Verkamannaflokkurinn breski komst í ríkisstjórn 1964 eftir fjórtán ára hlé. Pundið var hins vegar veikt og féll í verði. Forystumenn flokksins brugðu þá á gamalkunnugt ráð og kenndu bröskurum um.

Verkamannaflokkurinn breski komst í ríkisstjórn 1964 eftir fjórtán ára hlé. Pundið var hins vegar veikt og féll í verði. Forystumenn flokksins brugðu þá á gamalkunnugt ráð og kenndu bröskurum um. George Brown, sem þá var ráðherra, sagði: „The Gnomes of Zürich are at work again.“ Orðið „Gnome“ er upprunnið í latínu og notað um dverga eða álfa, sem búa neðanjarðar og luma á gulli. Orð Georges Browns mætti því þýða: „Jarðálfarnir í Zürich eru enn að.“

Í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu 2008 neitaði bandaríski seðlabankinn hinum íslenska um gjaldeyrisskiptasamning (sem var í raun leyfi til að prenta Bandaríkjadal), en gerði mjög háa slíka samninga við svissneska seðlabankann, um samtals 466 milljarða dala (aldrei þó svo mikið í einu). Þessi fyrirgreiðsla veitti svissneska seðlabankanum möguleika á að bjarga UBS og öðrum svissneskum bönkum frá falli.

Í því ljósi má rifja upp nokkur afrek „jarðálfanna í Zürich“. Snemma árs 1997 kom næturvörður í bækistöðvum UBS í Zürich, Christoph Meili, að starfsfólki þar í óðaönn við að eyða skjölum í vörslu bankans um hlutabréf og fasteignir í eigu gyðinga í Hitlers-Þýskalandi. Næturvörðurinn lét samtök gyðinga vita af þessu. Þau höfðuðu mál gegn UBS og öðrum svissneskum banka, Credit Suisse, sem sömdu eftir eins árs þóf um að greiða samtökum Gyðinga 1,25 milljarða dala í bætur.

Í febrúar 2008 var ljóstrað upp um aðstoð UBS við að skjóta fé auðugra Bandaríkjamanna ólöglega undan. Einn bankamaðurinn, Bradley Birkenfeld, smyglaði til dæmis demöntum á milli landa í tannkremstúbum. UBS greiddi 780 milljónir Bandaríkjadala í sekt. Mörg önnur hneyksli mætti nefna, meðal annars í Bretlandi, en stærst þótti, þegar UBS var sektað í árslok 2012 í Bandaríkjunum um 1,5 milljarða dala fyrir að taka þátt í að hagræða vöxtum á millibankamarkaði í Lundúnum, svokölluðum LIBOR.

Með aðstoð bandaríska seðlabankans björguðu svissnesk stjórnvöld UBS frá falli haustið 2008, en Landsbankinn var ekki aðeins látinn falla, heldur settur á opinberan lista breska fjármálaráðuneytisins yfir hryðjuverkasamtök! Voru bresk og bandarísk stjórnvöld með þessu að þakka Íslendingum stuðninginn í heimsstyrjöldinni síðari og í kalda stríðinu, þegar Sviss var hlutlaust? Eða skiptir ekkert slíkt máli lengur?

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is