7. desember 2013 | Innlendar fréttir | 467 orð | 1 mynd

Enn bjartsýnn á að gagnaver rísi

• Bæjarstjórinn á Blönduósi hefur átt í óformlegum viðræðum við erlend stórfyrirtæki um byggingu gagnavers • „Við höfum ekki gefist upp“ • Facebook íhugaði það árið 2011 að reisa hér gagnaver

Arnar Þór Sævarsson
Arnar Þór Sævarsson
Kristinn Ingi Jónsson kij@mbl.is Bæjarstjórinn á Blönduósi, Arnar Þór Sævarsson, hefur átt í óformlegum viðræðum við stórfyrirtæki víða um heim, þar á meðal í Bandaríkjunum og Evrópu, um byggingu gagnavers á Blönduósi.
Kristinn Ingi Jónsson

kij@mbl.is

Bæjarstjórinn á Blönduósi, Arnar Þór Sævarsson, hefur átt í óformlegum viðræðum við stórfyrirtæki víða um heim, þar á meðal í Bandaríkjunum og Evrópu, um byggingu gagnavers á Blönduósi. Í samtali við Morgunblaðið segir hann að nokkur fyrirtæki hafi heimsótt Blönduós og kannað aðstæður en ekkert sé þó fast í hendi.

Hann segir jafnframt að Finnar og Svíar hafi á seinustu árum laðað til sín stórfyrirtæki á borð við Facebook, Google og Microsoft sem hafi reist þar gagnaver. „Forsvarsmenn Facebook skoðuðu það árið 2011 að reisa gagnaver hér á landi en kusu að lokum að fara til Svíþjóðar,“ segir hann. Var gagnaverið opnað í Luleå í norðurhluta Svíþjóðar í sumar sem leið.

Eins og fram kemur hér til hliðar hafði fyrirtækið Greenstone í hyggju að reisa gagnaver á Blönduósi en féll frá áformum sínum í fyrra. Arnar Þór segir að sveitarfélagið hafi átt í samstarfi við Íslandsstofu um að markaðssetja Ísland, og þá sér í lagi Blönduós, sem fýsilegan kost fyrir gagnaversiðnað. „Við teljum okkur vera með góða vöru í höndunum – staðsetninguna – og menn vita af okkur,“ bendir hann á.

Kostirnir margir

„Við erum búin að skipuleggja, í aðalskipulaginu, rúmlega 270 hektara land undir starfsemi af þessu tagi. Það er líka stutt í Blönduvirkjun, hér er kalt og gott loft og góðar raforku- og ljósleiðaratengingar eru fyrir hendi,“ segir hann um kosti þess að reisa gagnaver á svæðinu. Sveitarfélagið hafi lagt mikla vinnu í að laða erlend fyrirtæki að og láti engan bilbug á sér finna, þrátt fyrir að Greenstone hafi hætt við áform sín. „Við höldum bara okkar striki. Við höfum ekki gefist upp og munum halda áfram að kynna svæðið sem fjárfestingarkost,“ segir hann.

Það er mat Arnars Þórs að ekki hafi verið nóg gert til að laða hingað erlenda fjárfesta. Gjaldeyrishöftin séu til dæmis þrándur í götu nýrra fjárfestinga og markaðssetningin ekki nægilega markviss. „Finnar og Svíar hafa náð mjög góðum árangri í markaðssetningu og hafa laðað til sín fjölmörg fyrirtæki. Við þurfum að læra af þeim,“ segir hann.

Tekið til gjaldþrotaskipta

Krafa KPMG um töku bús Greenstone, sem hætti í fyrra við áform sín um byggingu gagnavers á Íslandi, til gjaldþrotaskipta verður tekin fyrir næsta miðvikudag í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Greenstone var stofnað af fyrirtækjunum TCN í Hollandi, GEO í Bandaríkjunum og Amicus á Íslandi og vann að því, frá árinu 2008, að reisa gagnaver hér á landi. Eftir að hafa skoðað álitlega staði víða um land, og ritað undir viljayfirlýsingar með fjölmörgum íslenskum sveitarfélögum, varð Blönduós fyrir valinu.

Félagið hætti hins vegar við áformin á síðasta ári en í samtali við Morgunblaðið sagði talsmaður þess, Sveinn Óskar Sigurðsson, að síðasta ríkisstjórn hefði verið óviljug að vinna með félaginu.

Að sögn Arnars Þórs var Greenstone milliliður fyrir bandaríska risabankann Morgan Stanley sem hugðist hýsa sín rafrænu gögn í gagnaverinu.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.