Jakob Jóhannesson Smári, skáld, málfræðingur og kennari, fæddist á Sauðafelli í Miðdölum 9.10. 1889. Hann var sonur Jóhannesar Lárusar Lynge Jóhannssonar, prests á Kvennabrekku, og f.k.h., Steinunnar Jakobínu Jakobsdóttur húsfreyju.

Jakob Jóhannesson Smári, skáld, málfræðingur og kennari, fæddist á Sauðafelli í Miðdölum 9.10. 1889. Hann var sonur Jóhannesar Lárusar Lynge Jóhannssonar, prests á Kvennabrekku, og f.k.h., Steinunnar Jakobínu Jakobsdóttur húsfreyju.

Hálfsystir Jóhannesar á Kvennabrekku var Valgerður, langamma Jóns Steffensen læknaprófessors.

Jakob var hálfbróöir, samfeðra, Ragnheiðar, móður Vífils verkfræðings og læknanna Ólafs Hergils og Þengils Oddssona.

Eiginkona Jakobs var Helga Þorkelsdóttir kjólameistari en börn þeirra voru Katrín J. Smári, kennari, læknaritari og vþm., og Bergþór Smári læknir. Þau eru bæði látin fyrir skömmu.

Jakob lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1908, stundaði nám í norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan meistaraprófi árið 1914.

Jakob var kennari við ýmsa skóla í Reykjavík á árunum 1914-20 og við Menntaskólann í Reykjavík 1920-36 og yfirkennari þar. Hann sat lengi í stjórn Sálarrannsóknafélags Íslands eins og reyndar ýmsir aðrir virðulegir borgarar þess tíma. Jakob sendi frá sér ljóðabækurnar Kaldavermsl, 1920, Handan storms og strauma, 1936, Undir sól að sjá, 1939, og Við djúpar lindir, 1957. Þá samdi hann kennslubækur, s.s. Íslenska setningafræði og Íslenska málfræði og tók saman Íslensk-danska orðabók.

Jakob þýddi m.a. sum verka Gunnars Gunnarssonar, leikrit eftir Ibsen og Strindberg og óperettur, að ógleymdri Bókinni um veginn, eftir Lao-tse, ásamt Yngva Jóhannessyni.

Jakob var nýrómantískt skáld. Skáldskapurinn var ljóðrænn og átakalítill, sonnettan var hans aðalljóðform en yrkisefnið gjarnan sótt í kyrrð og fegurð íslenskrar náttúru. Hann var því ekki beint barn síns tíma þegar leið á ferilinn. Samt urðu ýmis ljóða hans vel þekkt og oft sungin.

Jakob lést 10.8. 1972.