„Það átti hug minn allan í tíu ár að bæta leshæfni íslenskra unglinga en svo lauk því starfi eins og svo mörgu í lífi manns. Ég gat ekki verið eilífur krossfari í að kenna fólki að lesa betur.“
„Það átti hug minn allan í tíu ár að bæta leshæfni íslenskra unglinga en svo lauk því starfi eins og svo mörgu í lífi manns. Ég gat ekki verið eilífur krossfari í að kenna fólki að lesa betur.“ — Morgunblaðið/RAX
Guðni Kolbeinsson, íslenskufræðingur og þýðandi, ræðir um lifandi fornbókmenntir, tungumálið, gagnlegar lestraraðferðir og vanlíðan unglinga sem hann kynntist í kennarastarfi. Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@mbl.is

Guðni Kolbeinsson íslenskufræðingur er ötull þýðandi alls kyns bóka, en þar eru barna- og unglingabækur afar áberandi. Hann er meðal annars þýðandi bókanna um Herramennina og Skúla skelfi sem yngsta kynslóðin hefur dálæti á og meðal unglingabóka sem hann hefur þýtt og njóta mikill vinsælda má nefna sögurnar um Nicolas Flamel, Eragon og fleiri. „Ég þýði alls kyns bækur fyrir alla aldurshópa, en það hefur þróast þannig að þar eru barna- og unglingabækur fyrirferðarmiklar,“ segir Guðni. „Mér finnst sérlega gaman að þýða þessar nútímalegu fornaldarsögur með drekum og töfrum og öðru slíku. Ég er vel lesinn í fornaldarsögum og framhaldsmenntun mín í íslensku var í fornbókmenntum þannig að það á vel við mig að þýða þessar bækur og smíða ný orð um vopn og tæki sem söguhetjurnar eiga eða rekast á.“

Lifandi Grettir

Varstu alinn upp við lestur á fornsögum?

„Ég er alinn upp í Laugardal í Árnessýslu í samfélagi þar sem Íslendingasögur og fornsögur voru mikið lesnar og fólk ræddi þær sín á milli. Talað var um Gretti eins og hann væri á meðal okkar og hann alltaf nefndur með fornafni. Hins vegar var Njáll alltaf kallaður Njáll á Bergþórshvoli og Gunnar hét Gunnar á Hlíðarenda. Eftir á held ég að þetta hafi verið til að aðgreina Njál úr sögunni frá Njáli á Böðmóðsstöðum og Hlíðarenda-Gunnar frá Gunnari á Reykjum, sem voru menn í sveitinni og næstu sveit.

Íslendingasagnaútgáfa nafna míns Jónssonar var til á heimilinu og ég las það verk ungur og hafði mest gaman af stuttum sögum aftast í bókunum sem mér þykja ekki mjög merkilegar núna. Þetta voru sögur sem íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn sömdu og plötuðu inn á danska fræðimenn sem héldu að þær væru stórmerkilegar. Fyrir barnið voru þessar sögur að því leyti skemmtilegar að þar var ekki verið með neinar málalengingar, það var byrjað að drepa fólk á blaðsíðu eitt og því var haldið skilmerkilega áfram söguna út í gegn. Þetta var ágætis lesning á einu kvöldi eða svo.“

Svo ákvaðstu að verða íslenskufræðingur og kennari. Lá það val beint við?

„Ég byrjaði að kenna nítján ára og hætti því sextíu og eins árs. Ég kenndi í gagnfræðaskóla og framhaldsskóla og vann um tíma á Stofnun Árna Magnússonar. Ég byrjaði að kenna strax eftir stúdentspróf og kenndi ein fjögur ár áður en ég fór í háskóla. Einhvern tíma á stúdentsárunum ætlaði ég að læra efnaverkfræði sem var tískugrein og var búinn að fá skólavist í Edinborg en ég átti enga peninga. Svo komst ég að þeirri niðurstöðu að þar sem maður yrði í vinnunni fjörutíu prósent af lífinu þá væri réttast að fást við eitthvað sem maður hefði áhuga á. Ég fór í þessa lítt peningavænu grein að læra íslensku.“

Vanlíðan unglinga

Nú er mikið talað um lestrarkunnáttu og þörfina á því að auka lestraráhuga ungmenna. Er eitthvað úr kennslureynslu þinni sem nýttist til að fá unglinga til að lesa?

