Hannes Hólmsteinn
Hannes Hólmsteinn — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hannes Hólmstein Gissurarson: "„Við þokumst ekki nær sannleikanum um sögulega viðburði eins og bankahrunið með því að reyna að stjórna umræðum, heldur með því að skoða gögnin.“"

Því er haldið fram, að nú sé háð barátta um skýringar á bankahruninu. Ég vísa því á bug. Við þokumst ekki nær sannleikanum um sögulega viðburði eins og bankahrunið með því að reyna að stjórna umræðum, heldur með því að skoða gögnin. Nú eru til miklu fleiri gögn en haustið 2008. Ég ætla að gera örlitla grein fyrir þeim á málstofu í dag kl. 9 til 10.45 í Háskólatorgi, stofu HT-101.

Við vissum að vísu fyrir, að sumar skýringar á bankahruninu stæðust ekki. Til dæmis er rangt, að bankahrunið hafi orðið, vegna þess að regluverk hafi verið hér losaralegt. Regluverkið var hið sama hér og annars staðar í Evrópu, eins og það varð að vera samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Bindiskylda var hin sama, hvorki meiri né minni, þótt það hefði raunar engu breytt, hefði hún verið eitthvað meiri.

Við sjáum hins vegar betur nú en áður, að bankahrunið íslenska var ekki sérstakt. Ef miðað er við samdrátt í landsframleiðslu árið 2009, þá urðu sjö Evrópulönd verr úti í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu en Ísland, til dæmis Finnland og Írland. Og þar bitnaði fjármálakreppan ekki aðallega á eigendum og lánardrottnum bankanna, heldur á venjulegu alþýðufólki.

Við sjáum nú líka skýrar en áður, að hæpið er að rekja bankahrunið til þess, að íslenskt bankafólk hafi verið fífldjarfara eða óheiðarlegra en starfssystkin þess erlendis. Barclays-banki varð nýlega að greiða hátt í 60 milljarða kr. sekt fyrir að hagræða vöxtum á millibankamarkaði í Lundúnum. HSBC varð að greiða nær 230 milljarða kr. sekt fyrir að aðstoða við peningaþvætti. Goldman Sachs-fjármálafyrirtækið varð að greiða meira en 60 milljarða kr. sekt fyrir að veita fjárfestum ónákvæmar upplýsingar. Bank of America og Citigroup í Bandaríkjunum og Deutsche Bank, UBS og Credit Suisse í Evrópu sæta rannsókn vegna hugsanlegra lögbrota. Einnig er talið líklegt, að UBS og Credit Suisse hefðu hrunið hefði bandaríski seðlabankinn ekki veitt hinum svissneska rausnarlega fyrirgreiðslu.

Hitt er annað mál, ef við skoðum gögnin, að hér á Íslandi urðu greinilega tímamót árið 2004, eins og sést á 1. línuriti, um erlendar skuldir þjóðarbúsins. Þær ruku upp úr öllu valdi um og eftir 2004. Skýringin er einföld. Þetta ár náði fámenn auðklíka undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi hér völdum. Hún átti nær alla fjölmiðla landsins að undanteknu Ríkisútvarpinu og Morgunblaðinu og sigaði þeim miskunnarlaust á þá, sem ekki lutu henni. Þessi auðklíka réð nær tveimur þriðju hlutum smásöluverslunar í landinu og drottnaði yfir einum af þremur bönkum og mörgum öðrum fyrirtækjum. Hún átti sér ýmsa viðhlæjendur. Til dæmis dylgjaði einn samkennari minn í Háskóla Íslands um það opinberlega sumarið 2005, þegar Jón Ásgeir sætti opinberri ákæru fyrir bókhaldsbrot, að yfirvöld ofsæktu hann af stjórnmálaástæðum. Var Jón Ásgeir síðar sakfelldur fyrir það brot, sem hann hafði í upphafi verið kærður fyrir.

