29. nóvember 2013 | Minningargreinar | 608 orð | 1 mynd

Þórdís Jóhanna Árnadóttir

Þórdís Jóhanna Árnadóttir fæddist í Reykjavík 19. september 1933. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ 6. nóvember 2013.

Útför Þórdísar var gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík 19. nóvember 2013.

Ég var ekki hár í loftinu þegar ég fór að venja komur mínar að Reynimel til Jónu móðursystur minnar sem þar bjó ásamt Árna manni sínum og börnunum tveimur, þeim Benedikt og Þórdísi. Það var svo sem ekki langt úr Sörlaskjólinu upp á Reynimel, en fyrir lítinn mann var þetta drjúgt ferðalag sem ég vissi að olli móður minni sífelldum áhyggjum þótt umferð í þá daga væri lítil og börn almennt frjálsari en nú er. Það voru ekki bara súkkulaðiterturnar hennar Jónu frænku minnar sem seiddu, ekki síður systkinin Benni og Dísa, sem mér fannst einstaklega skemmtilegt og spennandi fólk. Þótt þau væru meira en áratug eldri en ég voru þau mér einstaklega góð og ég upplifði mig oftast eins og litla bróður þeirra. Ég fékk að fara upp á Melavöll með Benna sem æfði þar spjótkast og Dísa tók mig með í alls kyns ævintýri. En leiðir skildi. Þau urðu fullorðin, en ég unglingur sem hafði öðrum hnöppum að hneppa, en sambandið milli okkar var þó alltaf gott.

Þórdís Jóhanna eins og hún hét fullu nafni var ákaflega lagleg kona. Svipmikil, alla tíð, tággrönn og mikil íþróttakona á yngri árum. Hún keppti m.a. fyrir Íslands hönd í sundi á Ólympíuleikunum í London árið 1948, þá aðeins 14 ára gömul. Hún var glaðlynd og öllum leið vel í návist hennar. Hún var skapmikil eins og hún átti kyn til og gat verið nokkuð dómhörð og lá ekki á skoðunum sínum ef svo bar undir. En fyrst og fremst var Dísa þó góð manneskja. Þótt skyldleikinn við Dísu væri mikill lá það í augum uppi að aldursmunur olli því að samgangur milli okkar minnkaði smátt og smátt. Dísa gifti sig líka ung og flutti til Bandaríkjanna með manni sínum þar sem hún dvaldi í allmörg ár. Hún og móðir mín voru hins vegar ávallt í miklu og góðu sambandi, skrifuðust oft á og Dísa heimsótti foreldra mína þegar hún var hér heima. Svo fór að hjónabandi Dísu lauk og hún fluttist aftur heim til Íslands með drengina sína þrjá. Nokkrum árum síðar hitti hún seinni mann sinn, Einar Elíasson framkvæmdastjóra, og saman áttu þau eina dóttur.

Þau Dísa og Einar stunduðu viðskipti um árabil. Áttu m.a. og ráku Byggingavöruverslun Jes Zimsen auk annarra fyrirtækja sem þau komu að. Þau reistu sér fallegt heimili á Stekkjarflöt 22 í Garðabæ og bjuggu þar allt þangað til Einar lést árið 2006. Einar og Dísa voru mikið útivistar- og ræktunarfólk og garðurinn þeirra í Garðabænum var rómaður fyrir fegurð. Eftir lát Einars flutti Dísa í fallega íbúð á Strikinu 12 í Garðabæ og bjó þar þangað til heilsan gaf sig og hún fluttist inn á hjúkrunarheimili.

Dísa var alla tíð í miklu uppáhaldi hjá mér og minni fjölskyldu. Hún var einstaklega góð og ræktarsöm við móður mína og heimsótti hana iðulega. Hún fylgdist einnig mjög vel með okkur systkinunum, mökum og börnum og umhyggja hennar fyrir Margréti móðursystur okkar verður seint þökkuð.

Kæra frænka. Nú er stríðinu lokið. Okkar kynslóð týnir hægt tölunni, við hin komum seinna. Hvíldu í friði.

Við Anna og börnin okkar sendum börnum Dísu og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jóhannes Helgason.

HINSTA KVEÐJA
Þórdís Jóhanna Árnadóttir var stofnfélagi Samtaka íslenskra ólympíufara og ræktaði vel samband sitt við samtökin. Hún var glæsilegur keppandi í sundi á Ólympíuleikunum í London 1948, aðeins 14 ára og 315 daga gömul; hún er enn yngsti keppandi Íslands á Ólympíuleikum.
Við minnumst hennar og sendum öllum ættingjum samúðarkveðjur.
F.h. Samtaka íslenskra ólympíufara.
Guðmundur Gíslason.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.