[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Landlæknisembættið hefur undanfarið unnið að því að samtengja sjúkraskrár landsmanna sem eru á opinberum heilbrigðisstofnunum.

Fréttaskýring

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Landlæknisembættið hefur undanfarið unnið að því að samtengja sjúkraskrár landsmanna sem eru á opinberum heilbrigðisstofnunum.

Verkefnið er á tilraunastigi en er þó komið það langt að sjúkraskrár á heilbrigðisstofnunum á Vesturlandi og Reykjanesi eru orðnar samtengdar og nokkrir starfsmenn með aðgang til prufu Vonir standa til að kerfið verði komið í gagnið að hluta til eftir áramót. Fyrst verða tengdar saman allar sjúkraskrár opinberra heilbrigðisstofnana.

Samtenging rafrænna sjúkraskrárkerfa er að finna í lögum um sjúkraskrár sem tóku gildi 1. maí árið 2009. Um öryggi persónuupplýsinga við slíka samtengingu gilda lög um persónuvernd, meðferð persónuupplýsinga og reglur Persónuverndar. Þar er einnig kveðið á um rétt sjúklings til að takmarka aðgang að sjúkraskrárupplýsingum um sig í sameiginlegu sjúkraskrárkerfi.

Meiri samfella í kerfinu

Þegar sjúkraskrárkerfi verða orðin samtengd mun umönnunaraðili sjúklingsins geta séð sjúkrasögu hans.

Ef einstaklingur sem búsettur er í Reykjavík veikist á Akureyri getur læknir flett honum upp í rafrænni sjúkraskrá, séð sjúkrasögu hans og veitt honum þjónustu byggða á þeim upplýsingum.

„Meiri samfella verður í þjónustunni. Þetta verður betra fyrir sjúklinginn sem þarf ekki að endurtaka sjúkrasögu sína fyrir lækni. Þá getur læknirinn veitt markvissari þjónustu. Einnig felur þetta í sér sparnað fyrir samfélagið þar sem ekki þarf að endurtaka sömu prófin eins og t.d. blóðrannsóknir,“ segir Geir Gunnlaugsson landlæknir.

Þá bendir hann á að með þessum hætti sé betur hægt að hjálpa einstaklingum sem leita til margra lækna með vandamál sín þar sem læknirinn fengi aðgang að upplýsingum um meðferð þeirra hjá öðrum og um lyfjanotkun þeirra. Þar með verður hægt að koma í veg fyrir óæskileg samverkandi áhrif lyfja og í sumum tilvikum misnotkun.

„Það er enginn möguleiki að sjá upplýsingar um sjúkraskrárnar í gegnum netið. Öll samskiptin eru dulkóðuð. Þessi miðlunaraðferð er eins örugg og hægt er,“ segir Ingi Steinar Ingason, verkefnisstjóri rafrænnar sjúkraskrár hjá Landlæknisembættinu.

Aðgangur að sjúkraskránum er er mismunandi eftir notendahópum sem sinnir sjúklingnum og það eru eingöngu ákveðnir notendahópar sem hafa aðgang að samtengingunum.

Þá eru tilteknar upplýsingar flokkaðar sem viðkvæmar, það eru t.d. upplýsingar um heimsóknir til geðlækna eða hvort einstaklingur hefur farið í fóstureyðingu. „Ekki er hægt að fletta slíkum gögnum þarna upp. Þetta er umræða sem á eftir að fara í. Það sem einn sjúklingur telur viðkvæmt telur annar ekki svo vera,“ segir Ingi Steinn.

Víðtækt eftirlit er með uppflettingum í rafrænar sjúkraskrár, t.d eru sérstakar eftirlitsnefndir starfandi innan heilbrigðisstofnana sem fylgjast með hverjir skoða sjúkragögn um einstaklinginn. „Í þessu samtengda kerfi verður hægt að rekja hverjir skoða sjúkraskrána. Þegar fram líða stundir getur einstaklingurinn sjálfur séð hver flettir honum upp.“

Alltaf ákveðin áhætta

„Því að veita sameiginlegan aðgang að viðkvæmum persónuupplýsingum fylgir alltaf mikil áhætta. En við sýnum því skilning að slíkt getur haft í för með sér ákveðinn ávinning,“ segir Hörður Helgi Helgason, settur forstjóri Persónuverndar.

Hann áréttar að allar heilbrigðisupplýsingar teljast viðkvæmar persónuupplýsingar.

Þá bendir hann á að í lögunum sé skýrt kveðið á um að ábyrgðaraðilum sé skylt að gera áhættumat sem og tryggja öryggi slíkra upplýsinga. „Það er aldrei hægt að tryggja 100% öryggi en umræðan er oft á þá leið. Þess vegna er mikilvægt að fólk átti sig á því í umræðunni.“