21. október 2013 | Menningarlíf | 1253 orð | 5 myndir

Hin ástríðufulla Thatcher

• Margaret Thatcher var bæði ástrík og hlý, segir vinur hennar John O'Sullivan.

Hjónin Thatcher með Denis eiginmanni sínum. Hann gegndi stóru og mikilvægu hlutverk í lífi hennar og hún var niðurbrotin þegar hann lést.
Hjónin Thatcher með Denis eiginmanni sínum. Hann gegndi stóru og mikilvægu hlutverk í lífi hennar og hún var niðurbrotin þegar hann lést. — AP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ástæðan fyrir því hversu farsæl hún var er sú sama og ástæðan fyrir tímabundnum óvinsældum: hún var ekki hrædd við að taka óvinsælar ákvarðanir. Hún tók ákvarðanir sem hún taldi vera farsælastar til langframa.
Viðtal

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Breski rithöfundurinn John O'Sullivan var staddur hér á landi á dögunum og hélt erindi í Háskóla Íslands um Margaret Thatcher, en hann var ræðuskrifari hennar þegar hún var forsætisráðherra og aðstoðaði hana við samningu sjálfsævisögu hennar. Í fróðlegu erindi fjallaði O'Sullivan aðallega um stjórnmálaferil Thatcher en í þessu viðtali er áherslan aðallega á konuna sjálfa. Var hún jafn kaldlynd og hörð og andstæðingar hennar hafa látið í veðri vaka?

„Þegar hún var að fást við ákveðin málefni vildi hún vita nákvæmlega hver staðan væri og hvaða möguleikar væru í stöðunni og hún ætlaðist til að þeir sem ynnu með henni þekktu allar staðreyndir málsins. Það var þá sem hún gat virst vera köld og hörð. Í starfi sínu var hún mjög málefnaleg, hagsýn og dugleg,“ segir O'Sullivan. „En sem yfirmaður var hún ein hlýjasta og umhyggjusamasta manneskja sem ég hef unnið fyrir. Hún fylgdist vel með líðan og heilsu starfsfólks síns. Ef fólk hafði lagt of hart að sér í vinnu krafðist hún þess að það tæki sér frí og ef einhver átti í erfiðleikum í einkalífi vildi hún allt fyrir hann gera.

Eftir að hafa lesið nýja ævisögu hennar eftir Charles Moore sé ég eitt sem ég hafði reyndar alltaf á tilfinningunni, sem er hversu ástríðufull hún var í einkalífi sínu. Ævisagnaritari hennar komst yfir bréf sem hún skrifaði sem ung kona til systur sinnar og í þeim endurspeglast vel hversu ástrík og hlý hún raunverulega var og gamall kærasti hennar sem enn lifir hefur lýst því enn betur. Það særði hana mjög þegar kærasti hennar hætti að hafa samband eftir að hafa látið eins og honum væri alvara með sambandi þeirra. Annar kærasti, virtur læknir, sem var mun eldri en hún, ákvað að slíta sambandi þeirra vegna þess að hann taldi að það væri of mikill aldursmunur á þeim, rúm tuttugu ár. Mér fannst alltaf að hún hefði þessa ástríðufullu hlið, sérstaklega vegna þess sem ég sá til hennar sem yfirmanns og líka vegna þess hún átti til að fara með löng ljóð utanað og þá sérstaklega mjög rómantísk ljóð eins og The Highwayman eftir Alfred Noyes sem fjallar um unga konu sem fórnar sér til að koma í veg fyrir að stigamaður verði handsamaður.“

Hvað hlutverki gegndi eiginmaður hennar, Denis Thatcher, að þínum dómi?

„Frú Thatcher og Denis giftust 1952 og höfðu þá bæði orðið fyrir áföllum í einkalífi. Denis var fráskilinn og hún var ekki lengur með lækninum sem hún hafði elskað. Stúlkan sem hafði verið full af rómantískri þrá breyttist skyndilega í alvörugefna konu. Ég held að þau Denis hafi gift sig vegna gagnkvæmrar væntumþykju frekar en heitrar ástríðu en strax í byrjun hjónabandsins fór samband þeirra að þroskast og varð að djúpri ást og þegar hún missti hann var hún altekin af sorg.

Denis gegndi stóru og mikilvægu hlutverki í lífi hennar. Hann studdi hana í einu og öllu í störfum hennar, ef til vill ekki ósvipað og hertoginn af Edinborg sem sagðist hafa lært að ganga á eftir konu sinni, Elísabetu II., með hendurnar fyrir aftan bak. Denis hefði ekki getað staðið sig betur en hann gerði sem maki forsætisráðherra.“

Meryl Streep fékk Óskarsverðlaun fyrir leik sinn sem Thatcher í kvikmyndinni The Iron Lady. Hvernig fannst þér myndin og náði Streep að þínum dómi að endurskapa Thatcher á hvíta tjaldinu?

