Ragnheiður Guðmundsdóttir, Heiða, fæddist í Innri-Hjarðardal í Önundarfirði hinn 8. desember 1925. Hún lést 28. febrúar 2014. Hún var dóttir hjónanna Sigríðar Hagalínsdóttur og Guðmundar Gilssonar og var áttunda í röð tíu barna þeirra. Systkinin frá Innri-Hjarðardal eru Gils, f. 1914, Ingibjörg, f. 1916, Helga Guðrún, f. 1918, Þórunn, f. 1920, Hagalín, f. 1921, Kristján, f. 1923, Magnús, f. 1924, Ragnheiður, f.1925, Páll, f. 1927, og Bjarni Oddur, f. 1930. Ragnheiður ólst upp í foreldrahúsum í Hjarðardal ásamt systkinum sínum og tók þátt í þeim störfum sem þar voru unnin sín bernsku- og æskuár. Veturinn 1944-1945 stundaði hún nám í Héraðsskólanum á Laugarvatni og á Húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði veturinn 1947-1948. Ragnheiður giftist Einari Guðna Tómassyni frá Auðsholti, þá í Biskupstungum, hinn 8. desember 1950. Þau byggðu sér hús í Auðsholti og bjuggu þar fyrst félagsbúi með Tómasi bróður Einars og konu hans Helgu Þórðardóttur og síðan með syni sínum og tengdadóttur, Guðmundi Gils og Jarþrúði Jónsdóttur. Heiða gekk til allra starfa í sveitinni bæði úti og inni. Um áratuga skeið tóku Heiða og Einar börn í sumardvöl og skiptir fjöldi þeirra tugum. Heiða og Einar eignuðust fimm börn en misstu einn son á öðru ári. Börn þeirra eru: 1) Sigríður Ása, f. 1951, sambýlismaður Gunnar Gunnarsson. Börn hennar eru: a) Einar Jón Kjartansson, maki Valdileia Martins de Oliveira, hans börn eru Atli Jakob og Anna Luiza, b) Soffía Guðrún Kjartansdóttir, maki Sigurgeir Guðmundsson, börn þeirra eru Konráð Elí, Marteinn Hugi og Ástríður Erna, c) Davíð Ernir Harðarson, d) Snorri Harðarson. 2) Guðmundur Gils, f. 1954, maki Jarþrúður Jónsdóttir. Börn þeirra eru: a) Guðrún Ragnheiður, maki Víglundur Sverrisson, börn: Jana Eir, Emil Tumi og Fura Lív, b) Guðni Reynir, c) Auður Ösp. 3) Unnsteinn, f. 1958, hans dóttir er Kristín. Útför Ragnheiðar fer fram frá Skálholtskirkju í dag, 22. mars 2014, og hefst athöfnin kl. 14.

Selja litla fæddist fyrir vestan

- þannig hefst ljóð eftir Guðmund Inga Kristjánsson, skáld og sveitunga Heiðu frá æskuslóðum hennar vestur í Önundarfirði.
Ragnheiður Guðmundsdóttir fæddist í Innri-Hjarðardal Önundarfirði, 8. des. 1925.
Foreldrar hennar voru Guðmundur Gilsson, bóndi og kona hans Sigríður Hagalínsdóttir.
Heiða ólst upp í hópi 10 systkina og var þriðja yngst.

frjáls og hraust í túni lék hún sér,
hlaut, við nám og erfðir allra bestan
yndisleik, sem telpum gefinn er.

Þessar ljóðlínur áttu beint við æskuár Heiðu í Önundarfirðinum, sagði hún mér sjálf.
Leið Heiðu lá suður til höfuðborgarinnar og síðar áfram austur í Biskupstungur, er hún giftist Einari Tómassyni frá Auðsholti, 8.des. 1950.
Inga, eldri systir Heiðu bjó á Spóastöðum í Biskupstungum ásamt manni sínum Þórarni Þorfinnssyni bónda þar. Þær systur nutu nábýlisins en Hvítá skildi þær þó að.

Heiða og Einar reistu sér hús móti suðri í Auðsholti, þar sem Hvítá bugðast framhjá, breiðir úr sér yfir sandeyrarnar og vinalegt Vörðufellið blasir við handan árinnar.
Fyrsta sumar Heiðu í Auðsholti 1951, bjuggu þau Einar í Vesturbænum, húsi tengdaforeldranna, meðan á húsbyggingunni stóð.
Heiða og Einar voru nýgift, nýkomin á ættaróðalið, með nýja húsið í byggingu og von á frumburðinum með haustinu. Lét Heiða sig þá ekki muna um að taka að sér óvænt og óundirbúið ókunnugt 6 ára barn frá Reykjavík, sem bóngóður bóndi hennar var beðinn fyrir.
Hermannabedda var komið fyrir við fótagafl á rúmi ungu hjónanna og fyrsta sumardvalarbarnið boðið velkomið.
Þannig reyndust þau samhentu hjón ætíð þeim, er til þeirra leituðu - með hlýju og opnum örmum.
Þetta fyrsta en ekki síðasta - fósturbarn Heiðu og Einars dvaldi hjá þeim í ellefu sumur og  vetur að auki.
Eftir að þau hjón fluttu inn í eigið hús í Auðsholti, jókst fjöldi sumardvalarbarna jafnt og þétt og hefur náð tugum í áranna rás.

