21. febrúar 2014 | Minningargreinar | 3689 orð | 1 mynd

Ólafur Kr. Guðmundsson

Ólafur Kristófer Guðmundsson fæddist í Reykjavík 21. apríl 1960. Hann lést á heimili sínu 13. febrúar 2014.

Foreldrar hans voru Kristín Davíðsdóttir, f. 29.3. 1916, d. 7.4. 1972, og Guðmundur Pétur Ólafsson, f. 3.10. 1911, d. 23.7. 1979. Ólafur var yngstur fimm systkina: 1) Davíð Kristján, f. 20.12. 1938, d. 20.9. 2009. Eiginkona Geirlaug H. Hansen. 2) Björgólfur, f. 2.1. 1941, eiginkona hans er Þóra Hallgrímsson. 3) Sigríður, f. 28.9. 1945, eiginmaður hennar er Gylfi Hallgrímsson. 4) Björg, f. 1.10. 1949, eiginmaður hennar er Halldór Þorsteinsson.

Eftirlifandi eiginkona Ólafs er Guðný Helgadóttir, f. 2.3. 1963. Foreldrar Guðnýjar eru Guðlaug Einarsdóttir, f. 1939, og Helgi Guðnason, f. 1937. Börn Ólafs og Guðnýjar eru þrjú: Guðmundur Pétur, f. 10.5. 1985, sambýliskona hans er Bjarney Anna Bjarnadóttir, f. 1984, dóttir þeirra Emma Guðný, f. 2013. Rakel Ýr, f. 3.12. 1986, sambýlismaður hennar er Lloyd Hans McFetridge, f. 1980, sonur þeirra Hinrik Pétur, f. 2011. Yngst systkinanna er Helga Kristín, f. 10.1. 1994.

Að loknu grunnskólaprófi frá Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi hneigðist hugur Ólafs fljótlega til sjós. Hann útskrifaðist frá Stýrimannaskólanum árið 1983 og starfaði eftir það á millilandaskipum sem háseti og stýrimaður, fyrst hjá skipadeild Sambandsins og síðar hjá Hafskip. Hann hætti sjómennsku árið 1986 og sneri sér að verslunarstörfum. Fyrst hjá Nýjabæ/Hagkaupum Seltjarnarnesi. Árið 1988 réð hann sig sem sölumaður til heildverslunar Daníels Ólafssonar, Danól, sem síðar sameinaðist Ölgerðinni þar sem hann starfaði síðastliðin 26 ár, síðast sem meðeigandi og einn af framkvæmdastjórum félagsins.

Útför Ólafs fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 21. febrúar 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Nú andar um byggðina blæmjúkur þeyr

og blessar hvern syrgjandi hug.

Lognaldan þögul í djúpinu deyr

dagsönnin víkur á bug.

Sem társtokkin brá yfir vorgrænan völl

sig vefur nú dagperlu glit.

Við syrgjum, því horfin er ævi þín öll

eins og andvarp – með hljóðlátum þyt.

Því verður byggðin svo brosvana og hljóð

er berst henni helfregnin þín?

Á hún ekki margþættan minningaóð

sem í moldvirði hversdagsins skín?

En þó við þekktum hér tállausa trú,

þá tregandi minnumst við hins,

að hver eins er stendur að starfi sem þú

er styrkur hins íslenska kyns.

Á verðinum aldrei þinn vorhugur svaf,

svo vaki þín minningin hlý.

Allt þetta fagra, sem gæfan þér gaf,

það grói og blómgist á ný.

Það vaxi af eðlis þíns ótæmda auð

við anda þíns vermandi sól.

Þá fær enginn steina, sem biður um brauð

þá býðst hverju smáblómi skjól.

(ÞM)

Ég man þegar ég bar hann á háhesti milli húsa á Framnesveginum. Ég man sorgina í augum hans þegar mamma kom ekki heim af spítalanum. Ég man gleðina þegar hann gat fyrst hjólað óstuddur. Ég man hvað hann var mannvænlegur þegar hann dvaldi hjá okkur sumarlangt við vinnu í Svíþjóð og hvað ég var montinn þegar vinnuveitandinn hældi honum á hvert reipi.

