Ein lífseigasta þjóðsagan um bankahrunið 2008 er, að hún hafi verið bein afleiðing af frjálshyggjutilraun, sem hér hafi verið framkvæmd.

Ein lífseigasta þjóðsagan um bankahrunið 2008 er, að hún hafi verið bein afleiðing af frjálshyggjutilraun, sem hér hafi verið framkvæmd. Þessu heldur til dæmis bresk-kóreski hagfræðingurinn Ha-Joon Chang fram í bók, sem kom út í íslenskri þýðingu 2012, 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá (2012, 272): „Milli áranna 1998 og 2003 einkavæddi landið banka í ríkiseign og hunsaði jafnvel grundvallarregluverk um starfsemi þeirra, til dæmis kröfur um varasjóði banka. Í kjölfarið stækkuðu íslensku bankarnir með ævintýralegum hraða og leituðu sér viðskiptavina erlendis líka.“ Þau Robert Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Stefán Ólafsson prófessor hafa í skrifum sínum komið orðum að svipaðri kenningu.

Þessi kenning stenst þó ekki af tveimur meginástæðum. Í fyrsta lagi var regluverk á íslenskum fjármálamarkaði hið sama og á öðrum evrópskum fjármálamörkuðum. Þetta regluverk var allt samræmt, eftir að Ísland gerði samninginn um Evrópska efnahagssvæðið árið 1994. Hugmyndin var sú, að einn fjármálamarkaður stæði um alla Evrópu og lyti allur sömu lögum og reglum. Chang nefnir að vísu sérstaklega, að hér hafi verið slakað á kröfum um varasjóði banka. En þær voru eftir þær breytingar hinar sömu og annars staðar og höfðu áður verið strangari. En jafnvel þótt þær hefðu verið minni, hefði það engu breytt um bankahrunið: Það varð ekki vegna þess að varasjóðir bankanna væru litlir, heldur vegna þess að fjármálaráðuneytinu íslenska og seðlabankanum var um megn að halda bönkunum uppi, þegar gert var áhlaup á þá, og það var þeim um megn vegna þess að enginn vildi aðstoða þessar stofnanir.

Hin meginástæðan er, að hér var ekki gerð nein frjálshyggjutilraun árin 1991-2004, heldur var hagkerfið opnað og fært í svipað horf og í grannríkjunum, eins og ég lýsti í grein í Wall Street Journal 2004, sem oft hefur verið vitnað í. Árið 2004 reyndist íslenska hagkerfið hið 13. frjálsasta af 130 hagkerfum, sem mæld voru (af Fraser-stofnuninni í Vancouver í Kanada). Atvinnufrelsi hafði hér vissulega stóraukist. En engu að síður voru 12 hagkerfi þá frjálsari en hið íslenska. Síðan má spyrja, hvers vegna þau 12 hagkerfi, sem frjálsari reyndust þá en hið íslenska, hafi ekki fallið, úr því að skýringin á hruni íslensku bankanna á að hafa verið, hversu mikið atvinnufrelsi hafi hér verið.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is