Flestir bera virðingu fyrir breskum dómurum, þegar þeir skálma þungbúnir í réttarsali í skikkjum með hárkollur og þúsund ára hefð að baki, og allir aðrir flýta sér að standa upp.

Flestir bera virðingu fyrir breskum dómurum, þegar þeir skálma þungbúnir í réttarsali í skikkjum með hárkollur og þúsund ára hefð að baki, og allir aðrir flýta sér að standa upp. Ég hef þó oftar en einu sinni tekið eftir því, að þeir eru skeikulir og þá um einfaldar staðreyndir.

Eitt dæmið er, þegar áfrýjunardómstóll, Court of Appeal, í Lundúnum kvað upp úrskurð 3. mars 2008 í máli, sem ég hafði áfrýjað þangað. Dómararnir voru Clarke, Dyson og Jacob. Í lýsingu á málsatvikum fremst í dómnum (2. grein) segir, að þau séu tekin úr dómi undirréttar, sem kveðinn var upp 8. desember 2006. Enn segir þar, að ég hafi birt á heimasíðu minni „í Englandi“ tiltekin ummæli, sem voru tilefni dómsmálsins. Ekkert er hins vegar um það í dómi undirréttar, að heimasíðan hafi verið í Englandi, og hún var það ekki, heldur var þetta heimasíða mín í Háskóla Íslands, þótt aðgengileg væri frá Bretlandi eins og frá hundrað öðrum löndum.

Annað dæmi sýnu alvarlegra er, þegar skilanefnd Kaupþings höfðaði skaðabótamál í Bretlandi gegn breska fjármálaráðuneytinu. Skilanefndin tapaði málinu með úrskurði 20. október 2009. Dómararnir voru Richards og Maddison. Í lýsingu á málsatvikum í dómnum (20. gr.) segir: „6. október var viðskiptum með hlutabréf íslensku bankanna hætt, og ríkisstjórn Íslands setti neyðarlög, sem fólu í sér tryggingar fyrir innstæðueigendur í íslenskum útbúum bankanna.“ Þetta er rangt. Í fyrsta lagi setti ríkisstjórnin ekki neyðarlögin, heldur Alþingi. Það atriði er þó ekki eins mikilvægt og hitt, að í neyðarlögunum (nr. 125/2008) er hvergi að finna nein ákvæði um það, að innstæður í íslenskum útbúum bankanna séu sérstaklega tryggðar, heldur segir þar, að kröfur innstæðueigenda (og þá allra, erlendra jafnt og íslenskra) á hendur hugsanlegum þrotabúum bankanna séu forgangskröfur.

Annað mál er það, að ríkisstjórnin lýsti því samtímis yfir, að hún ábyrgðist allar innstæður í íslenskum útibúum bankanna. En sú yfirlýsing hafði ekkert lagagildi og var hliðstæð yfirlýsingum margra annarra ríkisstjórna á sama tíma, sem vildu koma í veg fyrir áhlaup á banka.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is