Þegar heyrist í þeim, sem töldu ekkert athugavert við hryðjuverkalögin, sem Bretar settu á okkur, og vildu síðar óðfúsir semja við Breta um að greiða hinar svokölluðu Icesave-kröfur, sem við höfðum ekki stofnað til, hlýtur ýmsum að detta í hug skilgreining bresks stjórnmálamanns, Benjamíns Disraelis forsætisráðherra, í ræðu í ráðhúsi Lundúna 1877 á þeim, sem hann kallaði „heimsborgaralega gagnrýnendur“, cosmopolitan critics: „Menn, sem eru vinveittir öllum löndum öðrum en sínu eigin.“
Með sumum fastapennum Fréttablaðsins og Eyjunnar er orðin lenska að hallmæla eigin þjóðerni og hæðast að ættjarðarást. Vissulega misnotuðu valdsmenn úti í Evópu orðið „ættjarðarást“ forðum til að siga milljónum saklausra ungmenna út á vígvellina. „Ættjarðarást er síðasta skjól skálksins,“ sagði dr. Samuel Johnson. Annar Breti, rithöfundurinn Richard Aldington, gerði hins vegar nauðsynlegan greinarmun: „Ættjarðarástin er sterk vitund um sameiginlega ábyrgð. Þjóðernisstefna er hjákátlegur hani að gala á eigin haug.“
Hér á Íslandi var ættjarðarást ekki misnotuð til að ginna fólk í stríð, heldur var hún notuð til að blása því í brjóst stolti af því að vera Íslendingar, sérstaklega í sjálfstæðisbaráttunni á nítjándu og tuttugustu öld. Fámenn þjóð þurfti á því að halda. En stoltið má ekki vera tilefnislaust. Ísland getur ekki lifað á fornri frægð einni saman, heldur þarf það að standa jafnfætis öðrum löndum um frelsi og efnalegar framfarir. Þetta vissi Jón Sigurðsson vel. „Ef maður á að elska land sitt, þá verður það líka að vera elskulegt,“ sagði breski stjórnspekingurinn Edmund Burke. Landið á að vera heimahöfn frekar en útkjálki, bjóða upp á næg tækifæri til að bæta kjörin. Ella flyst dugnaðarfólkið héðan til lífvænlegri landa og eftir sitja nöldurskjóðurnar og telja sultardropana úr nefinu. Og þá verður „íslensk ættjarðarást“ markleysa.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is