Ég man þegar hann útskrifaðist úr Sjómannaskólanum og hvað framtíðin var björt. Ég man þegar hann kom með konuefnið sitt í heimsókn til okkar og hvað hann var ástfanginn. Ég man hvað fjölskyldan var honum mikils virði. Ég man öll jólin sem fjölskyldur okkar áttu saman og öll ferðalögin. Ég man að börnin okkar kölluðu hann alltaf Óla bróður. Ég man hvað hann var stoltur þegar Emma Guðný var skírð fyrir hálfum mánuði. Ég man, ég man

Ég veit að hann hringir ekki oftar dyrabjöllunni með látum og kallar: „Hvað, á ekki að opna, eru allir sofandi?“

Orð verða svo fátækleg þegar söknuðurinn er sár.

Við Björg eigum mikið að þakka og margs að minnast. Góður drengur er genginn, blessuð sé minning hans. Elsku Guðný og börnin öll. Guð styðji ykkur og styrki.

Björg systir og Halldór.

Elsku Óli minn.

Nú ertu farinn frá okkur, þú sem varst mér sem bróðir. Allt í einu ert þú horfinn. Það er óskiljanlegt og sárara en orð fá lýst.

Ég man alltaf hvernig allt breyttist hjá okkur eftir að pabbi þinn féll frá þegar þú varst aðeins 18 ára. Þá fluttir þú heim til okkar og ég, sem var örverpið í mínum systkinahóp og einn eftir í hreiðrinu, fékk félaga sem átti eftir að verða mér ákaflega tengdur og kær. Ég var tólf ára og að hefja mína vegferð sem unglingur. Það var kærkomið að fá ungling inn á heimilið sem var líka örverpið í sínum hópi. Við áttum báðir 4 systkini miklu eldri en við, tvo elstu bræður og tvær eldri systur. Við vorum af sömu kynslóð og með sömu viðhorf og áhuga.Við urðum eins og bræður og höfðum mikið gagn og gaman hvor af öðrum á þessum mótunarárum.

Við fluttum þrisvar næstu árin, í hvert skipti í stærra og betra hús, en alltaf hlið við hlið í herbergi – öll mín táningsár. Eins og bræður skiptumst við á fötum og plötum – með eða án leyfis hvor annars. Þú varst reddarinn minn sem hjálpaðir mér í æskuævintýrum og við skiptumst endalaust á sögum úr skemmtana- og tilhugalífinu. Partístandið á okkur var mikið þarna og við vorum báðir hluti af nánum vinahópum. Bræðralag okkar var náið og í raun einstakt.

Við ferðuðumst líka mikið saman, t.d. til Frakklands þar sem ég tel að þú hafir bjargað lífi mínu og þú minntir mig oft á brosandi. Svo sigldum við saman á kaupskipi til Danmerkur í minni fyrstu sjóferð yfir Atlantshafið og þú kenndir mér á lífið um borð, sem nýttist mér líka seinna þegar ég for að vinna á skipum eins og þú. Þá varstu líka að fylgjast með úr fjarska.

Við kynntumst Guðnýju á sama tíma og ég tók fljótlega eftir því að einhver neisti var milli ykkar sem gæti breytt öllu. Hún var yndislegur sólargeisli, það birti yfir heimilinu okkar og þú heillaðist algerlega. Ekki varð aftur snúið. Hennar einstaka bros og blíða fas urðu þín gæfa upp frá því. Þið urðuð brátt óaðskiljanleg og hófuð búskap. Þá var ég orðinn einn í hreiðrinu aftur í stutta stund áður en ég flutti út í heim þar sem ég hef verið síðan.

