Kristín Lovísa Sigurðardóttir alþm. fæddist í Reykjavík 23.3. 1898. Hún var dóttir Sigurðar Þórólfssonar, kennari og síðar skólastjóri á Hvítárbakka í Borgarfirði og f.k.h., Önnu Guðmundsdóttur sem lést ung.

Kristín Lovísa Sigurðardóttir alþm. fæddist í Reykjavík 23.3. 1898. Hún var dóttir Sigurðar Þórólfssonar, kennari og síðar skólastjóri á Hvítárbakka í Borgarfirði og f.k.h., Önnu Guðmundsdóttur sem lést ung.

Seinni kona Sigurðar var Ásdís Margrét Þorgrímsdóttir og eignuðust þau tíu börn. Meðal þeirra hálfsystkina Kristínar má nefna Þorgrím Vídalín, prófast á Staðastað; Önnu, forstöðumann Kvennasögusafns Íslands; Ásberg, alþm. sýslumann og borgarfógeta, föður Jóns Ásbergssonar, framkvæmdastjóra Íslandsstofu, og Valborgu, skólastjóra Fósturskólans, móður Sigríðar Snævarr sendiherra.

Eiginmaður Kristínar var Karl Óskar Bjarnason, varaslökkviliðsstjóri í Reykjavík, og eignuðust þau þrjú börn sem öll eru látin. Þau voru Guðmundur, brunavörður og síðar blaðamaður en meðal barna hans er Guðrún Hrefna skrifstofustjóri; Anna Kristín, en meðal barna hennar eru Sólveig Hrönn Kristinsdóttir sjúkraliði og Karl Gústaf Kristinsson yfirlæknir. Sigurður var yngstu barna Kristínar og Karls, rafvélavirki og brunavörður.

Kristín stundaði nám í Lýðskólanum á Hvítárbakka 1913-15. Hún stundaði verslunar- og skrifstofustörf í Reykjavík 1915-18 og var síðan lengst af húsfreyja auk þess sem hún var mjög virk í félagsmálum.

Kristín var ein af fyrstu konum sem kjörnar voru á þing, var landskjörinn alþm. fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1949-53. Hún var lengi ritari sjálfstæðiskvennafélagsins Hvatar, var formaður áfengisvarnanefndar kvenna í Reykjavík og Hafnarfirði og beitti sér mjög fyrir bindindismálum, var formaður framkvæmdanefndar Hallveigarstaða og sat í stjórn Kvenréttindafélags Íslands um árabil, sat í miðstjórn og skipulagsnefnd Sjálfstæðisflokksins, var formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna og sat í orlofsnefnd húsmæðra og í barnaverndarnefnd Reykjavíkur.

Kristín lést 31.10. 1971.