„Árið 1984 þegar ég var kennari í Iðnskólanum hófumst við Fjölnir Ásbjörnsson, sem var sérkennari við skólann, handa við að halda lestrarnámskeið sem fólst í markvissri lestrarþjálfun. Við ákváðum að líta á lestur sem íþrótt eins og hann vissulega er. Markmiðið með þessu brölti okkar var að auka leshraða og bæta lesskilning. Þetta gekk miklu betur en við höfðum búist við. Í Iðnskólanum var trúlega heldur hærra hlutfall af fólki með lesblindu en annars staðar því þetta er fólkið með rýmisgreindina og það sækir í verknám. Við vorum með svipað kerfi og notað er þegar verið er að kenna hraðlestur. Það er akkúrat enginn vandi að fá ungmenni til að lesa miklu hraðar en þau hafa gert. Þessi aðferð hentar strákum mjög vel því þeir eru fyrir hraða. Á fyrri hluta námskeiðsins var áherslan á að auka leshraðann sem mest og í seinni hlutanum einbeittum við okkur að því að auka skilning fólks á því sem það var að lesa.

Leshraði hjá kennara, blaðamanni og skrifstofumanni, fólki sem þarf að lesa mikið, er á milli 300-500 orð á mínútu, sem er um blaðsíða á mínútu. Ef menn eru að lesa tyrfinn texta er hraðinn 100-150 orð á mínútu. Ef menn lesa aldrei hraðar en það verður lestur aldrei dægrastytting heldur bara puð. Það þarf að kippa fólki upp úr þessum hjólförum og samkvæmt reynslu okkar Fjölnis er það lítið mál. Fólk kom til okkar á námskeið og jók leshraða sinn úr 120 orðum í 400 og var þannig orðið bærilega læst. Það kom svo kannski aftur á námskeið ári síðar og þá las það kannski 300-320 orð sem er allt í lagi en enginn datt aftur ofan í það að lesa færri orð. Þetta skilaði því feikilega miklum og góðum árangri. Viðbrögðin voru líka oft skemmtileg. Dóttir kunningjakonu okkar hjóna, samviskusamur nemandi en seinlæs, þakkaði mér það að hún hefði fengið tíma til að eignast kærasta á menntaskólaárunum. En bestu meðmælin með þessu starfi okkar Fjölnis voru þó vísast þau þegar hringt var til hans frá Blindrabókasafninu og spurt hvort við í Iðnskólanum værum farin að banna nemendum okkar að fá lánaðar hljóðbækur þar; krakkarnir væru eiginlega hættir að koma þangað.

Sem reynslumikill kennari veit ég að þótt menn verði sneggri að lesa þarf það ekki að þýða að námsárangur verði betri. En allt þetta streð verður þægilegra og viðráðanlegra ef menn hafa góðan leshraða. Það átti hug minn allan í tíu ár að bæta leshæfni íslenskra unglinga en svo lauk því starfi eins og svo mörgu í lífi manns. Ég gat ekki verið eilífur krossfari í að kenna fólki að lesa betur.“

Var eitthvert tímabil í kennslu sem var þér erfitt?

„Mér gekk yfirleitt vel að eiga samskipti við nemendur. Undir lokin á starfsferlinum var tekið upp á því í Fjölbraut í Garðabæ að breyta reglum um veikindatilkynningar þannig að nemendur fengu ekki klárlega fjarvist fyrir fyrsta veikindadaginn, eins og áður, heldur var talið eðlilegt að einhver forföll og veikindi væru. Ég fékk það starf með kennslu að fylgjast með skólasókn og ef menn mættu slælega kom í minn hlut að tala við þá. Ég bjóst ekki við að verða vinsæll af því að kalla nemendur á minn fund ef þeir mættu illa en það fór öðruvísi en ég hélt. Að vísu var mikið logið að mér og búnar til ýmiss konar afsakanir fyrir slæmri mætingu sem er í sjálfu sér eðlilegt en ég varð líka einhvers konar sálgæslumaður. Nemendur leituðu til mín og ég komst að því, sem ég hafði ekki almennilega gert mér grein fyrir, að þegar unglingar mæta illa í skóla og standa sig ekki í námi þá er það oftar en ekki vegna þess að þeim líður illa, og þeim líður kannski mjög illa. Þarna kom til mín ungt fólk sem átti verulega bágt af mörgum ástæðum, það voru erfiðleikar heima og ungar stúlkur höfðu lent í hremmingum og kynferðislegum ásóknum. Það var miklu meiri vanlíðan þarna og þjáning en mér hafði dottið í hug. Konan mín segir að þarna hafi ég gengið næst sjálfum mér í starfi. Þau fallegu ungmenni sem við eigum í þessu landi eiga skilið meiri athygli hjá okkur þessum fullorðnu og meiri meðlíðan.“

