Sú staðreynd að dauðarefsingar hafa nánast verið aflagðar í Evrópu í dag er afleiðing upplýstrar umræðu og virkra skoðanaskipta milli landa og samfélaga.

Réttlæti sem drepur er ekki raunverulegt réttlæti. Stjórnvöld í þeim 42 löndum sem standa að þessu ákalli um afnám dauðarefsinga deila þeirri sannfæringu að þær séu í eðli sínu ómannúðlegar og að ekki eigi að beita þeim undir nokkrum kringumstæðum, nokkurs staðar í heiminum. Dauðarefsing gengur ekki einasta í berhögg við mannlega reisn, heldur leiðir beiting hennar einnig til þess að brotið er á fjölmörgum öðrum mannréttindum dauðadæmdra og fjölskyldna þeirra. Dauðarefsingar draga hvorki úr glæpatíðni né auka öryggi, og eru á engan hátt til þess fallnar að bæta þann skaða sem fórnarlömb glæpa og fjölskyldur þeirra hafa orðið fyrir. Með þessa sannfæringu að leiðarljósi viljum við í tilefni af alþjóðlegum degi gegn dauðarefsingum, sem nú er haldinn í ellefta sinn, ítreka staðfestu okkar í baráttunni fyrir afnámi þeirra, í löndum Evrópu og um heim allan.

Markmiðið með þessu ákalli er ekki að veita ofanígjöf, heldur að deila reynslu okkar og sannfæringu. Ef við höfum lært nokkuð af afnámi dauðarefsinga í okkar eigin löndum er það hve leiðin getur verið löng og ströng. Dauðarefsingar voru ekki afnumdar á einni nóttu. Með aukinni vitund og stöðugri baráttu náðist árangur stig af stigi. Aftökum fækkaði smátt og smátt, og um leið þeim afbrotum sem dauðarefsing lá við, réttarkerfið varð gagnsærra, hætt var að framfylgja dauðadómum í reynd og loks voru dauðarefsingar aflagðar með öllu. Þessa leið þurfa þau lönd að feta sem enn framkvæma aftökur í nafni meints réttlætis.

Með þessu sameiginlega ákalli viljum við einnig benda á að ríki verða að sýna staðfestu í baráttunni fyrir því að dauðarefsingar leggist af, rétt eins og einstaklingar. Leiðin að afnámi dauðarefsinga lá ekki um lokuð samfélög eða einangruð lönd. Sú staðreynd að dauðarefsingar hafa nánast verið aflagðar í Evrópu í dag er afleiðing upplýstrar umræðu og virkra skoðanaskipta milli landa og samfélaga.

Evrópuráðið og mannréttindasáttmáli Evrópu hafa gegnt lykilhlutverki í þessari þróun innan Evrópu og jafnvel víðar. Gildistaka samningsviðauka nr. 13 við mannréttindasáttmálann (bókun um afnám dauðarefsinga undir öllum kringumstæðum) fyrir 10 árum er einmitt til marks um þetta. Í dag mælum við fyrir hönd 42 af þeim 44 ríkjum sem hafa fullgilt samningsviðauka nr. 13 og hvetjum öll aðildarríki Evrópuráðsins sem hafa ekki enn gert það til að ganga í lið með okkur. Við skorum eindregið á síðasta Evrópuríkið sem enn beitir dauðarefsingum að taka fyrsta skrefið í átt að afnámi þeirra, með því að lýsa yfir stöðvun á framkvæmd dauðadóma.

Þróunin í Evrópu varpar skýru ljósi á það grundvallarhlutverk sem svæðisbundnar og fjölhliða stofnanir hafa að gegna í baráttunni fyrir afnámi dauðarefsinga. Afnám þeirra í mörgum ríkjum Ameríku, Afríku og Asíu ber merki um alþjóðlegt eðli baráttunnar. Þörfin fyrir sterk pólitísk skilaboð og þátttöku samfélagsins alls er ljós. Í þessum anda viljum við nýta þann skriðþunga sem málið hefur fengið í kjölfar fimmtu heimsráðstefnunnar um afnám dauðarefsinga, sem fram fór í Madríd í júní sl. Við höfum þessi grundvallaratriði í huga þegar við hefjum nú mikilvægan kafla á leið okkar að afnámi dauðarefsingar á heimsvísu. Í dag er dauðarefsing heimil í um 50 löndum, en fyrir tuttugu árum voru þau næstum tvöfalt fleiri. Eins og ályktanir Sameinuðu þjóðanna sýna stækkar sífellt sá meirihluti ríkja sem styðja alþjóðlega stöðvun dauðarefsinga. Þessi jákvæða þróun gerir okkur kleift að ímynda okkur að næsta kynslóð fái lifað í heimi án dauðarefsinga og hvetur okkur áfram í sameiginlegri viðleitni til að styðja önnur ríki í átt að algjöru afnámi þeirra.

Undir þetta sameiginlega ákall um afnám dauðarefsinga skrifa eftirtaldir ráðherrar utanríkismála:

Ditmir Bushati (Albaníu), Gilbert Saboya Sunyé (Andorra), Michael Spindelegger (Austurríki), Didier Reynders (Belgíu), Zlatko Lagumdžija (Bosníu og Hersegóvínu), William Hague (Bretlandi), Kristian Wigenin (Búlgaríu), Villy Søvndal (Danmörku), Urmas Paet (Eistlandi), Erkki Tuomioja (Finnlandi), Laurent Fabius (Frakklandi), Evangelos Venizelos (Grikklandi), Frans Timmermans (Hollandi), Eamon Gilmore (Írlandi), Gunnar Bragi Sveinsson (Íslandi), Emma Bonino (Ítalíu), Vesna Pusiæ (Króatíu), Ioannis Kasoulides (Kýpur), Edgars Rinkeviès (Lettlandi), Aurelia Frick (Liechtenstein), Linas Antanas Linkevièius (Litháen), Jean Asselborn (Lúxemborg), Nikola Poposki (Makedóníu), George Vella (Möltu), Natalia Gherman (Moldóvu), José Badia (Mónakó), Espen Barth Eide (Noregi), Rui Machete (Portúgal), Titus Corlãean (Rúmeníu), Pasquale Valentini (San Marínó), Ivan Mrki (Serbíu), Miroslav Lajèák (Slóvakíu), Karl Erjavec (Slóveníu), José Manuel García-Margallo (Spáni), Igor Lukšiæ (Svartfjallalandi), Didier Burkhalter (Sviss), Carl Bildt (Svíþjóð), Jan Kohout (Tékklandi), Ahmet Davutoglu (Tyrklandi), János Martonyi (Ungverjalandi), Leonid Koschara (Úkraínu) og Guido Westerwelle (Þýskalandi).