[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Stöðugur vöxtur ríkisvaldsins í Bretlandi hefur kallað á skattahækkanir sem eru farnar að þrengja verulega að millistéttinni.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Stöðugur vöxtur ríkisvaldsins í Bretlandi hefur kallað á skattahækkanir sem eru farnar að þrengja verulega að millistéttinni. Dregið hefur úr kaupmætti launa sem þessu nemur en þau hafa staðið í stað síðan fjármálakreppan skall á Bretland af fullum þunga haustið 2008. Staða ríkisins er slæm og kann að versna, rætist spár um vaxtahækkanir samfara aukinni verðbólgu næstu misserin.

Þetta er í sem fæstum orðum ástæða þess að Matthew Elliott, annar stofnenda bresku baráttusamtakanna The TaxPayers' Alliance, telur brýnt að skera niður hjá hinu opinbera og skapa skilyrði til skattalækkana.

Morgunblaðið ræddi við Elliott símleiðis í vikunni en hann heldur erindi hér á landi á morgun, líkt og rakið er í grein hér til hliðar.

Elliott segir að félagar samtakanna séu nú um 80.000. Meginboðskapur samtakanna sé að berjast fyrir hagsmunum skattgreiðenda, samkvæmt þeirri hugmyndafræði að hinn frjálsi markaður, lágir skattar, takmarkað regluverk og lægri útgjöld ríkissjóðs séu best til þess fallin að ýta undir verðmætasköpun.

Undið ofan af árangri Thatcher

– Það var Margaret Thatcher metnaðarmál sem forsætisráðherra Bretlands að draga úr umfangi ríkisins. Rættist sá draumur eða hefur hið opinbera færst meira í fang?

„Síðan á tíunda áratug síðustu aldar hefur umfang ríkisins í Bretlandi vaxið. Það sem Thatcher gerði einkar vel var að einkavæða hin stóru opinberu fyrirtæki,“ segir Elliott og nefnir opinberar vatnsveitur, gas- og orkufyrirtæki, kolanámur og ýmsar verksmiðjur í ríkiseigu sem voru einkavæddar á 9. áratugnum.

„Þegar Thatcher einkavæddi þessi fyrirtæki færðust mörg störf hjá hinu opinbera yfir í einkageirann. Við horfðum hins vegar upp á það á 10. áratugnum, og á fyrsta áratug þessarar aldar, að störfum fjölgaði hjá hinu opinbera, einkum vegna aukins skrifræðis. Undið var ofan af mörgu því góða sem Thatcher gerði fyrir Bretland,“ segir Elliott og vísar til valdatíðar Verkamannaflokksins 1997-2010. „Við höfum nú gengið í gegnum fjármálakreppu og stjórnvöld hafa þurft að draga úr útgjöldum. Þau hafa hins vegar ekki dregið eins mikið úr þeim og Thatcher. Þá hefur breska ríkið fleiri starfsmenn en nokkru sinni sem almenningur telur að skapi ekki verðmæti, ólíkt t.d. kennurum og læknum.“

Sérfræðingar í ávöxtum

– Geturðu tekið dæmi frá því þessi þróun hófst á 10. áratugnum?

„Já, til dæmis réð breska heilbrigðiskerfið (NHS) fólk á sjúkrahús sem hafði þann starfa að hafa umsjón með innkaupum á ávöxtum. Því var ætlað að segja fólki að borða fimm stykki af ávöxtum og grænmeti á dag. Af þessu litla dæmi má fá hugmynd um hver þróunin var. Þegar ríkið er farið að ráða ávaxtastjórnendur er það orðið of stórt,“ segir Elliott og verður alvarlegur í bragði. Hugsar sig svo um og segir:

„Við erum enn með gríðarlegan halla af rekstri hins opinbera. Það reynist okkur lán í óláni að vextir skuli nú vera tiltölulega lágir. Ég óttast að á næstu árum muni frekari peningaprentun leiða til aukinnar verðbólgu og þegar það gerist munu stjórnvöld þurfa að borga hærri vexti af lánum og þá mun hagkerfið verða fyrir þungu höggi. Sumir halda því fram að við séum að komast út úr vandamálum vegna fjármálakreppunnar. Ég segi að það sé erfið tíð framundan,“ segir Elliott um áhyggjur sínar.

