á hljóðfærið.

Um miðbik þáttarins var umjöllun um Sónötu nr. 8 í a-moll eftir Mozart. Einnig var rætt við erlenda fræðimenn og sagt frá Margréti Eiríksdóttur píanókennara, sem hélt áfram að leika á hljóðfærið þótt heilabilun rændi hana minninu. Í lokin bar ljóðaflokk Schumanns, Dichterliebe, á góma. Þá var Gunnar Guðbjörnsson kallaður til og söng glæsilega. Svona á sjónvarp að vera, fræðandi og skemmtilegt.

Einar Falur Ingólfsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.