Herra Daglegt mál

Þú varst um tíma umsjónarmaður afar vinsæls þáttar um daglegt mál í útvarpi. Þú hættir því starfi eftir að hafa beygt orðið lækur rangt í þættinum. Tókstu þessi mistök mjög nærri þér?

„Ég hafði verið að gera smávægileg mistök áður en þessi alræmdu komu til og þar sem ég vann á þessum tíma á Árnastofnun fékk ég alltaf að heyra það þegar ég gerði mistökin. Ég tók þessi mistök sem þú nefnir mjög inn á mig og ákvað að hætta en tók reyndar við þessum þætti aftur síðar. Þátturinn var síðan lagður niður og mér finnst að nýr útvarpsstjóri ætti að athuga hvort ekki væri hægt að endurvekja hann. Það hefur hins vegar orðið mikil breyting á þessum málum. Á þeim tíma sem ég vann við þáttinn var mikið fjallað um íslensku og mælt mál í fjölmiðlum og ef fjölmiðlamenn eða þýðendur gerðu einhverjar vitleysur þá var hringt og kvartað eða skrifað í blöðin. Þættirnir Daglegt mál voru afar vinsælir og það var mikið hringt í mig og þær hringingar voru af ýmsum toga, en oftast á jákvæðum nótum. Á þeim kvöldum sem þættirnir voru á dagskrá var ég oft á körfuboltaæfingum og þegar hringt var heim og herra Daglegt mál var ekki við þá var talað við frú Daglegt mál í staðinn. Ég fékk athygli vegna þessara þátta og við hjónin fórum sjaldan út að borða án þess að einhver þyrfti að spjalla við herra Daglegt mál. Það var yfirleitt skemmtilegt en líka stundum svolítið þreytandi.“

Það gera allir mistök. Brástu ekki of harkalega við með því að hætta sem umsjónarmaður þáttarins?

„Jú, ég gerði það líkast til. Ég var yngri og enn viðkvæmari en ég er núna.“

Ég hlýt að spyrja þig spurningar sem kemur alltaf upp öðru hvoru, er íslensk tunga í hættu?

„Ég er þeirrar skoðunar að áhyggjurnar af þessu séu of miklar en ekki óþarfar. Við erum soddan óhemjur við Íslendingar. Ef við ætlum að græða peninga þá ætlum við að græða milljarða og ef við þurfum að taka á málum þá er farin sú leið að að snúa þjóðfélaginu á hvolf. Það er mín skoðun að á meðan íslenska er töluð á Íslandi þá sé tungumálið ekki í hættu. Tungumálið verður hins vegar í alvarlegri hættu þegar farið verður að huga að því, eins og menn töluðu um í bólunni, að taka upp ensku sem fyrirtækjamál í landinu vegna hnattvæðingarinnar og alþjóðlegheitanna í fyrirtækjarekstri. Ef menn þurfa að tala eitt mál heima hjá sér og annað í vinnunni þá er orðin veruleg hætta á því að alþjóðlega málið taki yfir.

Það er eitt nokkuð skondið í sambandi við tungumál sem sýnir hvílíkar óhemjur við Íslendingar erum. Við erum gríðarlega stolt af Vestur-Íslendingum sem fóru héðan og sköpuðu sitt eigið samfélag í útlandinu góða og töluðu íslensku í jafnvel fjórar kynslóðir. Svo flytja útlendingar hingað til lands, búa jafnvel í sömu blokkinni mörg í hóp og tala sitt tungumál. Íslendingar tala iðulega um það með mikilli vanþóknun að þetta fólk neiti að samlagast þjóðfélaginu. En þetta er nákvæmlega það sama og Vestur-Íslendingar gerðu. Það er merkilegt að við skulum snúa þessum málum svona á haus.“