Rafmagn og heilsufar Svo virðist sem segulsvið, segir Valdemar Gísli Valdemarsson, hafi neikvæð áhrif á getu líkamans til að bregðast við sjúkdómum. LÍKAMINN er flókið og furðulegt apparat.

Rafmagn og heilsufar Svo virðist sem segulsvið, segir Valdemar Gísli Valdemarsson, hafi neikvæð áhrif á getu líkamans til að bregðast við sjúkdómum. LÍKAMINN er flókið og furðulegt apparat. Vísindamenn og læknar eru enn ekki, þrátt fyrir alla tækni tuttugustu aldarinnar, komnir nema áleiðis í rannsóknum á starfsemi og stjórnun mannslíkamans.

Undanfarin ár hafa augu almennings og fræðimanna beinst æ meira í átt að því að skoða umhverfi okkar til að komast að hvort orsakavaldar að sjúkdómum og vanheilsu sé þar að finna.

Eitt af því sem augu manna beinast æ meira að eru áhrif rafmagns á heilsufar. Er þá verið að skoða þá þætti rafmagnsins sem ekki eru sýnilegir, nefnilega rafgeislun annarsvegar og rafsegulsvið hinsvegar. Þar er verið að tala um rafsegulgeislun frá rafmagnstækjum, allt frá útvarpsviðtækjum til örbylgjuofna og jafnframt radíóbylgjur hverskonar.

Þrátt fyrir að ekki hafi tekist að sanna hvernig rafsegulgeislun hefur áhrif á líf okkar og heilsu eru vísindamenn víðast hvar sannfærðir um að rafsegulgeislun hafi einhver áhrif á líkamann og það jafnvel töluverð. Milljörðum er eytt í rannsóknir á þessu sviði og virðast sumar þjóðir hreinlega vera í samkeppni um að finna hina raunverulegu hættu af rafsegulgeislun. Það er ekki lengur spurning um að sanna "hvort" heldur hvernig.

Í nýlegri skýrslu frá Sænska rafmagnsöryggiseftirlitinu, sem fjallar um hugsanleg tengsl milli rafsegulsviðs og krabbameins, segir að ekki sé sannað að segulsvið valdi krabbameini í fullorðnum og líkurnar á slíku séu harla litlar. Hinsvegar hafa faraldsfræðilegar rannsóknir Dana og Svía sýnt fram á tengsl milli hvítblæðis í börnum og búsetu í nálægð við rafmagnsmannvirki. Þær rannsóknir eru nokkurnveginn samhljóða rannsóknum sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum.

Við þessar rannsóknir hafa nokkrar athyglisverðar staðreyndir komið í ljós. Til dæmis hefur líkamsklukka okkar, sem stjórnar svefni og vöku, hormón í sinni þjónustu sem heitir melatónín. Melatónín eykst í líkamanum þegar við sofum en minnkar í vöku. Tekist hefur að sýna fram á að hormónið minnkar í líkamanum við áhrif frá rafsegulsviði og getur þannig haft áhrif á svefn. Melatónín hefur áhrif á myndun annars hormóns sem nefnist serótónín. Serótónín er mikilvægt í boðskiptakerfi heilans og hefur áhrif á líðan okkar. Truflist melatónínframleiðsla líkamans truflast einnig serótónínframleiðslan og líðan okkar breytist oftast til hins verra.

Í nýlegu tölublaði tímaritsins "Traveler" er grein sem fjallar um svokallaða þotuveiki. Þotuveiki kallast þreyta sem leggst á ferðalanga sem ferðast gegnum tímabelti og þurfa að aðlagast nýjum tíma á komustað. Það getur tekið þá töluverðan tíma að jafna sig, allt frá nokkrum tímum upp í viku. Rannsóknir hafa leitt í ljós að við það að fljúga í langan tíma verður líkaminn fyrir áhrifum frá breytilegu segulsviði jarðar og minnkar heilaköngullinn við það framleiðslu melatóníns. Til að vinna upp á móti flugþreytu er farið að mæla með inntöku melatóníns. Það hefur reynst vel og það flýtir töluvert fyrir að líkaminn jafni sig af flugþreytunni. Rannsóknir vísindamanna hafa jafnframt leitt í ljós að melatónín hefur hamlandi áhrif á skiptingu sumra tegunda krabbameinsfruma og getur þannig hægt á vexti krabbameinsæxla. Sú staðreynd að krabbamein er algengt í hópi flugmanna er e.t.v. tengt minnkandi framleiðslu melatóníns við flug.