Óli minn, þessi ár eru mér ógleymanleg og kær. Þú varst alltaf svo litríkur og fyndinn, með gríðarlega stórt hjarta. Þú sást húmorinn í flestu og mikið gátum við hlegið, grínast og strítt fólki saman. En þú þurftir líka að takast á við stór áföll í lífi þínu og komst heill og betri í gegnum þau, það geta ekki allir. Ég var og er alltaf ákaflega stoltur af því hvað þú komst sterkari og betri maður úr öllum hremmingum. Þó þú hafir alltaf verið minnstur hjá þínum systkinum þá áttir þú mig sem „litla bróður“. Þú varst stoð mín og stytta í svo mörgu flóknu stússi allt frá því að ég var barn og unglingur og loks ungur maður. Það er líka ómetanlegt hversu mjög börnin okkar hafa tengst og við fengum nýja vídd í samband okkar í gegnum þau.

Bless, elsku frændi, bróðir og vinur – þvílíkur heiður og lukka að fá að eyða þessum tíma á jörðinni með jafn skemmtilegum og yndislegum karakter og þér. Takk fyrir allt.

Björgólfur Thor

Björgólfsson.

Í dag kveðjum við elskulegan tengdason okkar, Óla, langt um aldur fram, það er erfitt að trúa því, þú sem varst svo hress og kátur fram á síðasta dag. Þér er eflaust ætlað eitthvað sérstakt á æðri stað en alltaf eigum við góðu minningarnar að ylja okkur við.

Kveðjan er hljóðlát og harmi þrungin,

en huggun er okkur það

að góður drengur með göfugt hjarta

grær nú á æðri stað.

Þar munu kostirnir skærir skarta,

sem skaparinn honum gaf.

Við kveðjum þig öll með kærleik í huga,

kveðjum með ástúð og þrá.

Að aftur megum við endurfinnast,

þar sem engan skugga má sjá.

Við þökkum þér allt, en margs er að minnast,

sem minnir þig horfinn á.

(Ragnar S. Helgason)

Elsku Guðný, Guðmundur, Rakel, Helga Kristín, tengdabörn og barnabörn, megi góður Guð styðja ykkur og styrkja á þessum erfiðu tímum. Blessuð sé minning þín, elsku Óli, þín verður sárt saknað, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Guðlaug og Helgi.

Hann Óli frændi er fallinn frá. Hvernig má það vera að maður á besta aldri sem einskis meins hafði kennt sér er tekinn frá okkur af þessari storð svo sviplega? Slíkt er með engu móti hægt að skilja. En lífsneistinn er að láni fenginn og bærist með okkur án þess að við ráðum því fyllilega hversu lengi hann hvetur straum um æðar okkar. Öllu er afmörkuð stund.

Óli var tíu árum eldri en ég. Móðir hans og amma mín voru systur. Við hittumst á mínum yngri árum á ættarmótum og á ungdómsárum lágu leiðir okkar saman á stundum. Það var svo árið 1997 að við nokkrir frændurnir í „stórfjölskyldunni“ tókum okkur saman og fórum að hittast einu sinni í mánuði í hádeginu og snæddum kótelettur. Það var á þeim vettvangi sem ég kynntist Óla enn betur.

Óli var yndislegur maður. Hann var alltaf svo léttur í lund og leikandi. Kvikur í huga og fljótur til svars. Samskipti hann við náfrændur sína og „uppeldisbræður“ við kótelettuborðið var sérstaklega gaman að upplifa. Hvernig hann á jákvæðan og kærleiksríkan hátt eggjaði menn til samskipta og lagði jafnframt sitt af mörkum með lausnamiðaðri hugsun. Óli var ávallt tilbúinn til að aðstoða aðra, bóngóður og gjafmildur. Hann stóð með sínu fólki, var umburðarlyndur gagnvart lífinu, hjartahreinn og einlægur. Hann lifði og leyfði öðrum að lifa. Í honum bjó það göfugasta meðal manna; þjónandi andi.

