Oft er misfarið með fleyg orð. Eitt íslenskt dæmi er af Jóni Þorlákssyni, forsætisráðherra og borgarstjóra. Hann á að hafa kallað nasista, sem létu að sér kveða á fjórða áratug, „unga menn með hreinar hugsanir“.

Oft er misfarið með fleyg orð. Eitt íslenskt dæmi er af Jóni Þorlákssyni, forsætisráðherra og borgarstjóra. Hann á að hafa kallað nasista, sem létu að sér kveða á fjórða áratug, „unga menn með hreinar hugsanir“. Hið sanna er, að margir þeir, sem stofnuðu Þjóðernishreyfingu Íslendinga vorið 1933, voru alls ekki nasistar, og gerðu þeir kosningabandalag við Sjálfstæðisflokkinn í bæjarstjórnarkosningunum 1934. Hinir eiginlegu nasistar tóku ekki þátt í því bandalagi. En Jón Þorláksson sagði á Alþingi 22. maí 1933 í andmælum við eina ræðu Jónasar Jónssonar frá Hriflu: „Þá gat hann ekki stillt sig um, sem ekki er von, að senda hnútur til þess æskulýðs, sem í ýmsum flokkum og í ýmsum myndum rís upp til að skipa sér með hreinum hugsunum undir fána þjóðarinnar.“ Átti Jón bersýnilega annars vegar við fánalið sjálfstæðismanna, sem starfaði um hríð, og hins vegar við félaga í Þjóðernishreyfingunni, sem þá var nýstofnuð, en skiptist síðan í þá, sem gengu í Sjálfstæðisflokkinn, og hina, sem héldu áfram að vera nasistar.

Einnig má nefna hin kunnu vísuorð Hallgríms Péturssonar í XXII. passíusálmi:

Góð minning öngva gerir stoð,

gilda skal meira Drottins boð.

Oft er vitnað í þetta svo: „Góð meining enga gerir stoð.“ En það er rangt. Hallgrímur er hér að tala um venjur eða minningar, sem víkja skuli fyrir Drottins orði.

Þriðja dæmið er í Sturlu sögu, sem gerist á 12. öld. Brandur Sæmundarson, biskup á Hólum, segir við Sturlu Þórðarson í Hvammi, ættföður Sturlunga: „Engi maður frýr þér vits, en meir ertu grunaður um gæsku.“ Oft er þetta haft svo, að Brandur hafi grunað Sturlu um græsku. En hér er sögnin að gruna höfð í fornri merkingu: að hafa efasemdir um eitthvað. Brandur er að segja, að hann efist um gæsku Sturlu eða manngæsku, þótt hann telji hann vissulega slunginn.

Má hér raunar bæta við óskyldri athugasemd. Orðin „manngæska“ og „mannvonska“ eru íslenskulegri en „góðmennska“ og „illmennska“. Ráðstjórnarríkin voru til dæmis „veldi mannvonskunnar“ í munni Reagans (evil empire), og Eichmann í Jórsölum var hin „hversdagslega mannvonska“ holdi klædd (banality of evil), eins og Hannah Arendt komst að orði.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is