Einn af fastapennunum á blaði auðjöfursins (fyrrverandi?) Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Guðmundur Andri Thorsson, skrifar þar 6. janúar 2014 hugleiðingu um Íslandsklukkuna eftir Halldór Kiljan Laxness. Margt er þar vel sagt.

Einn af fastapennunum á blaði auðjöfursins (fyrrverandi?) Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Guðmundur Andri Thorsson, skrifar þar 6. janúar 2014 hugleiðingu um Íslandsklukkuna eftir Halldór Kiljan Laxness. Margt er þar vel sagt. En furðuleg er tilraun Guðmundar Andra til að særa Laxness upp úr gröf sinni og gera hann að liðsmanni sínum í nýliðinni kosningabaráttu. Guðmundur Andri segir, að íslensku þjóðinni hafi þá farist eins og Snæfríði Íslandssól og valið versta kostinn frekar en hinn næstbesta.

Þetta er fráleitt. Þau skötuhjú Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon voru ekki næstbesti kosturinn, heldur hinn versti. Í Íslandsklukkunni segir Arnæus við Jón Hreggviðsson, þegar hann fylgir honum til skips á Drageyri: „Þú getur sagt þeim frá mér að Ísland hafi ekki verið selt; ekki í þetta sinn.“ Í Icesave-málinu gerðu þau Jóhanna og Steingrímur tilraun til að selja Ísland, en þeim tókst það ekki, því að þjóðin tók af þeim ráðin. Þau gerðu samninga við Breta og Hollendinga um að leiða Íslendinga í skuldafangelsi áratugum saman, því að þau héldu væntanlega, að þá gætu þau sjálf og lið þeirra orðið fangelsisstjórarnir.

Í samningaþrefinu í Icesave-málinu hefðu íslenskir ráðamenn átt að hlusta á það, sem Arnæus segir við Úffelen: „Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast. Hann heldur því armslengd frá sér, herðir takið um kverkar þess sem má, en það deyr ekki; það horfir á hann; klær þess eru úti. Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þótt tröll komi með blíðskaparyfirbragði og segist skulu frelsa það. Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hallkvæmur og lini afl óvina þess.“ Betur verður þeirri stjórnlist, sem smáríki hljóta að temja sér, vart lýst.

Íslandsklukkan glymur ekki auðjöfrunum, sem höfðu hér öll völd árin 2004-2008, og því síður leigupennum þeirra. Hún glymur ekki heldur þeim Jóhönnu og Steingrími, sem síðan fengu völd í fjögur ár og ætluðu sér að greiða stórkostlegar skuldir, sem þjóðin hafði ekki stofnað til, vegna ímyndaðs stundarávinnings síns í innanlandsskærum. Hún glymur hins vegar íslenskri alþýðu, sem kom tvisvar í veg fyrir það í þjóðaratkvæðagreiðslum, að Ísland yrði selt.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is