Á þessum tæpu tveimur áratugum sem hádegisboðið hefur staðið minnist ég sérstaklega tveggja ferða okkar á ættarslóðir þar sem Óli var með í för. Hann gerði þær ferðir eftirminnilegar í mínum huga með anda sínum sem allt umlék af smitandi glaðværð. Hann sló í og úr í kerskni sinni og var ákaflega skemmtilegur. Ferð okkar í Kollsvík sumarið 2007 er eftirminnileg en í mínum huga stendur minningin um Óla í ferð okkar á slóðir Sigríðar Jónsdóttur, formóður okkar, í Þingeyjarsýslur og Eyjafjörð í fyrra upp úr. Á hvörmum kvikna tár er ég nú horfi á kvikar myndir af Óla útskýra brosandi ættarsvipinn út frá ljósmynd af Guðmundi Bjarnasyni, presti í Nesi í Aðaldal, langalangafa Óla.

Um leið og ég votta Guðnýju, börnunum og fjölskyldu samúð mína vil ég fyrir hönd kótelettuklúbbsins þakka Óla fyrir að lita líf okkar gleði og kærleik.

Þitt glaðlynda eðli, þín gefandi hönd

gladdi mörg hjörtun, skóp vináttubönd.

Nú böndin ei bresta þó upp fari önd

og berist svo tær yfir frelsarans lönd.

Við kveðjum í sorg en minningin skýr

skín ljóst sem viti er leið okkur stýr.

Þinn einlægi hugur svo gefandi og hlýr

í hjarta okkar lifir og að eilífu býr.

(HU)

Far í friði frændi.

Héðinn Unnsteinsson.

Allir menn reyna gleði og sorgir á lífsleiðinni. Við bregðumst misjafnlega við en sorgin er sár þegar okkur berast fréttir af ótímabærum missi.

Elsku Óli frændi er farinn, bráðkvaddur langt um aldur fram. Við systkinin eigum hvert og eitt minningar sem tengjast lífi okkar og hann á sinn sérstaka stað í hjörtum okkar allra. Við viljum minnast hans sameiginlega. Í fjölskyldu okkar var hann alltaf kallaður Óli bróðir.

Óli var yngstur systkina í stórri fjölskyldu og móðurbróðir okkar, tíður gestur á heimilinu og hluti af lífi okkar. Hann var gull af manni sem ávallt gerði sér ferð til að heimsækja og forvitnast um hagi okkar eða til að tuða góðlátlega. Oft heyrðum við mömmu og Óla ræða saman í símanum eða sitja inni í eldhúsi að ræða málin. Hann var mikill fjölskyldumaður og duglegur að sinna stórfjölskyldunni. Hann passaði vel upp á sitt fólk og kenndi okkur hvað fjölskylda og ættrækni er mikils virði. Fyrir það erum við ævinlega þakklát.

Við erum þakklát fyrir allar minningarnar sem við eigum með Óla og fjölskyldu hans. Við minnumst allra jólanna sem við áttum saman og nú kunnum við loks að meta hina árlegu ljósmynd við jólatréð. Minningarnar um ferðalögin sem fjölskyldurnar fóru í munu ætíð fylgja okkur ásamt öllum dýrmætu tímamótunum sem við upplifðum saman.

Ekki má heldur gleyma þessum litlu hlutum. Enginn hringdi bjöllunni með eins miklum hamagangi og Óli. Það fór ekki á milli mála þegar hann var mættur í Engjaselið. Við vorum alltaf svo ánægð með útrunna nammið, kexið, snakkið og allar nýju vörutegundirnar sem við fengum að smakka. Það var tilbreyting frá sænsku, sykurlausu uppeldi foreldra okkar. Hugur okkar mun alltaf vera hjá Óla þegar við heyrum í Kim Larsen enda leiddist honum ekki að spila Kim og taka létta sveiflu með.

