Gunnar Haraldsson
Gunnar Haraldsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristinn Ingi Jónsson kij@mbl.is Sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins (ESB) hefur ekki náð þeim markmiðum sem henni var ætlað að ná.

Kristinn Ingi Jónsson

kij@mbl.is

Sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins (ESB) hefur ekki náð þeim markmiðum sem henni var ætlað að ná. Sambandið glímir að mörgu leyti við sömu vandamál og áður, meðal annars ofveiði, brottkast og niðurgreiðslur, og þarf margt að gerast áður en þau vandamál verða leyst að fullu.

Þetta var á meðal þess sem fram kom í erindi Gunnars Haraldssonar, forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, á fjölmennri ráðstefnu sem haldin var í minningu Árna Vilhjálmssonar prófessors í hátíðasal Háskóla Íslands í gær. Gunnar ræddi um hina sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB og dró upp mynd af stöðu fiskveiðimála innan sambandsins.

Hann tiltók þau markmið sem fiskveiðistefnunni hefði verið ætlað að ná, til dæmis að koma í veg fyrir ofveiði og að gera sjávarútveginn sjálfbæran, og benti á að hún hefði ekki skilað tilætluðum árangri. „95% af fiskistofnunum í Miðjarðarhafinu eru ofveidd, 47% í Atlantshafinu. Niðurgreiðslur nema um 3,3 milljörðum evra sem jafngildir næstum því 50% af aflaverðmæti evrópskra skipa.“ Þá sagði hann að annað vandamál væri skortur á áreiðanlegum upplýsingum um stöðu mála. „Núverandi stefna hefur ekki virkað nógu vel til að koma í veg fyrir þessi viðvarandi vandamál.“ Hann sagði þó að sambandið væri að endurskoða stefnuna og að í því fælust ákveðin tækifæri fyrir aðildarríkin.

Gagnrýnir veiðigjöld harðlega

Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði við Háskóla Íslands, sagði á ráðstefnunni það vera óðs manns æði að skattleggja íslenskan sjávarútveg umfram það sem er gert erlendis. Ragnar gagnrýndi harðlega þau veiðigjöld sem stjórnvöld hafa lagt á fyrirtæki í sjávarútvegi og benti á að í mörgum samkeppnisríkjum væri sjávarútvegurinn niðurgreiddur. Því veiktu veiðigjöldin samkeppnishæfni landsins á alþjóðavísu. „Þau munu einnig ýta landinu út af arðbærum mörkuðum sem leiðir til þess að útflutningsverð verður lægra.“

Hann benti jafnframt á að sjávarútvegur væri undirstöðuatvinnuvegur en beint framlag sjávarútvegs til landsframleiðslu er um 11%. „Óbeint og beint framlag atvinnuvegarins til landsframleiðslunnar er um 25%,“ sagði Ragnar.

Þá sagði hann það vera rökvillu að halda því fram að hagnaður í greininni væri eingöngu byggður á sjálfri auðlindinni. Auðlindin væri bara einn af fjölmörgum mikilvægum þáttum.