„Ég hafði miklar efasemdir um myndina en verð að viðurkenna að mér fannst hún býsna snjöll. Mér finnst reyndar ekki að það eigi að gera mynd um manneskju sem þjáist af elliglöpum meðan sú manneskja er á lífi því að það gæti sært hana. Það er líka undarlegt að gera mynd um frú Thatcher og láta myndina fjalla aðallega um elli og hnignun. Það væri hægt að gera mynd um Napóleon og áhuga hans á matseld en óneitanlega þætti okkur það efnisval undarlegt. Um stjórnmálahliðina er það að segja að kvikmyndin er ófullnægjandi, þar sjáum við einungis svipmyndir af lokum kalda stríðsins og þegar frú Thatcher á í stjórnmálabaráttu þá vitum við ekki hvers eðlis sú barátta er, af hverju hún til dæmis átti í baráttu við verkalýðshreyfinguna eða í átökum við samherja sína. Falklandseyjastríðinu eru hins vegar gerð góð skil í myndinni. Þessi skortur á djúpri sýn á stjórnmálastarf frú Thatcher skapar þá falsmynd að hún hafi verið kona sem átti í sífelldri baráttu vegna þess að hún var ósanngjörn og erfið manneskja. Staðreyndin er sú að hún var mikil baráttumanneskja þegar kom að þjóðfélagsmálum og siðferðilegum álitamálum og tók einarða afstöðu. Hún var bardagaglöð þegar þess gerðist þörf en eðli hennar var samt ekki þannig.

Þrátt fyrir þessa gagnrýni mína finnst mér myndin vel heppnuð vegna frábærrar frammistöðu Meryl Streep. Þegar ég horfði á myndina þurfti ég hvað eftir annað að minna mig á að ég væri að horfa á leikkonu en ekki raunverulegu manneskjuna sem ég hafði hitt nokkrum dögum áður. Síðan eru raunsönn atriði í myndinni þar sem frú Thatcher sést skálma um með hjörð af undirgefnum karlmönnum sem tölta á eftir henni og viðhafa máttlaus mótmæli en verða að láta í minni pokann. Ég veit að þau atriði lýsa raunveruleika því að ég var einn af þessum undirgefnu karlmönnum sem töltu á eftir henni.“

Af hverju var hún svo farsæl sem stjórnmálamaður?

„Ég tel að hún hafi verið farsæll stjórnmálamaður og umheimurinn virðist vera á sama máli. Hún er nú talin hafa verið mikilhæfur forsætisráðherra. Um skeið var hins vegar ekki litið svo á að henni hefði farnast vel vegna þess að henni var velt úr sessi og hennar eigin flokkur afneitaði henni. Það er til marks um breytt viðhorf gagnvart henni að núverandi leiðtogi íhaldsmanna, David Cameron, gerði sér far um að skapa ákveðna fjarlægð frá frú Thatcher þegar hann komst til valda, en hyllir hana nú sem mikilhæfan leiðtoga flokksins.

Ástæðan fyrir því hversu farsæl hún var er sú sama og ástæðan fyrir tímabundnum óvinsældum: hún var ekki hrædd við að taka óvinsælar ákvarðanir. Hún tók ákvarðanir sem hún taldi vera farsælastar til langframa. Hún var einlægur lýðræðissinni og hún trúði því að ef hún væri á einni skoðun en þú á annarri skoðun þá væri rétt að ná niðurstöðu með því að rökræða málið. Hún talaði ætíð fyrir málstað sínum, sem stundum var mjög óvinsæll, og lagði fram rök í málinu. Hún var viss um að þessi aðferð væri farsælust til að snúa fólki á sitt band og það tókst henni mjög oft.“

Þú ert höfundur bókar sem nefnist Páfinn, forsætisráðherrann og forsetinn þar sem þú segir að þau hafi í sameiningu unnið kalda stríðið. Hvernig tókst þeim það?

„Ýmsir áttu þátt í að vinna kalda stríðið, til dæmis almenningur í Austur- og Mið-Evrópu sem lék þar stórt hlutverk og leiðtogar á borð við Lech Walesa í Pólllandi og Vaclav Havel í Tékklandi. En í hópi stjórnmálamanna var Ronald Reagan lykilmaður og sömuleiðis Jóhannes Páll páfi II. sem sýndi umheiminum í fyrstu ferð sinni til Póllands sem páfi árið 1979 að kommúnisminn væri ekki stefna sem höfðaði til almennings þar í landi. Hann heilsaði ráðamönnum á fyrsta degi heimsóknarinnar en eftir það voru ráðamenn ekki sýnilegir í níu daga ferð hans og það var engu líkara en páfinn stjórnaði Póllandi. Páfinn gróf andlega undan kommúnismanum, frú Thatcher gróf undan kommúnismanum með því að sýna hvað hægt væri að gera í efnahagsmálum og Reagan gróf undan honum með sannri herkænsku. Í sameiningu tókst þeim að fella kommúnismann. Gorbatsjov var mikilvægur til að tryggja að endalok kommúnismans yrðu ekki ofbeldisfull og án blóðsúthellinga, en hann var viðbrögð við Reagan, Thatcher og páfanum fremur en sjálfstæður gerandi.“

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.