Við sitjum hér saman systkinin og festum þessi orð á blað, rifjum upp og hugsum hlýlega til manns sem gaf okkur svo mikið. Sögurnar eru óteljandi. Allar eiga það sameiginlegt að minningarnar eru góðar og ylja okkur um hjartarætur um ókomna tíð.

Við munum hugsa um Guðnýju og börnin eins vel og þú hugsaðir um okkur. Við munum hugsa um systur þínar og bróður eins vel og þú hugsaðir um okkur. Við ætlum okkur að heiðra minningu þína á þann hátt sem þú kenndir okkur, með því að setja ávallt fjölskylduna og velferð hennar í fyrsta sæti.

Guð blessi minningu þína, elsku Óli bróðir.

Elsku Guðný, Gummi, Rakel og Helga Kristín, megi góður Guð styrkja ykkur og styðja.

Sturlaugur, Davíð, Jófríður, Kristín og Margrét.

Óli föðurbróðir okkar var hress og skemmtilegur, mikill keppnismaður og tók vel á því sem hann tók sér fyrir hendur. Móðir hans veiktist mjög alvarlega þegar hann var rétt að verða sjö ára og var á spítala þar til hún lést fimm árum síðar. Kannski varð það til þess að Óli átti auðvelt með að skilja sorgir annarra, ekki síst eftir að hann missti líka föður sinn 19 ára gamall; var hjartahlýr og raungóður þegar eitthvað bjátaði á. Stórfjölskyldan bjó þétt á Framnesveginum á þessum árum og studdi við bakið á þeim feðgum.

Óli var okkur systkinunum sem bróðir enda við öll á svipuðu reki og samgangur mikill á þessum árum. Óli og Guðjón bróðir fermdust saman, tóku þátt í skátunum með Gumma bróður, hestuðust og mótorhjóluðust öll táningsárin í bland við útihátíðir og silungsveiði við Elliðavatn og sumarvinnu sem varð skrautlegust í skjóli Göggu frænku, systur Óla þegar þeir unnu við kirkjugarðana í Stokkhólmi og héldu upp á vel unnin störf með gleðivikum í Kaupmannahöfn á eftir, að hætti Gumma bróður árið áður. Þegar þeir Guðjón og Óli urðu tvítugir var Óli orðinn svo vel stæður af sjómennskunni að hann bauð Guðjóni í eftirminnilega skemmtiferð með Eddunni til Newcastle. Óli var umhyggjusamur og færði oft alls kyns varning heim úr siglingunum og deildi með okkur. Þegar hann var 27 ára áttaði hann sig á að hann átti ekki samleið með áfengi og helgaði sig eftir það farsælu fjölskyldulífi í landi, samviskusamur og traustur starfsmaður á sama vinnustað í 26 ár. Hann lagði líka mikið af mörkum í AA-samtökunum og hjálpaði mörgum þar til hinsta dags.

Við eigum margar og góðar bernskuminningar úr veiðiferðum með afa og Óla á Þingvöllum og í Hvítá þar sem við lærðum að veiða, eða að minnsta kosti að kasta, frá kartöflurækt fjölskyldunnar í sumarbústaðnum við Hólmsá og frá samverustundum um jól og páska. Félagslíf okkar var alltaf fjörugt og fjölbreytt. Við fórum saman í fótboltaferðir til London, útilegur innanlans sem utan, hittumst í 15 ár í Kótilettuklúbbnum á Kringlukránni, vorum með æskuvinum af Seltjarnarnesinu í matarfélagi árum saman, borðuðum fjölskyldusúpu og misstum að sjálfsögðu helst aldrei af KR-leik ótilneydd – þó að Óli hafi verið með börnin sín í öðru liði. Síðast í sumar fórum við bræðurnir og fleiri frændur með Óla í Hofsá í Vopnafirði. Það reyndist öllum að óvörum okkar síðasta ferðalag saman, frábærar sumarstundir og ógleymanlegar.

