Margar þjóðsögur eru á kreiki um bankahrunið 2008 og aðdraganda þess. Ein er, að íslenskt atvinnulíf hafi löngum verið gerspillt.

Margar þjóðsögur eru á kreiki um bankahrunið 2008 og aðdraganda þess. Ein er, að íslenskt atvinnulíf hafi löngum verið gerspillt. Til dæmis segja þau Robert Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir í tímaritsgrein árið 2010: „Fjórtán fjölskyldur réðu frá upphafi mestu í íslenskum kapítalisma, og voru þær stundum kallaðar Kolkrabbinn, en þessi hópur myndaði ráðastétt landsins jafnt í atvinnulífi sem stjórnmálum. Kolkrabbinn stjórnaði ekki aðeins innflutningsverslun, heldur líka samgöngum, bönkum, tryggingafyrirtækjum og fiskveiðum – og síðar verkefnum fyrir varnarstöð Atlantshafsbandalagsins. Í hálfa öld komu flestir valdamenn úr röðum hans, og fjölskyldurnar í honum skiptu með sér opinberum stöðum og bitlingum og lifðu eins og smákóngar í ríkjum sínum.“

Líklega er þessi fróðleikur sóttur í læsilega, en mjög óáreiðanlega bók um íslenska bankahrunið, Meltdown Iceland , sem breski blaðamaðurinn Roger Boyes gaf út 2009. En hér er í fyrsta lagi ruglað saman tveimur hugtökum, fjórtán fjölskyldunum og kolkrabbanum. Ég hef áður bent á, að fjölskyldurnar fjórtán eru ættaðar frá El Salvador, en því landi er skipt í fjórtán umdæmi, og er landeigendastéttin þar stórauðug og eftir því óbilgjörn og tekjudreifing ójöfn. Ólíku er því saman að jafna, El Salvador og Íslandi. Orðið „kolkrabbinn“ um auðmannaklíkur slæddist hins vegar inn í íslenska tungu, eftir að þáttaröð um ítölsku mafíuna með þessu heiti var sýnd í sjónvarpinu 1986-1987. Tóku blaðamenn það síðan upp og notuðu um fámennan hóp kaupsýslumanna undir forystu Halldórs H. Jónssonar húsameistara. Skrifaði Örnólfur Árnason heila bók um þennan hóp árið 1991.

Hér eru í öðru lagi ekki lögð fram nein gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu, að einhverjar fjórtán fjölskyldur eða kolkrabbi hafi stjórnað íslensku atvinnulífi. Hver gætu þessi gögn verið? Ég skoðaði lista Frjálsrar verslunar um stærstu íslensku fyrirtækin árin 1980 og 1990. Þá kom í ljós, að kolkrabbinn svonefndi stjórnaði ekki nema einu af tíu stærstu fyrirtækjunum, Flugleiðum. Þrjú voru samvinnufyrirtæki, Samband íslenskra samvinnufélaga, KEA á Akureyri og Olíufélagið. Tvö voru ríkisfyrirtæki, Landsbankinn og ÁTVR. Tvö voru sölusamlög í sjávarútvegi, SH og SÍF.

Í þriðja lagi er fráleitt að nota orð, sem táknuðu óbilgjarna auðstétt í El Salvador eða glæpaklíku á Ítalíu, um íslenska atvinnurekendur, sem kunnir voru að prúðmennsku og löghlýðni. Lýsing þeirra Wades og Sigurbjargar á íslensku atvinnulífi mestalla 20. öldina styðst ekki við staðreyndir. Hún er þjóðsaga.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is