Hvað varðar tengsl milli líkamskvilla og rafsegulsviðs hafa sjónir manna beinst helst að ónæmiskerfinu. Svo virðist sem segulsvið hafi neikvæð áhrif á getu líkamans til að bregðast við sjúkdómum. Ónæmiskerfið er flókið og sennilega lítið þekkt en mikilvægi þess er mjög mikið. Menn hafa jafnvel leitt að því líkur að áhrif segulsviðs á líkamann virki aðallega á getu ónæmiskerfisins til að nema hættuástand, t.d. byrjun óeðlilegrar frumuskiptingar, og hindri þannig að varnarkerfi líkamans nái að hefta myndun æxla.

Þar sem ekki hefur tekist að sanna samhengi milli krabbameins og segulsviðs hafa sjónir vísindamanna beinst að svokölluðum "gluggaáhrifum", það er, að ef til vill sé ekki um að ræða áhrif háð styrkleika (þ.e. að sterkara segulsvið kalli á meiri hættu á krabbameini), heldur sé um að ræða ákveðið styrkbil sem gæti þess vegna verið mjög lágt. Svíar íhuga nú að setja staðal sem segi til um hámarkssegulsvið á svæðum þar sem börn eru, t.d. á leikskólum, skólum og dagheimilum, eða um 2,5 mG-3,5 mG (milli Gauss er mælieining á segulsvið). Það vekur eftirtekt hversu lágur staðallinn er og liggur í augum uppi að töluverður kostnaður verður þessu samfara, ef af verður. Svíar taka þessi mál alvarlega og er kannski full ástæða til. Eins og áður er getið hafa faraldsfræðilegar rannsóknir einna helst sýnt tengsl milli barnahvítblæðis og búsetu í nærveru við rafmagnsmannvirki og flutningslínur.

Rafsegulóþol er fyrirbæri sem vakið hefur mikla athygli. Það virðist í fljótu bragði fáránlegt að fá ofnæmi fyrir rafsegulgeislum, en engu að síður er það staðreynd að nokkur fjöldi fólks þjáist af þessum sjúkdómi. Rafsegulóþol lýsir sér með útbrotum, kláða og sviða í húð, þreytu, öndunarerfiðleikum, ásamt svitaköstum. Einkennin koma fram þegar sjúklingur nálgast rafmagnstæki og verður fyrir rafgeislun eða segulsviði. Tölvur, sjónvarpstæki, útvarpstæki og yfirleitt öll tæki sem ganga fyrir rafmagni, eru þá ofnæmisvaldar. Fyrir stuttu birtist lesendabréf í tímaritinu "Journal of Alternativ & Complementary Medicine", þar sem nuddari og praktíker í óhefðbundnum lækningaaðferðum segir frá því að hún hafi náð góðum árangri í meðhöndlun sjúklinga sem þjáðst hafa af þrálátri bólgu í úlnlið og olnboga (Repetidive Strain Injury), sérstaklega í hægri handlegg, vegna vinnu við tölvu og með mús. Meðhöndlunin byggðist á því að eyða allri rafgeislun frá tölvubúnaði viðkomandi, sértaklega mús og lyklaborði. Varð í sumum tilfellum að láta sjúkling hafa fartölvu sem notaði rafhlöður.

Fjöldi fólks finnur fyrir óþægindum frá rafmagni, t.d. rafmagnshitun, sjónvörpum, tölvum, vatnsrúmum, eldavélum og svo mætti lengi telja. Óþægindi lýsa sér t.d. í höfuðverk, kláða og sviða í húð og sjónþreytu. Það er mjög einstaklingsbundið hvort og hvernig menn finna fyrir rafsegulgeislun, sumir finna ekki neitt meðan aðrir eru pirraðir, eiga erfitt um svefn og finna fyrir allskonar kvillum sem jafnvel eru greindir sem ímyndunarveiki. Einfaldur hlutur eins og útvarpsvekjaraklukka getur raskað melatónínjafnvægi líkamans, sé hún staðsett mjög nálægt höfði meðan sofið er.

Hvað svo sem sönnunum líður þá er það ljóst að það ber að umgangast rafmagn með virðingu og varast óæskileg áhrif eins og rafgeislun, t.d. með því að jarðtengja allt sem hægt er að jarðtengja, sofa ekki með rafmagnsvekjaraklukkur nálægt höfði eða önnur rafmagnstæki. Því jafnvel þótt ekki sé sannað hvort né hvernig rafsegulsvið veldur krabbameini þá getur það valdið óþægindum því "fyrr má rota en dauðrota".

Höfundur er rafeindavirki og áhugamaður um umhverfismál.

Valdemar Gísli Valdemarsson