Heiða og Einar eignuðust fimm börn, en misstu ungan dreng, Vilhjálm Borgar, tæplega eins og hálfs árs gamlan, í júní 1961.  Það var sárt og erfitt sumar hjá þeim góðu hjónum.
Vilhjálmur litli var jarðsettur við hlið afa síns og ömmu, Tómasar Tómassonar og Vilborgar Jónsdóttur í heimagrafreit í Auðsholti.

Atorkusemi Heiðu birtist hvert sem litið var.
Morgunmjaltir og burður stórra mjólkurbrúsa niður í Hvítá til kælingar, uns þeir voru ferjaðir með árabát yfir ána og í veg fyrir mjólkurbílinn.
Auðsholt var ferjustaður yfir Hvítá og samgönguleið Hreppamanna til læknisþjónustu í Laugarási eða erinda að Skálholti, áður en Iðubrúin var reist.

Gestrisni var þeim hjónum í blóð borin. Var því fastur liður að veita kaffi eða aðra hressingu, hverjum þeim er á ferju þurfti að halda.
Sérstaklega er minnisstætt, þegar Hreppamenn komu hver á fætur öðrum, örþreyttir og sótsvartir með vatnsfötur í hendi, frá því að berjast við eld, er brann í Skálholti.  Sjá mátti rauðan eldbjarmann bera við himin, heiman frá Auðsholti.

Síðar eftir að vegur var lagður og ár brúaðar heim að Auðsholti, kom mjólkurbíllinn heim í hlað og bílstjórinn átti fastan sess við eldhúsborðið hjá Heiðu.

Húsmæðraskóladvölin á Laugalandi í Eyjafirði bar mikinn og góðan ávöxt á heimili og umhverfi Heiðu og Einars.  Við börnin fengum að heyra margar skemmtilegar sögur og söngva þaðan, frá hennar ungu dögum.  Að sjálfsögðu einnig frá barnmörgu æskuheimili hennar að Innri-Hjarðardal.
Bakstur var ekki skorinn við trog. Afraksturinn var ilmandi brauð, kökur og stampar fullir af kleinum.
Flatkökur voru bakaðar oft og iðulega á stóru, gulu AGA koxvélinni í eldhúsinu.
Berjatínsla var Heiðu umhuguð.  Einar lagði sitt af mörkum, tjaldaði með segldúk yfir vörubílspallinn, kom bekkjum og kössum haganlega fyrir og lagt var af stað í árlega berjatínsluferð í Þjórsárdalinn af mikilli tilhlökkun. Í Þjórsárdalnum voru berjatínur teknar fram og mjólkurbrúsar fylltir af berjum.
Bláber voru gjarna tínd í landi Spóastaða.  Þangað fór Heiða til Ingu systur sinnar með barnahópinn, sem dreifðist um ilmandi bláberjamóana.
Eftir heimkomuna var hreinsað, sultað og saftað í stórum potti.  Afurðunum ausið í krukkur og síað á flöskur, sem síðan stóðu í röðum á búrhillum.
Alaska-aspir gróðursetti Heiða umhverfis húsið til varnar norðannæðingi.  Allt grænmeti, sem hægt var að verða sér úti um ræktaði hún og nýtti uppskeruna.
Villtan gróður svo sem njólablöð, sendi hún okkur börnin út að tína og nýtti til matargerðar.
Kartöflugarðarnir í sólbökuðum sandinum á bökkum Hvítár voru oftast gjöfulir og þurfti þá margar hendur til að tína og koma uppskerunni í hús.
Sláturgerð fór að sjálfsögðu fram heima og sviðakjammar sviðnir yfir eldi.

Handavinna var gripin, hvenær sem færi gafst, árstíðabundið.  Vefstóll var uppi á vetrum, teppi og gólfmottur ofnar.
Meðan Gunnu frænku, Guðrúnar Gilsdóttur föðursystur Heiðu naut við, var ullin kembd og spunnin og prjónarnir gengu látlaust.
Prjónavél eignaðist Heiða, mikið þarfaþing, þegar börn og fósturbörn voru orðin mörg og auka þurfti afköstin.
Kanínur tók hún að rækta og nýtti ullina í dúnmjúka prjónaða sokka.
Heiða var svo engum duldist athafnasöm og afkastamikil búkona, - alltaf full áhuga og reiðubúin að prófa eitthvað nýtt.
Þannig urðu jurtakremin til.  Og fagurskreytt gjafakort, með þurrkuðum íslenskum jurtum.

Nú á nýliðnu ári, er Heiða varð 88 ára var hún byrjuð að mála myndir gjarna landslag æskustöðvanna við Önundarfjörð.

Heiða missti mann sinn Einar Tómasson 25. mars 1988.  Í veikindum hans hjúkraði hún honum heima af natni og umhyggju til síðustu stundar með dyggum stuðningi barna þeirra.
Síðustu árin hefur Heiða dvalið á Fossheimum, Sjúkrahúsinu á Selfossi og notið þar sérstakrar alúðar og umönnunar.
Börn hennar og barnabörn hafa aldrei verið langt undan - mörg hver búsett á Selfossi og nágrenni.
Naut Heiða þess í ríkum mæli.
Dýrmætast af öllu fannst henni að komast heim í Auðsholt til styttri eða lengri dvalar að sumri til í þeirra samfylgd.
Börn og barnabörn þeirra heiðurshjóna eiga sjóð minninga og þann stað, sem tengir þau öll í Auðsholti.

Einstök og eftirminnileg kona er kvödd með hjartans þakklæti fyrir ógleymanleg og dýrmæt ár hjá Heiðu og Einari í Auðsholti af fyrsta fósturbarninu.

Jóna Garðarsdóttir.