Þegar ég vann að rannsóknum á ævi Halldórs Kiljans Laxness, rakst ég í Þjóðarbókhlöðunni á rit, sem gefið hafði verið út um rithöfundamót í Góðviðru (Buenos Aires) 1936, en Laxness var einn gesturinn og skrifaði síðar margt um mótið. Mér til nokkurrar furðu reyndist ritið óuppskorið! Hinir miklu Laxnessfræðingar, sem gengu um götur og gerðu sig digra, höfðu ekki haft fyrir því að líta í það. Þegar ég ætlaði nýlega að fá lánaðar á Þjóðarbókhlöðunni endurminningar Alistairs Darlings, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta, sem var einn mesti örlagavaldurinn um bankahrunið, voru þær ekki til þar, og varð safnið að panta þær handa mér í millisafnaláni. Enn varð ég hissa. Hafði enginn hinna fjölmörgu sjálfskipuðu hrunfræðinga, sem eru svo tíðir gestir í sjónvarpi, áhuga á þessari hlið málsins?
Hvað sem því líður, eru endurminningar Darlings fróðlegar um margt, smátt og stórt. Hann segir til dæmis frá því að hann hafi farið á fund fjármálaráðherra Evrópusambandsins í Lúxemborg þriðjudaginn 7. október 2008. Venjulega hafi hann ekki leigt sér einkavél til að fara á slíka fundi, en í þetta skipti hafi hann neyðst til þess vegna tímaskorts. Darling bætir við þeirri athugasemd, að á alþjóðlegum ráðstefnum hafi hann oft veitt athygli hinum mörgu einkaþotum á flugvöllum og tekið eftir því, að þær hafi venjulega verið því stærri sem heimalöndin hafi verið minni. Síðan segir hann (bls. 152): „Þegar við renndum niður til lendingar, benti Geoffrey Spence, sérstakur ráðgjafi minn, mér á tvær íslenskar risaþotur [jumbo jets], sem stóðu við lendingarbrautina. Við ókum fram hjá þeim í vél okkar, sem var á stærð við Spitfire-vél.“
En enginn fulltrúi Íslands var á þessum fjármálaráðherrafundi Evrópusambandsins, og þessar tvær risaþotur (Boeing 747) voru ekki notaðar af íslenskum kaupsýslumönnum eða stjórnmálamönnum. Þetta voru bersýnilega vélar Air Atlanta, sem önnuðust vöruflutninga um Lúxemborg, en þær voru jafnan vandlega merktar Íslandi. Air Atlanta hafði notað slíkar risaþotur allt frá 1993. Þær komu hvorki útþenslu bankanna né hruni hætishót við.
Áróðursbrella Darlings, þegar hann ber í endurminningum sínum saman vélarskjátu breska fjármálaráðherrans og risaþotur Íslendinga í því skyni að vekja lesandanum hugboð um hroka og oflæti hinnar fámennu grannþjóðar Breta, missir því marks.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is