Vigfús Sigurgeirsson, ljósmyndari og kvikmyndatökumaður, fæddist á Stóruvöllum í Bárðardal 6.1. 1900. Hann var sonur Sigurgeirs Jónssonar, bónda á Stóruvöllum, síðar organleikara og söngstjóra á Akureyri, og Júlíönu Friðriku Tómasdóttur húsfreyju.

Vigfús Sigurgeirsson, ljósmyndari og kvikmyndatökumaður, fæddist á Stóruvöllum í Bárðardal 6.1. 1900. Hann var sonur Sigurgeirs Jónssonar, bónda á Stóruvöllum, síðar organleikara og söngstjóra á Akureyri, og Júlíönu Friðriku Tómasdóttur húsfreyju.

Systkini Vigfúsar: Páll, kaupmaður á Akureyri; Gunnar, píanókennari í Reykjavík; Hermína, tónlistarkennari við Tónlistarskóla Reykjavíkur; Jón, skólastjóri Iðnskólans á Akureyri; Agnes sem lést á unglingsárum; Hörður, ljósmyndari í Vestmannaeyjum, Haraldur, skrifstofumaður hjá Akureyrarbæ, og Eðvarð, ljósmyndari og kvikmyndatökumaður á Akureyri, faðir Egils Eðvarðssonar kvikmyndatökumanns.

Fyrri kona Vigfúsar var Bertha Þórhallsdóttir sem lést 1932 en seinni kona hans var Valgerður Magnúsdóttir og eru börn þeirra Gunnar Geir ljósmyndari og Bertha húsfreyja.

Vigfús stundaði nám við Gagnfræðaskóla Akureyrar, sótti einkatíma í tungumálum og teikningu, lærði ljósmyndun hjá Hallgrími Einarssyni á Akureyri, kynnti sér nýjungar í ljósmyndun í Danmörku og Þýskalandi, sótti námskeið í litljósmyndun, var við tónlistarnám við Tónlistarskóla Akureyrar og stundaði framhaldsanám hjá Emil Thoroddsen og Páli Ísólfssyni og kynnti sér kvikmyndagerð í Þýskalandi.

Vigfús var ljósmyndari á Akureyri frá 1923, starfrækti eigin ljósmyndastofu þar 1927-36 og starfrækti síðan umsvifamikla ljósmyndastofu í Reykjavík. Hann var sérlegur ljósmyndari ráðuneyta og forseta Íslands frá upphafi. Hann tók kvikmyndir í öllum opinberum ferðum forsetanna Sveins Björnssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar, innanlands sem utan, gerði kvikmyndirnar Stofnun lýðveldis á Íslandi og Í jöklanna skjóli og kvikmyndir af atvinnuháttum Íslendinga og þjóðlífi frá 1937. Hann var auk þess píanóleikari og lék undir fyrir kóra og einsöngvara á Akureyri í mörg ár.

Vigfús lést 16.6. 1984.