Gera má greinarmun á vitringum og sérvitringum, og eins má gera greinarmun á sögum og þjóðsögum. Ég hef hér bent á, að margt það, sem sagt hefur verið um bankahrunið fyrir fimm árum, er frekar af ætt þjóðsögunnar en sögunnar.

Gera má greinarmun á vitringum og sérvitringum, og eins má gera greinarmun á sögum og þjóðsögum. Ég hef hér bent á, að margt það, sem sagt hefur verið um bankahrunið fyrir fimm árum, er frekar af ætt þjóðsögunnar en sögunnar. Svo er til dæmis um eina algengustu skýringu bankahrunsins, sem er, að íslensku bankarnir hafi verið of stórir. Of stórir miðað við hvað? Flestir ensku bankanna hafa höfuðstöðvar á mjög litlu svæði í miðborg Lundúna, City. Þeir voru stórir miðað við það svæði og jafnvel fyrir talsvert stærra svæði, til dæmis héraðið Coventry, en þar eru íbúar jafnmargir (eða öllu heldur jafnfáir) og á Íslandi. En þeir voru varla of stórir miðað við Bretland allt. Að minnsta kosti var Englandsbanka það ekki um megn að halda þeim uppi í fjármálakreppunni, sem skall á heiminum fyrir fimm árum.

Hér er komið að kjarna málsins. Það fer eftir viðmiðunarsvæðinu, hvort bankar séu „of stórir“. Ef viðmiðunarsvæðið var Ísland eitt, þá voru íslensku bankarnir þrír vissulega of stórir. En ef viðmiðunarsvæðið var Evrópa öll, þá voru þeir alls ekki sérlega stórir. Samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var rekstrarsvæði bankanna öll Evrópa. Það var kerfisgalli og sennilega engum að kenna, að baktryggingarsvæði þeirra reyndist ekki vera jafnstórt og rekstrarsvæðið. Það reyndist að lokum vera Ísland eitt.

Ástæðan til þess, að mönnum sást yfir þessa kerfisvillu, var sú, að engum datt í hug, að grannþjóðir okkar myndu ekki hjálpa okkur, þegar á reyndi, eins og þær hjálpuðu hver annarri. Í fjármálakreppunni veitti bandaríski seðlabankinn til dæmis danska seðlabankanum stórkostlega fyrirgreiðslu, 73 milljarða dala í gjaldeyrisskiptasamningum (að vísu ekki allt í einu), sem gerði honum kleift að bjarga Danske Bank, sem ella hefði hrunið eins og íslensku bankarnir. Bandaríski seðlabankinn neitaði hins vegar íslenska seðlabankanum um sambærilega fyrirgreiðslu.

Sviss var með hlutfallslega jafnstórt bankakerfi og Ísland. Það fékk enn umfangsmeiri fyrirgreiðslu frá Bandaríska seðlabankanum, samtals um 466 milljarða (ekki allt í einu), svo að svissnesku stórbankarnir gætu haldið velli.

Ekki var nóg með það, að Bandaríski seðlabankinn neitaði hinum íslenska um sambærilega samninga og hann gerði við aðra seðlabanka. Breska ríkisstjórnin lokaði bönkum í eigu Íslendinga í Lundúnum sama daginn og hún framkvæmdi neyðaráætlun um að bjarga öllum öðrum bönkum í Bretlandi. Og hún bætti gráu ofan á svart með því að setja hryðjuverkalög á íslenskar stofnanir og fyrirtæki.

Ísland var ekki skilið eftir úti á köldum klaka. Ísland var rekið út á kaldan klaka.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is