Óli var fjölskyldumaður mikill og vinur vina sinna. Það er stórt skarð hoggið í fjölskylduna og vinahópinn við fráfall hans.Við þessi óvæntu leiðarlok er okkur efst í huga þakklæti fyrir æskuárin á Nesinu og allar góðu stundirnar sem við höfum átt með Óla og fjölskyldu hans.

Minning hans lifi.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum.)

Guðmundur, Guðjón, Kristín og Úlfar.

Elskulegur Óli, Óli frændi, Óli bróðir, Óli vinur og allt það sem þú varst.

Stríðni strákurinn sem ég kynntist á fyrsta „deitinu“ okkar Gumma míns, Óli þá bara 18 ára unglingur. Ég var svo yfir mig hrifin af Gumma, en einhverra hluta vegna ákvað hann að taka Óla frænda með á fyrsta deitið. Við skemmtum okkur konunglega þetta kvöld, enduðum svo í rólegheitum heima hjá mér þar sem ég leigði í Þingholtsstræti. Þeir voru samstiga frændurnir og hefur Gumma augsýnilega litist vel á stúlkuna, því að allt í einu hvarf Óli, hann fór að kaupa „kjamma og kók niðri á Umfó“, það var skýringin sem ég fékk, hann kom ekki til baka það kvöld.

Við tóku fjölskylduár hjá okkur Gumma, en Óli var ungur og við tóku djamm- og skólaár hjá honum. Einn daginn kynntist hann undurfagurri ungri konu frá Vestmannaeyjum, henni Guðnýju sinni. Þau hófu fallegan samstiga dans, sem þau hafa stigið feillaust síðan. Þessi lífsdans þeirra hefur borið ríkulegan ávöxt, og við tóku tiplandi barnsspor í sérstaklega vel gerðum, myndarlegum og heilbrigðum börnum þeirra, Guðmundi Pétri, Rakel Ýr og Helgu Kristínu. Þau bera foreldrum sínum fagurt vitni, og ekki skyggði á gleðina þegar afstrákurinn Hinrik Pétur fæddist og síðan litla ömmustelpan Emma Guðný og góð tengdabörn komu til sögunnar. Þvílík gæfa og blessun, Óli var ríkur maður.

En eins og kvöldið forðum í Þingholtsstrætinu kemur Óli ekki til baka, ekki í þetta sinn, og með trega kveð ég þig, elsku Óli, mikið óskaplega á ég eftir að sakna þín.

Megi Guð blessa sporin þín og allt þitt fólk.

Kristjana Ólafsdóttir.

Það var mér mikið áfall að fá fréttirnar að þú, Óli, værir fallinn frá. Framundan voru spennandi tímar hjá mér í nýju verkefni sem ég ætlaði að takast á við í náinni samvinnu við þig. Ég hafði allan fimmtudaginn verið að vinna að hugmyndum sem ég hlakkaði til að sýna þér á fundi sem við áttum að eiga á föstudeginum þegar símtalið kom frá Pétri um kvöldið, og heimurinn hrundi. Sorgin er mikil og Ölgerðin verður aldrei söm án þín. Þú hreifst fólk með þér og við fylgdum þér og trúðum á þig.

Það var frábært að vinna með þér í einu orði sagt. Stundum vorum við ósammála en þó alltaf sammála um að finna lausnir saman á þeim verkefnum sem við unnum. Ég á eftir að sakna visku þinnar og æðruleysis. Setningar eins og „segðu mér eitt ungfrú góð“ eða þegar þú hringdir í borðsímann minn í vinnunni og þóttist yfirleitt vera einhver annar en þú varst.

Þú hafðir óbilandi áhuga á fólki og varst sá forvitnasti maður sem ég hef kynnst. En þegar kom að því að segja frá sjálfum þér varstu sem lokuð bók. Þú varst mikill fjölskyldumaður, ákaflega stoltur af fjölskyldu þinni og gaman að sjá hvað þið voruð náin. Ég tel mig lánsama að hafa kynnst Gumma, Rakel og Guðnýju og það var gaman að heyra hversu stoltur þú varst af henni Helgu þinni.

