Þegar Göran Persson, leiðtogi sænskra jafnaðarmanna og forsætisráðherra í tíu ár, kom til Íslands strax eftir bankahrunið haustið 2008, gaf hann Íslendingum það ráð, sem Svíar höfðu fylgt í miklum erfiðleikum 1991-1992, að snúa bökum saman og vinna sig...

Þegar Göran Persson, leiðtogi sænskra jafnaðarmanna og forsætisráðherra í tíu ár, kom til Íslands strax eftir bankahrunið haustið 2008, gaf hann Íslendingum það ráð, sem Svíar höfðu fylgt í miklum erfiðleikum 1991-1992, að snúa bökum saman og vinna sig út úr vandanum, en kjósa á eðlilegum tíma. Farin var önnur leið á Íslandi. Ráðherrar voru fyrst leiddir fyrir fjöldafundi, en síðan grýttir á götum og torgum úti, jafnframt því sem grímuklæddir menn hófu umsátur um heimili þeirra, og er það ljót saga. Ríkisstjórnin var hrakin frá völdum og kosið í flýti.

Á einum fyrsta fjöldafundinum, í Háskólabíói 24. nóvember 2008, á Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, að hafa svarað fyrir sig: „Þið eruð ekki þjóðin!“ En hún sagði í raun og veru: „Ég skil, að ýmsir hér í salnum vilja okkur burt. En ég er ekki viss um, að þeir, sem eru í salnum, séu þess umkomnir að tala fyrir þjóðina.“ Bauluðu þá nokkrir fundarmenn á hana, en klöppuðu hraustlega fyrir Þorvaldi Gylfasyni prófessor, sem setti fram margvíslegar kröfur í nafni þjóðarinnar.

Gat Þorvaldur talað fyrir þjóðina? Annað kom á daginn. Í kosningunum 2013 bauð Þorvaldur sig fram, af því að ráðamenn hefðu ekki hlustað á hann og þá um leið á þjóðina. Framboð hans hlaut samtals 4.658 atkvæði eða 2,46% greiddra atkvæða. 97,54% þeirra, sem greiddu atkvæði, afþökkuðu leiðsögn Þorvaldar. Á aðra mælikvarða var hlutfallið, sem Þorvaldur fékk, enn lægra, 1,96% af öllum á kjörskrá vorið 2013 og 1,45% af öllum Íslendingum þá á lífi.

Morgunblaðið smíðaði eftir þingkosningarnar 1949 hugtakið „þjóðina á Þórsgötu eitt“, en þar á bæ var skrifstofa Sósíalistaflokksins, sem setti fram margar kröfur í nafni þjóðarinnar, þótt mikill meiri hluti Íslendinga hafnaði stefnu flokksins. Athugasemd Ingibjargar Sólrúnar á fundinum í Háskólabíói var sama eðlis. Þjóðin er ekki þúsund manna fundur fólks í geðshræringu. Þjóðin er miklu djúprættara og víðfeðmara hugtak en svo, að skrifstofufólk í Þórsgötu eða ræðumenn í Háskólabíói nái utan um það: Það skírskotar til þeirrar rösklega milljónar manna heildar, sem búið hefur á Íslandi í ellefu hundruð ár, hugsað, talað og skrifað á íslensku og átt sálufélag. Hugtakið vísar til varanlegra og viðurkenndra hagsmuna þessarar heildar á framfarabraut.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is