[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur fæddist í Doktorshúsinu við Ránargötu 3.1. 1944 og átti þar heima fyrstu árin, síðan við Langholtsveginn og loks við Miklubrautina á móts við Klambratúnið.

Guðmundur fæddist í Doktorshúsinu við Ránargötu 3.1. 1944 og átti þar heima fyrstu árin, síðan við Langholtsveginn og loks við Miklubrautina á móts við Klambratúnið. Hann var einn vetur í Laugarnesskóla, síðan í glænýjum Langholtsskóla, stundaði nám við Gagnfræðaskóla Austurbæjar í tvo vetur, lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla verknáms í Brautarholti 1960, stundaði nám við Iðnskólann í Reykjavík og lauk sveinsprófi í prentmyndagerð 1962 en meistari hans var Þorsteinn Oddsson.

Guðmundur útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskólanum 1966, stundaði nám við Konsthögskolan Valand og við Göteborgs Universitet í Gautaborg í Svíþjóð á 1966-72 og lauk meistaraprófi í grafík. Síðar lauk hann kennaraprófi frá HA 2004, M.Ed.-prófi frá HA 1913 og stundaði rannsókn í listgreinakennslu við Konstfack í Stokkhólmi 2013.

Guðmundur var sendisveinn í Prentsmiðjunni Eddu á unglingsárunum og vann síðan í brúarvinnu í nokkur sumur. Er hann kom frá námi í Svíþjóð, vorið 1972, varð hann við þeirri ósk Harðar Ágústssonar, þá skólastjóra Myndíða- og handíðaskólans, að fara til Akureyrar og kenna þar myndlist: „Ég fékk nokkra árganga af Birtingi í veganestið hjá Herði, en hann hafði ritstýrt tímaritinu 1955-68. Veganestið varð drjúgt og ég hef verið á Akureyri síðan.

Þegar ég kom norður höfðu dugmiklir einstaklingar stofnað Myndlistarfélag Akureyrar. Ég kenndi við Námsflokka Akureyrar og tók síðan þátt í því, ásamt ýmsum þessara aðila, að stofna Myndsmiðjuna á Akureyri, sem varð undanfari Myndlistarskóla Akureyrar. Ég hvarf hins vegar frá kennslunni eftir nokkur ár enda afskaplega reiður og róttækur maður á þessum árum. Ég hafði tekið þátt í hugmyndafræðilegri grósku íslenskra námsmanna sem náði hámarki með töku íslenska sendiráðsins í Stokkhólmi og ég starfaði með KSML á Akureyri.“

Guðmundur var verkamaður við Slippinn á Akureyri 1976-78, stofnaði Teiknihönnun KG 1978, ásamt Kristjáni Steingrími Jónssyni, rak síðan teiknistofuna Stíl, ásamt Ragnari Lár og loks með Gunnari Kr. Jónassyni til 1982 er Guðmundur seldi honum sinn hlut í fyrirtækinu.

Guðmundur kenndi við Myndlistarskóla Akureyrar 1982-2000 og hefur síðan verið fastráðinn kennari við listnámsbraut VMA. Hann er nú að láta af störfum en mun verða lausráðinn kennari fram á vor.

Guðmundur sat í fyrstu stjórn Gilsins á Akureyri. Hann hefur haldið fjölda einkasýninga á Akureyri, Húsavík, í Reykjavík, Svíþjóð og Danmörku og tekið þátt í aragrúa samsýninga. Hann þáði starfslaun listamanna 1986 og 1991 og var bæjarlistamaður Akureyrar 1994.

Þegar listinni sleppir er Guðmundur ástríðufullur fluguhnýtari og flugveiðimaður.

Fjölskylda

Eiginkona Guðmundar er Hildur María Hansdóttir, f. 2.2. 1952, starfsmaður á Hlíð, dvalarheimili aldraðra á Akureyri. Hún er dóttir Hans Pedersen, búfræðings og ráðsmanns í Eyjafirði, og Rósu Rögnvaldsdóttur, húsfreyju og fiskvinnslukonu, sem bæði eru látin.

Börn Guðmundar og Hildar eru Elsa María, f. 23.10. 1973, listþerapisti á Skógarlundi á Akureyri en maður hennar er Allan Mc.Kay efnaverkfræðingur og á hún þrjú börn; Björn, f. 5.12. 1974, byggingaverkfræðingur í Reykjavík en kona hans er Kolbrún Hlöðversdóttir, starfsmaður hjá Reykjavíkurborg og á hann þrjú börn; Pétur Már, f. 13.7. 1976, starfsmaður hjá Bóksölu stúdenta, búsettur í Reykjavík en kona hans er Alda Rose Cartwright grafíklistakona og eiga þau eina dóttur; Ármann, f. 2.11. 1981, fornleifafræðingur í Reykjavík en kona hans er Hulda Ásgeirsdóttir mannfræðingur og eiga þau eina dóttur, og Þorbjörg, f. 9.12. 1982, nemi í bókmenntafræði við háskólann í Osló.

Systkini Guðmundar: Sigurrós Margrét, f. 1.10. 1934, d. 31.7. 2010, húsfreyja í Reykjavík; Erla, f. 3.4. 1936, húsfreyja og póstafgreiðslumaður í Hafnarfirði; Sigurbjörg, f. 19.6. 1937, húsfreyja í Reykjavík; Páll, f. 19.4. 1939, múrarameistari í Reykjavík; Jóhann, dó á fyrsta ári; Birna, f. 17.9. 1946, fyrrv. aðstoðarskólastjóri, búsett í Kópavogi; Jón Páll, f. 18.12. 1947, endurskoðandi í Kópavogi, og Sigurður, f. 9.9. 1950, offsetprentari í Kópavogi.

Foreldrar Guðmundar voru Sigurjón Björnsson, f. 9.6. 1908, d. 29.6. 2005, póststjóri í Kópavogi, og k.h., Þorbjörg Pálsdóttir, f. 1.1. 1915, d. 14.9. 1987, húsfreyja og starfsmaður við pósthúsið í Kópavogi.