Auðklíka Jóns Ásgeirs Jóhannessonar nýtti sér hið góða lánstraust, sem ríkisstjórnirnar 1991-2004 höfðu skapað með skynsamlegri hagstjórn, til að taka erlend lán eins og hún ætti lífið að leysa. Hún safnaði líka skuldum hér innan lands. Á 2. línuriti eru heildarskuldir Baugsklíkunnar í íslenska bankakerfinu bornar saman við heildarskuldir annarra helstu fyrirtækjasamstæðna í landinu, eins og rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu flokkaði þær. Þar sést skýrt, að klíka Jóns Ásgeirs var í sérflokki um skuldasöfnun. Heildarskuldir Björgólfsfeðga og tengdra aðila í bankakerfinu jukust til dæmis ekki verulega síðustu tvö og hálft ár fyrir bankahrun.

Rannsóknarnefnd Alþingis hefur rétt fyrir sér um að þessi hóflausa skuldasöfnun myndaði sérstaka kerfisáhættu. Í skýrslu hennar segir: „Af öllum þeim fyrirtækjahópum sem höfðu veruleg útlán í íslenska bankakerfinu stendur upp úr stór hópur fyrirtæka sem tengdist Baugi Group. Í öllum þremur bönkunum sem og í Straumi-Burðarási skapaði þessi hópur of stóra áhættu.“ Mjög er miður, að margt ungt, djarft og duglegt fólk, sem starfaði í bönkunum og fyrirtækjum erlendis, skyldi ómaklega fá á sig óorð af framferði Baugsklíkunnar. Sannast þar, að menn eru ekki ætíð sinnar eigin gæfu smiðir, því að háttsemi annarra getur haft víðtækt áhrif á líf þeirra. Þetta unga fólk og margir aðrir Íslendingar gjalda hófleysis og ofmetnaðar Baugsklíkunnar, svipað og sjálf klíkan naut áður skynsamlegrar hagstjórnar þeirra manna, sem hún barðist síðan harðast gegn.

Hér var önnur sérstök kerfisáhætta: Baktryggingarsvæði bankanna var miklu minna en rekstrarsvæði þeirra, sem mátti eftir samningnum um Evrópska efnahagssvæðið vera öll Evrópa. Mönnum var þessi áhætta ekki ljós, af því að þeir trúðu því, að Ísland myndi ekki standa eitt, ef á reyndi. En það rættist ekki. Um leið og bandaríski seðlabankinn gerði gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka allra Evrópulanda utan evrusvæðisins neitaði hann íslenska seðlabankanum um slíkan samning. Til dæmis nema gjaldeyrisskiptasamningar bandaríska seðlabankans við hinn svissneska samtals 466 milljörðum dala, þótt þeir færu að vísu aldrei í einu upp í svo háa upphæð. Sambærilegir gjaldeyrisskiptasamningar við danska seðlabankann námu samtals 73 milljörðum dala. Gerði það danska bankanum kleift að bjarga Danske Bank frá falli. Breska fjármálaeftirlitið lokaði bönkum í eigu Íslendinga sama dag og öllum öðrum bönkum í Bretlandi var bjargað með opinberum aðgerðum. Og breska ríkisstjórnin setti hryðjuverkalög á íslensk fyrirtæki með þeim afleiðingum að öll sund lokuðust.

Enn er ekki fullskýrt hvers vegna bandarísk og bresk yfirvöld hegðuðu sér á þennan hátt. Ef til vill var það frekar til góðs en ills, að bankakerfinu var ekki bjargað. Stöðva á ósjálfbæran rekstur í stað þess að halda honum áfram með almannafé. En hrun bankakerfisins varð okkur óþarflega kostnaðarsamt. Til dæmis seldust eignir Glitnis í Noregi fyrir brot af raunverulegu virði. Hitt var þó verra, að til valda komst á Íslandi vinstristjórn, sem gerði alvarleg mistök. Tekið var að óþörfu lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem stóð óhreyft á háum vöxtum inni á reikningi í New York. Tveir bankanna voru seldir erlendum kröfuhöfum í undarlegum gerningum, sem ekki fást nægar upplýsingar um. Ekki var tekið nægilega snemma á vanda sparisjóðanna og Íbúðalánasjóðs. Þótt okkur tækist í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum að fella Icesave-samningana, sem vinstristjórnin gerði við Breta og sumir samkennarar mínir studdu dyggilega, verður eftirhrunið okkur sennilega jafndýrkeypt og sjálft bankahrunið.

Höfundur er prófessor í stjórnmálafræði og sat í bankaráði Seðlabankans 2001-2009.