Sigríður Hagalín leikkona fæddist í Voss í Noregi 7.12. 1926 en ólst upp á Ísafirði, dóttir Guðmundar Hagalín rithöfundar, og f.k.h., Kristínar Jónsdóttur húsfreyju. Guðmundur G. Hagalín var bróðir Þorbjargar, móður Gísla Sigurðssonar læknis.

Sigríður Hagalín leikkona fæddist í Voss í Noregi 7.12. 1926 en ólst upp á Ísafirði, dóttir Guðmundar Hagalín rithöfundar, og f.k.h., Kristínar Jónsdóttur húsfreyju.

Guðmundur G. Hagalín var bróðir Þorbjargar, móður Gísla Sigurðssonar læknis. Guðmundur var sonur Gísla Kristjánssonar í Lokinhömrum í Arnarfirði, bróður Odds, afa Þráins Bertelssonar. Móðir Guðmundar Hagalín var Guðný Guðmundsdóttir.

Kristín var systir Jóns, tónskálds frá Hvanná, og dóttir Jóns, alþm. á Hvanná í Jökuldal Jónssonar. Móðir Kristínar var Gunnþórunn Kristjánsdóttir Kröyer, frá Hvanná.

Fyrri maður Sigríðar var Ólafur Ágúst Ólafsson forstjóri en seinni maður hennar var Guðmundur Pálsson, leikari og lengi framkvæmdastjóri Leikfélags Reykjavíkur.

Dætur Sigríðar eru Kristín Hagalín Ólafsdóttir, bókasafnsfræðingur sem hefur, ásamt Jóhönnu Gunnlaugsdóttur, starfrækt Gagnskör sf., og Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir leikritahöfundur.

Sigríður lauk gagnfræðaprófi á Ísafirði 1941, stundaði nám við Samvinnuskólann, Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og Leiklistarskóla Þjóðleikhússins.

Sigríður var leikkona hjá Þjóðleikhúsinu og LR 1953-63 og var síðan fastráðin hjá LR frá 1964. Auk þess lék hún í fjölda útvarps- og sjónvarpsleikrita og í kvikmyndum.

Sigríður þótti afar fjölhæf leikkona og var um árabil í hópi fremstu leikkvenna hér á landi. Meðal eftirminnilegra hlutverka hennar má nefna Nell í Hitabylgju, 1970; Arkadíu í Mávinum, 1970; Frú Gogan í Plógi og stjörnum, 1971; Fonsíu í Rommí, 1980, og aðalhlutverk í kvikmyndinni Börn náttúrunnar, 1991.

Sigríður hlaut silfurlampann, 1970, var tilnefnd til evrópsku Felix-kvikmyndaverðlaunanna sem besta leikkona í aðalhlutverki 1991 fyrir leik sinn í Börnum náttúrunnar og var kosin af Alþingi í heiðurslaunaflokk listamanna 1991.

Sigríður lést annan í jólum 1992.