Bræðraborgarstígur 1 Atvinnuhúsnæði er á jarðhæðinni.
Bræðraborgarstígur 1 Atvinnuhúsnæði er á jarðhæðinni. — Morgunblaðið/Rósa Braga
Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur leggst gegn breyttri notkun á jarðhæð hússins Bræðraborgarstígs 1 úr verslun og leikskóla í gistiheimili, að því er segir í fundargerð frá 19. janúar.

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur leggst gegn breyttri notkun á jarðhæð hússins Bræðraborgarstígs 1 úr verslun og leikskóla í gistiheimili, að því er segir í fundargerð frá 19. janúar. Fulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og VG féllust ekki á breytta notkun jarðhæðarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði á móti afgreiðslunni.

Húsnæðið komst í fréttirnar í fyrrasumar í tengslum við umfjöllun um Leikskólann 101 sem var þar til húsa. Lögreglan hóf rannsókn á starfsemi skólans vegna meints harðræðis. Í framhaldi af því ákvað eigandinn að loka leikskólanum.

Heiðar Reynisson, eigandi húsnæðisins, kvaðst vera að finna því ný not eftir skyndileg starfslok leikskólans löngu áður en leigusamningi lauk. Hann vill innrétta litlar stúdíóíbúðir og leigja ferðamönnum yfir sumarið og námsfólki yfir veturinn.

„Þetta er atvinnuhúsnæði og hefur alltaf verið. Við erum að breyta um rekstur eftir að við leigðum það út fyrir leikskólann,“ sagði Heiðar. Hann kvaðst ekki skilja synjun meiri hluta umhverfis- og skipulagsráðs því þetta væri atvinnuhúsnæði. „Ég skil ekki hvernig þeir geta ráðið því hvaða rekstur ég er með í mínu atvinnuhúsnæði,“ sagði Heiðar. Hann taldi víst að beiðninni hefði verið hafnað fyrir mistök vegna þess að ekki hefði verið fjallað um málið á réttum forsendum.

Skipulagsfulltrúi segir í umsögn sinni að ekki sé mælt með því að breyta notkun hússins í gistiheimili og var erindinu svarað neikvætt á embættisafgreiðslufundi 3. janúar s.l. með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 20. desember 2013. Æskilegra væri að hlúa að íbúðabyggð og því hefði ekki verið mælt með því að breyta húsinu.

„Sá atvinnurekstur sem nú er verið að óska eftir er ekki í samræmi við stefnu í nýju aðalskipulagi 2010-2030.“ Mikilvægt sé að halda í verslunar-, þjónustu og atvinnuhúsnæði í íbúðahverfum miðborgarinnar. Æskilegt er að nærþjónusta verði á á jarðhæðinni, að mati skipulagsfulltrúa. gudni@mbl.is