8. janúar 2014 | Íþróttir | 503 orð | 2 myndir

Get bætt mig í varnarleiknum

• Elvar Már Friðriksson valinn besti leikmaðurinn í fyrri umferð Dominos-deildar karla • Takmarkið að ná heimavallarréttinum

Bestur Elvar Már Friðriksson er 19 ára og hefur leikið mjög vel með Njarðvík.
Bestur Elvar Már Friðriksson er 19 ára og hefur leikið mjög vel með Njarðvík. — Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
körfubolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.
körfubolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Njarðvíkingurinn ungi, Elvar Már Friðriksson, var útnefndur besti leikmaðurinn í Dominos-deild karla í körfuknattleik fyrir fyrri hluta mótsins en þrátt fyrir ungan aldur er Elvar í lykilhlutverki í Suðurnesjaliðinu og hefur spilað sérlega vel með því. Körfuknattleikssamband Íslands verðlaunaði í gær þá leikmenn sem þykja hafa staðið upp úr og kemur valið á Elvari Má ekki á óvart, en Kristinn Geir Friðriksson, körfuboltasérfræðingur Morgunblaðsins, valdi bakvörðinn unga besta leikmanninn í fyrri umferðinni.

„Ég veit ekki hvort ég átti von á að vera valinn bestur. Það hafa margir spilað vel en auðvitað er alltaf gaman að fá viðurkenningu,“ sagði Elvar Már, sem verður ekki tvítugur fyrr en í nóvember á þessu ári.

Þurfum að standa okkur betur gegn toppliðunum

Spurður hvort hann sé ekki sáttur við sína frammistöðu til þessa sagði Elvar: „Jú, jú. Mér hefur svo sem gengið vel í vetur en hvað liðið varðar hefði ég viljað að við stæðum okkur betur á móti toppliðunum. Við höfum tapað flestum leikjum á móti toppliðunum en við höfum seinni umferðina til að bæta það upp,“ sagði Elvar Már en Njarðvíkingar eru með 14 stig í deildinni og í 3.-4. sæti ásamt Grindvíkingum.

Í ellefu leikjum með Njarðvíkurliðinu er Elvar Már stigahæstur sinna manna en hann hefur skorað 24,7 stig að meðaltali í leik, átt 7,2 stoðsendingar og tekið 4,3 fráköst. Hvað varðar framlag að meðaltali í leik er hann með 25,8 stig.

„Nú er takmark okkar að reyna að ná heimavallarrétti í úrslitakeppninni í vor og svo eigum við í vændum stórleik á móti Grindavík í bikarnum. Markmiðið er að fara alla leið í bikarnum í ár,“ sagði Elvar.

Er eitthvað í þínum leik sem þér finnst þú geta bætt?

„Já, alveg örugglega. Ég get bætt mig helling í varnarleiknum og kannski stjórnað leiknum aðeins betur. Leikur okkar hefur á köflum verið villtur og við þurfum að laga það og það er talsvert í mínum höndum,“ sagði Elvar Már, sem á ekki langt að sækja hæfileikana, en karl faðir hans, Friðrik Ragnarsson, átti farsælan feril sem körfuknattleiksmaður og er margfaldur Íslandsmeistari með Njarðvíkurliðinu.

Fyrst háskóladeildin og síðan atvinnumennska

Ljóst er að þetta tímabil verður það síðasta hjá Elvari Má hér á landi í bili en hann hefur sem kunnugt er samið við bandaríska háskólann Long Island University og mun spila með liði skólans, sem spilar í næstefstu deild háskólaboltans.

„Ég er búinn að skrifa undir samninginn og planið er að vera þar í fjögur ár og eftir það er stefnan að reyna að komast út í atvinnumennsku. Með aukinni þjálfun hef ég öll tök á að bæta mig sem körfuboltamaður og með því að spila í bandarísku háskóladeildinni legg ég vonandi grunninn að því að komast í atvinnumennsku,“ sagði Elvar Már.

Dominos-deild
karla
» Úrvalsliðið er þannig skipað: Ragnar Nathanaelsson (Þór Þ.), Pavel Ermolinskij (KR), Michael Craion (Keflavík), Martin Hermannsson (KR), Elvar Már Friðriksson (Njarðvík).
» Besti leikmaðurinn: Elvar Már Friðriksson, Njarðvík
» Besti þjálfarinn: Finnur Freyr Stefánsson, KR
» Dugnaðarforkurinn: Darri Hilmarsson, KR
» Besti dómarinn: Sigmundur Már Herbertsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.