Bretland fari aðra leið en ríki evrusvæðisins

Ásamt því að fara fyrir samtökunum The TaxPayers' Alliance er Elliott í forystu fyrir samtökin Business for Britain, félagsskap áhrifamanna í atvinnulífinu sem kallar eftir breyttu sambandi Bretlands og Evrópusambandsins. Er umkvörtunarefnið einkum reglugerðir sem athafnamenn telja að leggi stein í götu athafna. Samtökin krefjist betri samnings við sambandið.

„David Cameron forsætisráðherra hefur sagt að hann vilji breyta sambandi Bretlands við ESB og bera breytinguna undir bresku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég leiði helstu samtökin í bresku viðskiptalífi sem þrýsta á um slíka breytingu.

Evrópa stendur á krossgötum. Eftir kosningarnar í Þýskalandi [um næstu helgi] mun frekari samruni fara í hönd á evrusvæðinu, til að tryggja að það sé starfhæft. Þegar að því kemur held ég að Bretland muni hafa laustengdara samband við ESB en það gerir í dag,“ segir Elliott sem bætir því aðspurður við, að um 8-10% Breta styðji nú meiri samruna við ESB.

Áhugasamir geta hlustað á Elliott á fyrirlestri í Lögbergi, Háskóla Íslands, stofu 101, á morgun, föstudaginn 20. september, klukkan 12 til 13.

Telur Brown hafa ráðið för

• Blair hafi verið upptekinn við stríð Spurður hvað hann telji að hafi knúið mikla fjölgun ríkisstarfsmanna á undanförnum árum vísar Elliott til góðs árferðis við aldarlok.

„Ég tel að skýringin sé sú að á 10. áratugnum, líkt og víða í heiminum, gengum við í gegnum skeið mikils hagvaxtar. Fólki fannst það ríkara, ekki síst vegna þess að húsnæði þess hækkaði í verði, og það þýddi að hið opinbera gat aukið skattheimtu.

Samhliða þessu horfðum við upp á meiri halla af ríkisrekstri en nokkru sinni fyrr og var féð nýtt til að ráða fleira fólk hjá hinu opinbera. Þegar litið er um öxl kemur í ljós að mikið af þessum störfum var óþarft, skapaði samfélaginu ekki verðmæti.“

Ábyrgðin liggi hjá Brown

– Hófst þessi þróun í stjórnartíð íhaldsmannsins John Major eða fór hún í hönd með stjórnartíð Verkamannaflokksins, 1997-2010?

„Ég myndi segja að Gordon Brown bæri ábyrgðina. Hann var fjármálaráðherra á tímabilinu [1997-2007] og síðan forsætisráðherra [til 2010]. Tilfinning mín er sú að Blair hafi ekki fylgst nógu vel með því sem gerðist í stjórnmálum landsins. Hann var svo upptekinn við stríðin í Afganistan og Írak. Brown jók útgjöld til hins opinbera og skapaði með því mörg þeirra vandamála sem við glímum við í Bretlandi í dag.“

Skuldirnar á uppleið

– Hvaða vandamál?

„Nefna mætti mörg dæmi um sóun hins opinbera,“ segir Elliott en á vef samtaka hans er tekið dæmi af miklum kostnaði opinberra aðila af leigu húsnæðis sem hefur staðið autt árum saman.

„Skuldir hins opinbera í Bretlandi eru nú 76% af vergri þjóðarframleiðslu en verða að óbreyttu 89% árið 2060, samkvæmt opinberum tölum. Meðalaldur fer hækkandi og lífeyrisgreiðslur munu verða hinu opinbera þungar í skauti,“ segir Elliott.