Notendahópar eru allra hagur Gróska í starfsemi DECUS á Íslandi Tölvur Marinó G.

Notendahópar eru allra hagur Gróska í starfsemi DECUS á Íslandi Tölvur Marinó G. Njálsson

FYRIR tveimur árum gafst mér tækifæri til að fara á ráðstefnu á vegum Borland hugbúnaðarfyrirtækisins þar sem saman voru komnir fulltrúar notendahópa (user groups) víðvegar að úr heiminum. Á ráðstefnunni kynntist ég hluta af hinu umfangsmikla starfi sem notendahóparnir standa fyrir. Á næstu vikum og mánuðum eftir ráðstefnuna fékk ég sendan til mín alls konar póst þar sem verið var að kynna hin ólíku kostaboð í tengslum við hinar og þessar uppákomur í tölvuheiminum.

Öll helstu tölvufyrirtæki Bandaríkjanna, jafnt salar sem framleiðendur vélbúnaðar og hugbúnaðar, leggja mjög mikla áherslu á góð samskipti við notendahópa út um allan heim. Þeim eru m.a. kynntar nýjustu útgáfur af hugbúnaði löngu áður en almennir kaupendur fá tækifæri á að skoða þær og tölvusalar leggja til vélbúnað til prófunar og/eða notkunar á skrifstofum hópanna. Fulltrúum hópanna er reglulega boðið á ráðstefnur og kynningarfundi á vegum tölvufyrirtækjanna og á tölvusýningum má segja að fulltrúar notendahópanna séu á stöðugum þeytingi milli matarboða, kynninga og kokteilboða fyrirtækjanna.

APCUG

Association of PC User Groups (APCUG) eru alþjóðleg samtök PC notendahópa með aðsetur í Bandaríkjunum. Samtökin hafa það að markmiði að hlúa að samskiptum milli PC notendahópa og koma á sambandi milli hópanna og útgefenda hugbúnaðar og framleiðenda vélbúnaðar. APCUG er ekki notendahópur, en miðlar upplýsingum á milli notendahópanna. Meira en 200 hópar eru aðilar að APCUG og innan þeirra vébanda yfir 300.000 meðlimir.

Þó flestir aðildarhópar APCUG séu frá Bandaríkjunum eða Kanada, eru innan vébanda þeirra hópar alls staðar að úr heiminum. Þar með taldir eru hópar í Austurríki, Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Japan, Rússlandi og Þýskalandi. Enginn íslenskur notendahópur er aðili að APCUG, en vonandi verður bætt úr því á næstu mánuðum.

Hlutverk APCUG er að gæta hagsmuna tölvunotenda gagnvart söluaðilum og framleiðendum tölvubúnaðar, veita félögum sínum upplýsingar um nýja tækni, aðstoða vegna vandamál, sem upp kunna að koma og aðstoða aðildarhópa við að halda námskeið og kynningar.

Notendahópar á Íslandi

Fáir notendahópar eru starfandi hér á landi, en þeim fer fjölgandi. Stærstu og öflugustu hóparnir eru DECUS á Íslandi, þ.e. samtök DEC notenda, og notendahópur Skýrr. Einnig er til Paradoxhópur og notendur Archimedes eiga sér félagsskap svo nokkrir séu nefndir. Þeir sem hafa aðgang að Íslenska menntanetinu geta fundið alls konar notendahópa sem skotið hafa upp kollinum á síðustu árum

Tölvuáhugafólk á Íslandi hefur að mestu safnast saman í Skýrslutæknifélagi Íslands. Að sjálfsögðu er til fjöldinn allur af öðrum félögum tölvuáhugafólks (séráhugahópar), en Skýrslutæknifélagið hefur orðið einhvers konar samnefnari þeirra allra. Félagið er í mörgu ólíkt hópunum innan APCUG, vegna þess að innan félagsins sameinast bæði notendur og seljendur meðan eingöngu notendur eru innan APCUG.

DECUS á Íslandi 15 ára

DECUS á Íslandi er, eins og áður segir, félagsskapur Digital tölvunotenda. Þessi samtök eru ein elstu alþjóðasamtök tölvunotenda. Þau voru upphaflega mynduð til að vera sem þrýstihópur á Digital og auka þannig áhrif notenda á framleiðslu tölvubúnaðar frá fyrirtækinu.

Félagsskapur þessi hefur verið starfræktur í fimmtán ár á Íslandi og eru félagsmenn um þrjú hundruð talsins. Í upphafi voru það aðallega tæknimenn, sem störfuðu innan félagsins, en í seinni tíð hafa almennir notendur og stjórnendur bæst í hópinn. Starfsemi DECUS er skipulögð á þann veg að hún fer fram á svo kölluðum brautum, þ.e. tæknibraut, notendabraut og stjórnendabraut, þar sem reynt er að sinna þörfum hvers hóps eins vel og kostur er.

Markmið félagsins er einkum að upplýsa og fræða félagsmenn um nýjungar og fyrirhugaðar breytingar í tölvuheiminum auk þess að vera vettvangur skoðanaskipta og upplýsingamiðlunar. Fréttabréf er gefið út og haldnir eru félagsfundir einu sinni í mánuði með fjölbreyttum fyrirlestrum. Sjá brautirnar um fyrirlestrana til skiptis.

DECUS ráðstefnur um

allan heim

Á hverju vori er haldin tveggja daga ráðstefna þar sem fengnir eru bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar. Oftast hafa um hundrað manns sótt þessar ráðstefnur. Hægt er að velja um þrjá fyrirlestra á hverjum tíma, þ.e. á tæknibraut, notendabraut og stjórnendabraut, þar sem reynt er að höfða til áhuga sem flestra en ekki einvörðungu hinna dæmigerðu tölvusérfræðinga. Samhliða ráðstefnum er svo haldin tölvusýning sem er opin meðan á ráðstefnunni stendur.Síðasta ráðstefna var haldin á Höfn í Hornafirði 27. og 28. maí síðastliðinn. Næsta ráðstefna hjá DECUS á Íslandi verður á Hótel Örk 5. og 6. maí á næsta ári.

DECUS á Íslandi er hluti af DECUS í Danmörku, sem aftur er hluti í DECUS í Evrópu með höfuðstöðvar í Sviss. Árlega er haldin viku ráðstefna á vegum DECUS Evrópu og verður sú næsta í ráðstefnuhöllinni í Cannes í Frakklandi dagana 12.­16. september nk. Áætlaður er að yfir 2.000 DECUS félagar sæki ráðstefnuna. Þar verða fluttir u.þ.b. 600 fyrirlestrar um hin ýmsu málefni frá félagsmönnum alls staðar að úr heiminum. Daginn fyrir ráðstefnuna er boðið upp á nokkur stutt námskeið. Má nefna að eitt þeirra er frá Íslandi. Samhliða ráðstefnunni er tölvusýning ýmissa fyrirtækja bæði á vélbúnaði og hugbúnaði.

Auk ráðstefnunnar í Evrópu eru haldnar stórar ráðstefnur í Bandaríkjunum á vegum DECUS USA og hefur þátttakendafjöldinn þar farið yfir 10.000 manns.

Stjórn DECUS á Íslandi er byggð upp af aðalstjórn og stjórnum brautanna þriggja, þ.e. notendabraut, tæknibraut og stjórnendabraut. Í aðalstjórn sitja sex manns og fjórir í stjórn hverrar brautar. Formaður félagsins starfsárið 1994­1995 er Sigurjón Þ. Árnason yfirtæknifræðingur.

Höfundur er tölvunarfræðingur.