Við fórum oft saman í storecheck og ræddum um heima og geima. Oft barst talið að heilsunni sem þú hafðir mikinn áhuga á, nýjustu straumum í hvað væri hollt og hvernig hreyfingu væri best að stunda. Það var svo gott að tala við þig og ég man ég sagði þér að þú hefðir einstakan hæfileika í að fá stóran hóp til að brosa og líða vel og láta óþægilegustu aðstæður verða bara bærilegar. Það eru fáir sem geta það sem þú gast. Oft þurfti ég að hitta erlenda birgja sem gat tekið á, en ég vissi alltaf að það yrði lítið mál um leið og þú værir með mér, þá var alltaf allt svo létt og skemmtilegt.

Ég reyni núna að horfa á það sem forréttindi að hafa kynnst þér og átt þig sem náinn vinnufélaga og vin til sjö ára. Ég á mjög erfitt með ímynda mér vinnuna í Ölgerðinni án þín, en ég veit að við þurfum öll að vera sterk og halda áfram, þú hefðir viljað það sjálfur, aldrei að gefast upp.

Elsku Guðný, Gummi, Rakel og Helga, hugur minn er allur hjá ykkur og megi Guð gefa ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Elsku Óli, takk fyrir allar skemmtilegu stundirnar, allan hláturinn, heimspekilegu umræðurnar og stuðninginn. Minning þín mun lifa að eilífu.

Dagný Kristjánsdóttir, vinnufélagi og vinur.

Flestir sem eiga góðan vin vita hversu dýrmætt það er, ég var einn af þessum heppnu því ég fékk að kynnast Óla Gúmm eins og hann var svo oft kallaður. Stuðningurinn sem ég fékk frá Óla var ekki bara tengdur vinnu heldur gat ég líka leitað til hans með mín persónulegu mál. Ég þurfti að taka stóra og mikla ákvörðun fyrir nokkrum árum og ég var aldrei í vafa hvert ég þurfti að leita eftir stuðningi og góðum orðum. Hann kallaði oft „Geir, er það bolli“ og við áttum einlæg samtöl um allt og ekki neitt en yfirleitt voru þau á léttu nótunum enda var alltaf stutt í grínið hjá honum og þessi samtöl okkar eru mér því ómetanleg í dag.

Óli var hjartahlýr og ekki þarf að fjölyrða um hversu metnaðarfullur og hörkuduglegur hann var, það sáu allir fljótt sem voru í kringum hann. Honum fannst fátt skemmtilegra en að fara út á markaðinn, þ.e.a.s. kíkja í búðirnar og spjalla við viðskiptavini og þá fór hinn helmingurinn yfirleitt með og þá á ég auðvitað við hann Jóa enda voru þeir sem eitt, miklir vinir, og þegar var verið að spyrja um þá voru þeir alltaf nefndir í sömu setningu, hvar eru Óli og Jói eða Gøg og Gokke. Hann var hrikalega forvitinn maður, en samt skemmtilega forvitinn og þegar það var verið að ræða eitthvað í kringum hann sem hann kannski heyrði ekki nógu vel eða var eitthvað utan við sig komu þessi frægu Óla-hljóð. „Haaaaaaaa“, hljómar eins og það er skrifað. Það að kveðja góðan vin og frábæran yfirmann er því erfitt og sárt, missirinn er mikill. Að horfa á eftir Óla labba niður tröppurnar í Ölgerðinni á leið heim er ofarlega í huga mér þessa dagana því þetta var í síðasta sinn sem ég sá vin minn Óla.

Elsku Guðný, Gummi, Rakel og Helga, megi Guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Vel sé þér, vinur,

þótt vikirðu skjótt

Frónbúum frá

í fegri heima.

Ljós var leið þín

og lífsfögnuður;

æðra eilífan

þú öðlast nú.

(Jónas Hallgrímsson)

Geir Leó Guðmundsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.