Nú eru senn liðin fimm ár frá því, að lögleg ríkisstjórn landsins var hrakin frá með ofbeldi. Ekki var óeðlilegt, að almenningur mótmælti bankahruninu haustið 2008, enda vissi þá enginn, hvaðan á sig stóð veðrið, sem við sjáum nú skýrar en þá, að var fjárhagslegt fár, sem geisaði um heim allan og átti upptök sín annars staðar. En inn í raðir ráðvilltra borgara læddust óeirðaseggir, sumir grímuklæddir (og því ábyrgðarlausir). Þeir kveiktu elda fyrir framan Alþingishúsið, grýttu ráðamenn og sátu jafnvel um heimili þeirra. Ótrúlegt var líka að sjá, hvernig Hallgrímur Helgason rithöfundur réðst hamslaus af bræði á bíl Geirs Haardes forsætisráðherra við stjórnarráðið 21. janúar 2009 og reyndi að mölva í honum framrúðuna. Hann launaði ofeldi með ofbeldi (eins og skáldið Sigurður Pálsson orðaði það af öðru tilefni).
Mér var kennt í háskólanámi í heimspeki, að valið væri um tvær leiðir í mannlegum samskiptum, skynsemi eða ofbeldi. Háskólar ættu að vera virki skynseminnar. „Siðmenning er ekkert annað en tilraun til þess að koma ofbeldi niður í lágmark,“ sagði spænski heimspekingurinn José Ortega y Gasset. Ofbeldismenn eru vissulega til með öllum þjóðum og eflaust jafnmargir hlutfallslega á Íslandi og annars staðar. Einkennilegra var hitt, þegar nokkrir háskólamenn gengu í janúar 2009 til liðs við óeirðaseggi og ofbeldismenn og töluðu á fundum þeirra. Eins og Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðingur hefur sýnt skilmerkilega í bók um „Búsáhaldabyltinguna“, var tilgangur margra mótmælenda að reyna með ofbeldi að ónýta lýðræðislegar ákvarðanir. Það er umhugsunarefni, að mótmælunum lauk snögglega í janúarlok 2009, þegar ríkisstjórnin fór frá. Hvað sem því líður, stóðust sumir háskólamenn ekki prófið þessa dimmu vetrardaga fyrir fimm árum. Þá settust nokkrir rykfallnir skóladúxar á tossabekk tilverunnar.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is